Lífstykkjabúðin 100 ára Guðrún Steingrímsdóttir og Gunnhildur Þórarinsdóttir í versluninni.
Lífstykkjabúðin 100 ára Guðrún Steingrímsdóttir og Gunnhildur Þórarinsdóttir í versluninni. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Viðskiptavinir hafa getað gengið að Lífstykkjabúðinni vísri í Reykjavík frá 1916.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Viðskiptavinir hafa getað gengið að Lífstykkjabúðinni vísri í Reykjavík frá 1916. Hún er eitt elsta fyrirtæki borgarinnar, hefur sinnt körlum og konum í 100 ár og meðal annars selt nærföt, náttföt, aðhaldsfatnað og fleira í heila öld.

Guðrún Steingrímsdóttir hefur staðið vaktina síðan hún keypti verslunina 1993, þá 64 ára, af Þóri Skarphéðinssyni og Guðjóni Hólm. „Eftir að við hættum með gjafavöruverslunina Kosta Boda var ég atvinnulaus, þurfti vinnu og þegar mér bauðst að kaupa búðina sló ég til með hjálp sona minna,“ segir hún. Ýmsir létu í ljós efasemdir vegna ákvörðunar hennar á þessum aldri en Guðrún hélt sínu striki. „Ég varð að vinna eitthvað, aldursins vegna fékk ég ekki vinnu og því varð ég að bjarga mér sjálf,“ segir hún.

Stuðningsbelti fyrir sjómenn

Elísabet Kristjánsdóttir Foss, 26 ára ekkja og tveggja barna móðir, lærði lífstykkjasaum í Danmörku og stofnaði Lífstykkjabúðina árið 1916. Samfara búðinni var lengi starfrækt saumastofa og var fyrirtækið nær einrátt í framleiðslu á lífstykkjum, brjóstahöldum og magabeltum. Frúarbelti og brjóstahaldarar voru saumuð eftir máli og sjómenn fengu þar stuðningsbelti sem gögnuðust vel á hafi úti. „Karlarnir fá beltin ekki lengur en þeir koma og kaupa á konurnar í staðinn,“ segir Guðrún.

Þegar Guðrún keypti búðina byrjaði hún á því að gefa saumastofum leikhúsanna lager saumastofunnar og einbeitti sér að versluninni. „Það skiptir öllu að hafa eitthvað fyrir stafni og það hefur verið mjög gefandi að vinna með góðu starfsfólki og aðstoða viðskiptavini, að vera innan um fólk,“ segir Guðrún og bætir við að Gunnhildur Þórarinsdóttir verslunarstjóri sjái að mestu um reksturinn nú orðið. „Ég reyni samt að koma daglega en er hætt að fara í innkaupaferðir til útlanda.“

Guðrún hefur aldrei setið auðum höndum, og áður en hún eignaðist synina þrjá var hún á ferð og flugi. Hún starfaði lengi hjá Eimskipafélagi Íslands og var meðal annars á skrifstofunni á Gullfossi, þegar farþegaskipið var leigt til Frakklands veturinn 1950 til 1951 vegna ferða á milli Bordeaux og Casablanca í Marokkó. „Þegar við sigldum í Biskajaflóanum var franski skipstjórinn hræddur vegna undiröldu en Pétur Björnsson, hinn skipstjórinn, lét sér fátt um finnast og benti honum á að svona væri sjómannslífið.“ Eftir það var hún flugfreyja hjá Loftleiðum, þar til hún eignaðist fyrsta soninn. „Þá var kvenfólki bannað að fljúga eftir að það eignaðist börn,“ rifjar hún upp, en úr fluginu lá leiðin á Hótel Loftleiðir. Síðan var það Kosta Boda með eiginmanninum Má Egilssyni og loks Lífstykkjabúðin.

Guðrún segir að vissulega sé erfitt að vera í samkeppni við stóru verslanakeðjurnar en hún eigi trausta viðskiptavini. „Þess vegna hef ég ekki gefist upp og ég er líka þrjósk,“ segir hún. Guðrún leggur áherslu á að samskiptin við erlendu birgjana hafi ávallt verið sérlega góð og hún hafi alltaf kappkostað að bjóða upp á úrvalsvörur, einkum frá Þýskalandi, Danmörku, Hollandi og Frakklandi. „Gott persónulegt samband skiptir alltaf miklu máli,“ segir hún.

Margir hafa rennt hýru auga til búðarinnar en Guðrún hefur ekki viljað selja. „Ég er ekki tilbúin til þess alveg strax,“ segir kaupkonan síunga.