Klínikin Úr húsnæðinu við Ármúla þar sem starfsemin er til húsa.
Klínikin Úr húsnæðinu við Ármúla þar sem starfsemin er til húsa. — Morgunblaðið/RAX
Inga Lillý Brynjólfsdóttir, formaður Brakka-samtaka BRCA-arfbera, segir mikla ánægju meðal BRCA-kvenna með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga í aðgerðum Klíníkunnar. „Það hefur gífurlega þýðingu fyrir okkur að geta valið.

Inga Lillý Brynjólfsdóttir, formaður Brakka-samtaka BRCA-arfbera, segir mikla ánægju meðal BRCA-kvenna með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga í aðgerðum Klíníkunnar. „Það hefur gífurlega þýðingu fyrir okkur að geta valið. Ég fór í aðgerð til Kristjáns Skúla og er mjög ánægð með útkomuna og alla hans vinnu í kringum þetta. Hann er heimsþekktur sem góður brjóstaskurðlæknir en þetta snýst ekki um þennan eina lækni, það eru mjög færir læknar á Landspítalanum líka. Þetta snýst um að hafa valið,“ segir Inga Lillý.

Hún segir BRCA-konur oft hafa upplifað að þær séu settar til hliðar á Landspítalanum. „Það er reyndar búið að laga biðlistana á spítalanum núna en þetta var þannig að ef það kom inn veikt fólk þá gekk það fyrir í aðgerðir og við vorum settar til hliðar, kannski aftur og aftur. Það er skiljanlegt að þeir sem eru veikir gangi fyrir og við viljum að þeir hafi forgang, en nú höfum við þetta val að fara annað og það léttir kannski álagi á Landspítalanum. Það er líka mikilvægt að geta fengið álit annarra.“

Inga Lillý segist vita um a.m.k. eina konu sem er búin að bíða með að fara í brjóstnám þar til kæmi í ljós hvort SÍ tæki þátt í aðgerðum á Klíníkinni. Hún segir þetta fyrsta baráttumálið sem BRCA-konur vinni en mörg séu framundan, t.d. í sambandi við kostnað við eftirlit. „Þeir sem eru BRCA-greindir fara oft í krabbameinseftirlit, eins og segulómskoðun, og kostnaðarþátttakan í því mætti vera meiri.“