Erlendis fer Þorvaldur Gylfason prófessor mikinn um þjóð sína, sem hann kveður um ómenningu líkari Rússum í Austurálfu en Norðurlandabúum. Í Milken Review 2010 segir hann til dæmis stjórnmálamenn hafa selt Landsbankann vinum sínum.

Erlendis fer Þorvaldur Gylfason prófessor mikinn um þjóð sína, sem hann kveður um ómenningu líkari Rússum í Austurálfu en Norðurlandabúum. Í Milken Review 2010 segir hann til dæmis stjórnmálamenn hafa selt Landsbankann vinum sínum.

Þetta hefur verið marghrakið. Kaupendur að stórum hluta í bankanum 2002 voru þrír. Björgólfur Guðmundsson hafði verið virkur sjálfstæðismaður, áður en hann fluttist til útlanda, en þá í andófsliði Alberts Guðmundssonar. Var Björgólfur kosningastjóri Alberts í harðsóttu prófkjöri gegn Davíð Oddssyni haustið 1981, þegar kosið var um forystusæti í Reykjavík. Albert gekk úr Sjálfstæðisflokknum 1987 og stofnaði eigin flokk. Björgólfur og Davíð voru því ekki nátengdir, þótt þeir væru engir óvinir. Björgólfur Thor Björgólfsson var óflokksbundinn og vildi ekki nálægt stjórnmálum koma. Magnús Þorsteinsson var flokksbundinn framsóknarmaður.

Þorvaldur segir að Björgólfur Guðmundsson hafi „needed special legislative treatment to qualify because he had been in deep legal trouble in Russia“. Björgólfur þurfti auðvitað ekki á neinni sérstakri lagasetningu að halda, þótt fyrrverandi viðskiptafélagi hans íslenskur tapaði máli gegn honum, eftir að ölgerð Björgólfs í Rússlandi fór að ganga vel.

Þorvaldur segir Björgólf hafa í Hafskipsmálinu svonefnda verið dæmdan í skilorðsbundið fangelsi vegna fjársvika (fraud). Það er ekki rétt lýsing á brotunum, sem voru auk þess smávægileg. Ákæruvaldið hafði farið offari í málinu. Brigsl eru þegar að nauðsynjalausu eru rifjuð upp mál sem menn hafa tekið út dóma fyrir.

Þorvaldur segir enn fremur: „To make matters worse, his son and co-investor was a wheeler-dealer who had made his mark on the world stage through shady privatization deals in the telecommunications business in Bulgaria and the Czech Republic.“ En Björgólfur Thor keypti hlut í þessum fyrirtækjum, eftir að hann varð einn af eigendum Landsbankans, ekki áður. Og raunar keypti hann hlut sinn í hinu tékkneska símafyrirtæki af Deutsche Bank og Dansk Telekom, ekki ríkinu. Ekkert var skuggalegt við þessi viðskipti.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is