Íslands er getið í fundargerð frá bandaríska seðlabankanum 28.-29. október 2008. Það er engin ný frétt, heldur kom fram opinberlega fyrir nokkrum árum.

Íslands er getið í fundargerð frá bandaríska seðlabankanum 28.-29. október 2008. Það er engin ný frétt, heldur kom fram opinberlega fyrir nokkrum árum. Þar segir, eins og líka hefur lengi verið vitað, að árið 2008 hafnaði bandaríski seðlabankinn gjaldeyrisskiptasamningi við íslenska seðlabankann vegna þess, að kerfið hér þyrfti miklu meira en 1-2 milljarða dala.

En nokkrar nýjar fréttir eru í gömlu fréttinni. Í fyrsta lagi segir í fundargerðinni, á öðrum stað, að íslenski seðlabankinn hafi beðið hinn bandaríska um gjaldeyrisskiptasamning um svipað leyti og hinn evrópska. Þetta hefur því verið vorið 2008. Í bréfi 15. mars 2008 bað íslenski seðlabankinn hinn evrópska um gjaldeyrisskiptasamning og sendi afrit til bandaríska seðlabankans. Davíð Oddsson talaði margsinnis við stjórnendur bankanna, Jean-Claude Trichet og Timothy F. Geithner, og ítrekaði þessar beiðnir. Hann skrifaði síðan Geithner aftur í júní og október.

Í öðru lagi var hugmyndin einmitt að gera gjaldeyrisskiptasamninga við nokkra aðila, sem gætu numið miklu hærri upphæð samtals en farið var fram á frá bandaríska seðlabankanum. Nathan Sheets, sem segir samkvæmt fundargerðinni, að 1-2 milljarða samningur myndi ekki hafa tilætluð áhrif, tekur það ekki með í reikninginn.

Í þriðja lagi kann að vera rétt, að íslenski seðlabankinn hefði þurft 10 milljarða dala gjaldeyrisskiptasamning, eins og Geithner sagði Davíð munnlega. En af hverju gerðu Bandaríkjamenn þá ekki slíkan samning? Þá munaði ekkert um það. Þeir höfðu látið Íslendinga fá tvöfalt meiri Marshall-aðstoð á mann en Hollendinga og haldið aftur af Bretum í landhelgisdeilunum. Skýringin er auðvitað, að þeir höfðu misst áhuga á Íslandi, sem var ekki lengur hernaðarlega mikilvægt.

Í fjórða lagi er athyglisvert, að í fundargerðinni er strikað yfir nöfn annarra ríkja, sem báðu árangurslaust um gjaldeyrisskiptasamninga. En Ísland var of lítið til þess, að taka þyrfti slíkt tillit til þess.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is