[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Baldur Arnarson baldura@mbl.is Fjárfestar hafa að undanförnu keypt lóðir og fasteignir á svonefndum Héðinsreit í Reykjavík fyrir milljarða króna. Uppbyggingin fór á ís vegna efnahagshrunsins og ágreinings í réttarsölum.

Fréttaskýring

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fjárfestar hafa að undanförnu keypt lóðir og fasteignir á svonefndum Héðinsreit í Reykjavík fyrir milljarða króna. Uppbyggingin fór á ís vegna efnahagshrunsins og ágreinings í réttarsölum. Nú gætu framkvæmdir hins vegar senn hafist.

Til einföldunar skiptist Héðinsreitur í tvo hluta. Annars vegar Seljaveg 2 og svo lóðina Vesturgötu 64. Samkvæmt kynningarefni frá Reykjavíkurborg gætu allt að 275 íbúðir rúmast á Héðinsreitnum. Hugmyndir eru um að byggja tvö hótel, sitt á hvorum hluta Héðinsreits.

Seld á nauðungaruppboði

Málið varðar þannig tvær fasteignir á Héðinsreitnum, lóðina Vesturgötu 64 og stórhýsið Seljaveg 2.

Fyrrnefnda lóðin, Vesturgata 64, var seld á nauðungaruppboði Sýslumannsins í Reykjavík 1. febrúar 2016 fyrir 1.297 milljónir króna. Hæstbjóðandi var félagið Hróður ehf. og greiddi það kaupverðið í samræmi við almenna uppboðsskilmála. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins buðu nokkrir hópar í lóðina, þar með talidir fulltrúar Íslandsbanka, en drógu sig í hlé þegar verðið tók að hækka. Fram kemur í afsalinu að hæstbjóðandi, þ.e. Hróður ehf., var veðhafi í eigninni.

Gerðarþoli í afsalinu var félagið Héðinsreitur ehf. Samkvæmt Creditinfo voru sex hluthafar í Héðinsreit ehf. í árslok 2015. Sveinn Jónatansson lögmaður var skráður fyrir 41% hlut og Haraldur, Höskuldur og Sigurður Hjálmar Ragnarssynir áttu 13,7% hlut hver en Ágústa Símonardóttir og Lögmannsstofa JAÞJ minni hlut. Þess má geta að félagið Hróður ehf. hét áður AB 412 ehf.

Sama heimilisfang og Samskip

Samkvæmt fyrirtækjaskrá Creditinfo voru þrír hluthafar í félaginu Hróður ehf. í árslok 2015. Sveinn Jónatansson lögmaður átti 35%, Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Já verks, átti 32,5% og Guðmundur B. Gunnarsson, yfirmaður framkvæmda hjá Já verki, átti 32,5%.

Athygli vekur að heimilisfang félagsins er Kjalarvogur 7-15 en það er heimilisfang viðskiptaveldis Ólafs Ólafssonar athafnamanns, sem gjarnan er kenndur við Samskip, á Íslandi.

Samkvæmt öruggum heimildum Morgunblaðsins kemur Ólafur að þessari fjárfestingu.

Umsvif Ólafs og félaga eru ekki bundin við miðborgina. Þannig var greint frá því fyrr í mánuðinum að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og forráðamenn fasteignafélagsins Festis ehf. hefðu undirritað samning um uppbyggingu 332 íbúða á Gelgjutanga. Í umfjöllun Morgunblaðsins voru aðaleigendur Festis sagðir vera hjónin Ólafur Ólafsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir. Á vef Creditinfo var hollenska félagið SMT Partners B.V. skráð sem eigandi Festis í árslok 2015 en það var tengt eigendum Samskips.

Festir á 60% hlut

Steinsnar frá Héðinsreitnum, á svonefndum Naustreit, er félagið Tryggvagata ehf. skráð fyrir eignarhaldi á lóðum í faseignaskrá. Þar er líka áformað að reisa hótel. Reiturinn afmarkast af Tryggvagötu, Norðurstíg og Vesturgötu.

Samkvæmt fyrirtækjaskrá Creditinfo á Festir 60% hlut í Tryggvagötu ehf. Félagið Laxamýri á 40% hlut en það er skráð í eigu Hjalta Gylfasonar, forstjóra Mannverks, og Jónasar Más Gunnarssonar, hluthafa í Mannverki.

Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár í nóvember sl. komu þeir Hjalti Gylfason, Heimir Sigurðsson, stjórnarformaður Festis, og Jónas Þór Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Festis, í stjórn félagsins Hróður ehf. í október sl. Um leið var lögheimili félagsins breytt og er það sem áður segir Kjalarvogur 7-15. Það er sama heimilisfang og hjá Festi. Þá hefur Morgunblaðið sagt frá áformum Festis um að breyta Suðurlandsbraut 18 í 200 herbergja borgarhótel.

Fram kemur á vef Festis að Festir sé fasteignaþróunarfélag stofnað af Ólafi Ólafssyni.

560 milljóna veðskuldabréf

Hin fasteignin á Héðinsreitnum er Seljavegur 2 og er skráður eigandi félagið Seljavegur ehf.

Fram kom í ViðskiptaMogganum nýverið að byggingafulltrúi í Reykjavík hafi tekið til umfjöllunar, og vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, beiðni um breytingar á byggingunni að Seljavegi 2. Sú bygging hýsti vélsmiðjuna Héðin og síðar Loftkastalann. Samkvæmt umsókn Seljavegar ehf. er stefnt að því að reka hótel í húsinu með 146 herbergjum fyrir allt að 304 gesti.

Hugmyndir um hótel á lóðinni norðvestan við Héðinshúsið koma þar til viðbótar. Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans hafði félagið Laugavegur ehf. fest kaup á Héðinshúsinu af Seljavegi ehf. Samkvæmt fyrirtækjaskrá Creditinfo er Sturla Sighvatsson skráður eigandi félagsins Laugavegur ehf. Sturla hefur starfað fyrir fjárfestingafélagið Volcanic Capital.

Samkvæmt veðskuldabréfi, sem gefið var út 18. apríl í fyrra, gaf félagið Seljavegur út óverðtryggt veðskuldabréf til Kviku banka að fjárhæð 560 milljónir og er lokagjalddagi 15. janúar nk.

Samkvæmt öruggum heimildum Morgunblaðsins voru verðhugmyndir fyrir umræddar fasteignir á Seljavegi 2 um og yfir 2 milljarðar króna.

Forstjóri Center Hotels í stjórn Seljavegar ehf.

Samkvæmt fyrirtækjaskrá Creditinfo voru þrír hluthafar í Seljavegi ehf. í árslok 2015. Þeir voru félögin RPF Admaker ehf., Effekt ehf. og INN fjárfesting ehf. Síðastnefnda félagið hefur verið í eigu Ingunnar Wernersdóttur fjárfestis. Engar upplýsingar um félagið eru aðgengilegar í fyrirtækjavef Creditinfo. Samkvæmt öruggum heimildum Morgunblaðsins hafa Ingunn og samstarfsaðilar selt hlut sinn í umræddri fasteign. Fasteignasali sem kom að sölunni vildi ekki tjá sig um málið.

Fram kemur í tilkynningu um breytingu á stjórn Seljavegar ehf. í nóvember 2016 að nýir stjórnarmenn voru Þórarinn Arnar Sævarsson, löggiltur fasteignasali hjá Remax, Linda Björk Bentsdóttir, héraðsdómslögmaður, Kristófer Oliversson, forstjóri og eigandi Center Hotels, og Ríkharð Ottó Ríkharðsson, framkvæmdastjóri Nýja Norðurturnsins hf. við Smáralind.