Erlendis halda prófessorarnir Þorvaldur Gylfason og Stefán Ólafsson því fram að víðtæk stjórnmálaspilling hafi átt þátt í bankahruninu 2008. Hver eru gögnin? Þorvaldur vitnar ekki í nein gögn, en staðhæfir í nettímaritinu Vox 2009, að hvergi í Norður-Evrópu mótist mannlíf eins af klíkuskap og stjórnmálasjónarmiðum og á Íslandi. Í bók um norrænan kapítalisma 2011 vitnar Stefán í rannsókn eftir prófessor Gunnar Helga Kristinsson frá 2006 um, að rösklega 40% stöðuveitinga í há embætti árin 2001-2005 hafi verið stjórnmálalegs eðlis, en ekki ráðist af skrifræðisreglum (goggunarröð) eða hæfnissjónarmiðum.
Stefán mistúlkar að vísu rannsóknina. Gunnar Helgi hafði rætt við 17 sérfræðinga, sem hann valdi sjálfur, um 111 stöðuveitingar árin 2001-2005 og flokkað þær með aðstoð sérfræðinganna. 68% stöðuveitinga voru taldar ráðast af hæfnissjónarmiðum, 57% af skrifræðisreglum og 44% af stjórnmálasjónarmiðum (en auðvitað gátu stöðuveitingar ráðist af fleiri sjónarmiðum en einu; hæfasti umsækjandinn gat verið í sama flokki og ráðherra). Samkvæmt rannsókninni mátti aðeins skýra 16% stöðuveitinga með stjórnmálasjónarmiðum einum.
Þótt Stefán mistúlkaði niðurstöðurnar, má líka gagnrýna rannsóknina með ýmsum rökum. Gunnar Helgi er stækur andstæðingur Sjálfstæðisflokksins og telur þar „skrímsladeild“ öfluga, eins og hann orðaði það í sjónvarpsviðtali 19. ágúst 2009. Hvernig valdi hann sérfræðingana 17? Af hverju valdi hann tímabilið 2001-2005, þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur voru við völd, en ekki önnur tímabil, þegar fleiri flokkar voru í stjórn? Hverjar voru þær stöðuveitingar, sem taldar voru eingöngu ráðast af stjórnmálasjónarmiðum? Gunnar Helgi hefur ekki svarað fyrirspurn minni um síðasta atriðið.
Árið 2008 var hins vegar gerð evrópsk samanburðarrannsókn á stöðuveitingum í krafti stjórnmála (party patronage), og birtust niðurstöðurnar í bók 2012. Þar komast umsjónarmennirnir, Kopecký og Mair, að þeirri niðurstöðu, að Ísland sé í hópi þeirra fimm ríkja af fimmtán, sem rannsökuð voru, þar sem stjórnmálalegar stöðuveitingar séu hlutfallslega fæstar, ásamt Bretlandi, Hollandi, Danmörku og Noregi, en flestar séu þær í Ungverjalandi. Þessar niðurstöður ríma vel við niðurstöður í mælingu Transparency International á spillingarvitund í mörgum löndum. Samkvæmt þeim var Ísland annað óspilltasta land heims af 133 löndum árið 2003 og hið óspilltasta af 158 löndum árið 2005.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is