Stálin stinn Harðjaxlarnir Helgi Rafn Viggósson og Hlynur Bæringsson eigast við í Garðabænum í gærkvöldi.
Stálin stinn Harðjaxlarnir Helgi Rafn Viggósson og Hlynur Bæringsson eigast við í Garðabænum í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Ófeigur
Körfubolti Kristján Jónsson Einar Sigtryggsson Tindastóll varð í gær fyrsta liðið til að vinna Stjörnuna í Dominos-deild karla í körfuknattleik. Tindastóll hafði betur 91:83 þegar liðin mættust í Garðabænum.

Körfubolti

Kristján Jónsson

Einar Sigtryggsson

Tindastóll varð í gær fyrsta liðið til að vinna Stjörnuna í Dominos-deild karla í körfuknattleik. Tindastóll hafði betur 91:83 þegar liðin mættust í Garðabænum. Um var að ræða fyrsta leikinn í vetur þar sem Israel Martin stýrir liðinu einn, en hann fór með liðið í úrslit Íslandsmótsins vorið 2015.

Sauðkrækingar gerðu róttækar breytingar í vikunni þegar José Maria Costa fór frá félaginu sem og tveir erlendir leikmenn, Pape Seck og Mamadou Samb. „Sigurinn í kvöld snýst ekki um mig heldur um leikmennina. Ég náði bara þremur æfingum með þeim og við reyndum að gera einfalda hluti,“ sagði Martin þegar Morgunblaðið ræddi við hann að leiknum loknum.

Í vikunni var einnig tilkynnt að Tindastóll hefði náð í Bandaríkjamanninn Antonio Hester. Hann kom með nóg af vöðvum með sér en virkar svolítið þungur á sér sem stendur. Hester er greinilega góður leikmaður og hörkufrákastari. Hann gerði 28 stig og tók 13 fráköst í gær.

Skagfirðingar hafa nú unnið fimm af fyrstu sjö leikjunum í deildinni og settu járnkarl í tannhjól Garðbæinga, sem hafa unnið fyrstu sex í deildinni. Um var að ræða hörkuleik, en nokkuð merkilegt er að Stólarnir hafi náð að landa sigri miðað við að þeir fóru mjög illa með vítaskot sín í leiknum. Pétur Rúnar Birgisson sýndi hvað í honum býr eins og oft áður. Í þetta skiptið byrjaði hann ekki vel en lét það ekki slá sig út af laginu og þegar upp var staðið hafði hann skorað 20 stig, stolið boltanum fimm sinnum og gefið 11 stoðsendingar.

Stjarnan getur vafalaust spilað töluvert betur en liðið gerði enda gerðu villuvandræði liðinu erfitt fyrir. Devon Andre Austin fékk fimm villur í leiknum og Hlynur Bæringsson var kominn með fjórar um miðjan þriðja leikhluta. Justin Shouse sýndi að enn er heilmikið púður í honum og skilaði hann 29 stigum, þar af 20 í síðari hálfleik.

Norðrið lagði suðrið í einvígi Þórs og Þórs

Akureyrar-Þórsarar fengu nafna sína úr Þorlákshöfn í heimsókn í gær og voru það heimamenn sem höfðu betur, 80:69. Það var aðeins á upphafsmínútunum sem jafnt var með liðunum en fljótlega náðu heimamenn yfirhöndinni. Þeir byggðu upp gott forskot í 2. leikhlutanum og það tókst gestunum aldrei að minnka að nokkru marki.

Mestur varð munurinn tuttugu stig, í stöðunni 47:27, undir lok annars leikhlutans en þá kom frábær kafli heimamanna. Má segja að sá leikkafli, framar öðru, hafi lagt grunn að góðum sigri norðanmanna. Það sem einkenndi þann kafla var frábær vinnusemi, hraði og fórnfýsi leikmanna sem börðust virkilega á öllum vígstöðvum. Tryggvi Snær Hlynason var þá tiltölulega nýkominn inn á og gaf hann, ásamt Ingva Rafni Ingvasyni, Þórsurum þá innspýtingu sem vantað hafði.

Það sem einkenndi leikinn var sterkur varnarleikur. Hittni inni í teig var slæm hjá báðum liðum en þriggja stiga nýtingin var hreinlega skelfileg. Alls fóru sex þristar niður í 49 tilraunum. Heimamenn voru með 15% nýtingu en gestirnir aðeins 10%.

Þór Þorlákshöfn var að fá annan skell sinn í röð eftir útisigur liðsins gegn KR. Heimamenn virðast hins vegar vera komnir á gott skrið en var þetta þriðji sigur liðsins í síðustu fjórum leikjum.

Akureyringar tefldu fram nýjum leikmanni í leiknum. Sá maður heitir George Beamon. Hann hafði fremur hægt um sig í byrjun leiks en smám saman mátti sjá að þarna fer fínn leikmaður. Var hann með 22 stig og 10 fráköst en það sem mestu skipti í leik hans var öflugur varnarleikur, hreyfanleiki og barátta. Aðrir leikmenn skiluðu sínu og var gaman að sjá Sindra Davíðsson koma sterkan til leiks af bekknum.

Grænklæddir Þórsarar úr Þorlákshöfn má segja að hafi valdið vonbrigðum. Þeirra aðalnúmer, Tobin Carberry, var í strangri gæslu allan leikinn en hann skoraði þó 22 stig. Aðrir voru hreinlega eitthvað vanstilltir og náðu sér fæstir á strik. Leikmenn voru bara góðir í því að ná sér í villur og koma heimamönnum á vítalínuna, en alls tóku Akureyringar 38 vítaskot í leiknum

Fimmti sigur Grindvíkinga

Grindvíkingar halda sínu striki, en þeir lögðu granna sína að velli í „Sláturhúsinu“ í Keflavík í miklum stigaleik, 100:96. Spáð var erfiðum vetri fyrir Grindavíkurliðið í árlegri spá forráðamanna liðanna. Sú virðist aldeilis ekki ætla að verða raunin og hefur veturinn verið mildur í Grindavík hingað til. Liðið byrjaði mótið vel og síðar bættist Dagur Kár Jónsson við og hefur eldmóðurinn aukist við það. Grindvíkingar hafa nú unnið fimm af fyrstu sjö leikjunum, rétt eins og Skagfirðingar. Annar af tapleikjum liðsins var gegn KR á útivelli, en mikið þarf til að sækja stig þangað um þessar mundir.

Sigurhlutfall Keflvíkinga er hins vegar í mínus, en liðið hefur unnið þrjá af fyrstu sjö leikjunum. Bandaríkjamaðurinn Amin Khalil Stevens er greinilega öflugur og skoraði 41 stig gegn Grindavík og tók auk þess 13 fráköst. Guðmundur Jónsson kom næstur með 15 stig.

Bræðurnir Ólafur og Þorleifur voru atkvæðamestir hjá Grindavík að þessu sinni. Ólafur skoraði 25 stig og Þorleifur var með 18 stig.