Valgerður Álfheiður Sigurðardóttir fæddist á Akranesi 9. október 1931. Hún lést á hjartadeild Landspítalans 7. nóvember 2016.

Foreldrar hennar voru Sigurður Símonarson, f. 20. janúar 1893, d. 26. júní 1965, og Valgerður Guðrún Halldórsdóttir, f. 20. maí 1892, d. 1. mars 1986. Þau bjuggu lengi á Suðurgötu 42 (Lundur) og á Sóleyjargötu 8, Akranesi. Systkini Valgerðar voru Guðleifur, Jón Engilbert, Guðrún Guðmunda, Halldór Valgarður, Jakob Jóhannes og Halldóra, sem er ein eftirlifandi.

Valgerður giftist 17. júní 1953 Jóni Benedikts Ásmundssyni, fyrrverandi kennara og bæjarritara á Akranesi. Hann varð síðar skólastjóri á Ísafirði, f. 24. desember 1930, d. 21. nóvember 1974. Foreldrar hans voru Ásmundur Jónsson og Jónína K. Eyvindsdóttir, Dal, Borgarnesi. Valgerður og Jón Ben. eignuðust fimm börn: I. Ásmundur f. 23.1. 1953. Maki Tove Klepsvik, þeirra dóttir er Ragnhildur. Börn Tove frá fyrra hjónabandi eru Erling, Olav og Ingeborg. II. Stúlka, óskírð, 11.4. 1954, d. 6.6. 1954. III. Valgerður Guðlaug, f. 23.10. 1955. Maki Ólafur Ágúst Halldórsson, þeirra börn eru Halldór Magnús, Jón Benedikts og Haukur Smári. IV. Margrét Þóra Jónsdóttir, f. 17.4. 1958. Unnusti hennar er Páll Steinþór Bjarnason. Dóttir Margrétar er Valgerður Ása. V. Sigurður, f. 6.4. 1960. Maki Guðbjörg Gunnarsdóttir. Þeirra börn eru Jón Benedikts, Nikulás Rúnar, Valgerður Álfheiður, Þórður Már og Eyvindur Enok. Sigurður hefur einnig gengið dóttur Guðbjargar, Gunni, í föðurstað. Barnabörn Valgerðar eru 10 og langömmubörnin orðin 13. Sambýlismaður Valgerðar síðastliðin 39 ár er Þorbjörn Klemens Eiríksson húsasmíðameistari, f. 6. júní 1932.

Valgerður ólst upp á Akranesi og stofnaði þar sitt fyrsta heimili ásamt Jóni Ben. Hún vann að mestu við heimilisstörf og var öflug í félagsstarfsemi, bæði í Skátafélagi Akraness og Sjálfstæðisfélaginu Báru. Haustið 1971 fluttu Jón og Valgerður til Ísafjarðar þar sem hann varð skólastjóri Gagnfræðaskóla Ísafjarðar. Eftir lát Jóns hóf hún vinnu við vefnað og skrifstofustörf á Ísafirði. Valgerður flutti frá Ísafirði og stofnaði heimili með Þorbirni Eiríkssyni í Kópavogi haustið 1977. Hún byrjaði fljótlega að vinna við verslunarstörf og var verslunarstjóri í Rosendahl í Reykjavík í nokkur ár áður en hún hóf störf hjá Sjúkrasamlagi Kópavogs, þar sem hún lauk sínum stafsferli. Í Kópavogi var Valgerður ötul við félagsstörf, bæði í Sjálfstæðiskvennafélagi og í Lions. Í mörg ár stundaði hún einnig postulínsmálun og var iðin og nákvæm við það. Valgerður fylgdist vel með þjóðmálum og eitt það síðasta sem hún gerði var að fara á kjörstað og kjósa við þingkosningarnar. Fótbolti var áhugamál alla tíð og fylgdist hún vel með frammistöðu ÍA. Hún var dugleg að ferðast og heimsækja börn og barnabörn í Noregi. Hannyrðir og matargerð voru í miklu uppáhaldi hjá henni og mátti sjá þess góð dæmi á fallegu heimili hennar.

Að ósk hinnar látnu fór útför Valgerðar fram í kyrrþey frá Akraneskirkju 16. nóvember.

Heyr Drottins orð um elsku Guðs og náð, sem aldrei dvín,

leggðu þeim, Drottinn, líkn og hjálpar ráð, er leita þín.

Heyr vora bæn þó bresti orða gnótt,

við biðjum samt, þó málið verði hljótt.

(Sig. Símonarson.)

Það er alltaf sérstök tilfinning sem verður þegar einhver sem maður hefur þekkt frá fæðingu og hefur þótt vænt um deyr. Það er margs að minnast frá liðnum árum en ég var svo heppin að vera mikið á Skaganum í æsku. Ég er þess fullviss og mér hefur verið sagt að á Lundi í gamla daga var oft samankominn glaðvær hópur og áttu bræður Valgerðar mikinn þátt í knattspyrnulífi bæjarins. Áhugi Valgerðar á fótbolta alla tíð var mikill, hvort heldur það voru Skagamenn eða Arsenal.

Lalla var föðursystir mín sem ég hafði alla tíð mikið samband við. Ég minnist áranna á Sóleyjargötu 8. Þar bjó stórfjölskyldan öll í sama húsinu. Amma og afi – Gunna, Gísli og börn – Lalla, Nonni og börn. Þar var hlaupið á milli hæða og jafnvel athugað hvað var í matinn á hverjum stað. Síðan fluttu Lalla og Nonni á Vogabraut og kom ég þar oft eftir að ég var komin með fjölskyldu og var alltaf vel tekið á móti okkur. Já, vel tekið á móti manni – maður minn! Hún Lalla þurfti alltaf að eiga bakkelsi og lagkökur þurftu jafnvel að vera eftir máli. Hún var húsmóðir af lífi og sál. Seinna fluttu þau á Ísafjörð þar sem Nonni var ráðinn skólastjóri við Gagnfræðaskólann og undu þau og börnin hag sínum vel. Það var því mikið áfall þegar Jón lést af slysförum í nóvember 1974 aðeins 43 ára að aldri og var hann öllum harmdauði. Um það leyti sem Lalla flutti suður fréttist að hún hefði kynnst öðrum manni. Þar var kominn til sögunnar Þorbjörn Eiríksson og hafa þau verið saman síðan og betri mann hefði hún ekki getað fengið því þau voru samvalin í snyrtimennsku, skemmtilegheitum og myndarskap.

Það er mjög misjafnt hvernig sambandi fólks er háttað í fjölskyldum . Fjölskyldur eru dreifðar um heiminn og þannig er í tilviki Löllu þar sem þrjú af börnum hennar búa í Noregi. Fyrir nokkrum árum komu afkomendur Sigurðar Símonarsonar og Valgerðar G. Halldórsdóttur frá Lundi á Akranesi saman og héldu ættarmót. Það var mjög fjölsótt hvaðanæva að úr heiminum og heppnaðist afar vel. Þá voru þrjú systkinin á lífi en nú er Hadda ein eftir og það var skrítin tilviljun að Roland hennar lést sama dag og Lalla því þær systur voru mjög nánar þrátt fyrir að langt væri á milli. Sendum við innilegar samúðarkveðjur til Svíþjóðar.

Heilsa Löllu hefur til margra ára ekki verið sem best. Aldrei vildi hún gera mikið úr því og við höfðum á orði að það væri hægt að fara langt á Lundarþrjóskunni.

Það er Guðsgjöf að verða þetta fullorðin eins og Lalla og vera þetta hress þrátt fyrir allt og fylgjast með öllu.

Ég vil votta Þorbirni, Ása, Valgý, Möggu og Sigga og fjölskyldum þeirra innilega samúð við fráfall frænku minnar.

Blessuð sé minning Valgerðar Álfheiðar Sigurðardóttur og ég veit að það var vel tekið á móti henni.

Sigrún C. Halldórsdóttir.