Mýrdalur Horft yfir Víkurkauptún.
Mýrdalur Horft yfir Víkurkauptún. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Bæta þarf flutningskerfi raforku, ljósleiðaratengingar og vegi til þess að styrkja byggð á svæðinu frá Markarfljóti og austur í Öræfasveit.

Bæta þarf flutningskerfi raforku, ljósleiðaratengingar og vegi til þess að styrkja byggð á svæðinu frá Markarfljóti og austur í Öræfasveit. Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps á vegum forsætisráðherra sem kom með tillögur til viðreisnar byggðum á þessu svæði. Skýrslan var kynnt í gær og hefur ríkisstjórnin fjallað um málið. Er því nú beint til ráðuneyta að skoða efni skýrslunnar og gera tillögur um framkvæmd og fjármögnun einstaka verkefna.

Austursveitir á Suðurlandi búa yfir margvíslegum tækifærum, segir starfshópurinn. Náttúra þar sé sérstök enda geri stór hluti þeirra erlendu ferðamanna sem koma til Íslands sér erindi þangað. Uppbygging innviða hafi þó ekki fylgt auknum ferðamannastraumi eftir og því þurfi að bregðast við. Hvað samgöngumál áhrærir er sagt að breikka þurfi vegi og brýr og undirbúa nýtt vegstæði um Mýrdal með jarðgöngum í gegnum Reynisfjall. Þá verði héraðinu til góðs að efla fræðslustarf, heilbrigðisþjónustu, landvörslu, löggæslu og sjálfbæra nýtingu hvers konar náttúruauðlinda. Í því sambandi er nefndur jarðvangurinn Katla Geopark. Starfsemi hans er meðal annars ætlað að efla svæðið og byggð þar á forsendum náttúrunnar, en á þessum slóðum eru til dæmis öflugar og virkar eldstöðvar, jöklar og önnur síkvik reginöfl. sbs@mbl.is