Karl Már segir ítarlegar markaðsrannsóknir liggja að baki hönnun og eiginleikum skannans.
Karl Már segir ítarlegar markaðsrannsóknir liggja að baki hönnun og eiginleikum skannans. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Karl Már hjá Anitar kom auga á að hægt væri að nýta örmerkjatæknina betur í landbúnaði, en fyrst þyrfti að hanna og smíða betri örmerkjaskanna.

Það kann að koma sumum lesendum á óvart að mikið er unnið með stafræn gögn í landbúnaði. Karl Már Lárusson kom auga á að vöntun væri á betri hugbúnaði og vélbúnaði til að létta bændum gagnavinnsluna og er útkoman sprotafyrirtækið Anitar (anitar.is).

Núna starfa sex manns hjá fyrirtækinu og um þessar mundir safnar Anitar fyrir framleiðslu nýrrar tegundar örmerkjaskanna á Kickstarter.com. Fyrirtækið hlaut verkefnastyrk til þriggja ára frá Tækniþróunarsjóði og markaðsstyrk að auki og framundan er að búa í haginn fyrir sókn út á erlenda markaði.

Hver á hestinn?

Karl Már, sem er menntaður forritari, er viðriðinn hestaræktun og kviknaði hugmyndin þegar hann þurfti að sækja hross upp í sveit og átti í vandræðum með að finna rétta hestinn. „Þar rakst ég á menn í sömu erindagjörðum og þar sem ég fylgdist með þeim reyna að skanna örmerki hestanna og átta sig á hvaða hestur væri þeirra hvarflaði að mér að það hlyti að vera til þægilegri lausn,“ segir Karl Már og bætir við að hann hafi sjálfur slysast til að taka rangan hest í þessari sömu ferð.

Samkvæmt lögum þarf að örmerkja allan stærri búfénað og halda Bændasamtökin utan um miðlægar skrár þar sem hvert dýr og hvert örmerki eru tengd saman. Í tilviki hesta eru örmerkin tengd stórum gagnagrunni sem hefur að geyma upplýsingar um aldur hestanna, gang, dóma og jafnvel erfðaefnisskráningu. Karl Már segir gallann við núverandi kerfi að mikil handavinna sé fólgin í því að sækja og færa gögn inn í miðlægu skrárnar og t.d. ekki til örmerkjaskannar sem geta sent upplýsingar beint í tölvu.

„Bóndi þarf að skanna dýrið, lesa 15 stafa talnarununa af skjánum, skrifa niður á blað, fara svo í tölvu og tengjast þar réttum gagnagrunni, slá inn tölurnar og þá loksins getur hann nýtt sér möguleika tækninnar,“ útskýrir Karl Már.

Skanninn nýtir eiginleika símans

Örmerkjaskanninn sem Anitar hefur þróað hefur þá sérstöðu að tengjast beint við snjallsíma. Með þar til gerðum hugbúnaði, sem Anitar smíðar líka, getur snjallsíminn jafnharðan sótt upplýsingar í miðlæga gagnagrunna og birt á símaskjánum allt það sem bóndinn vill vita um viðkomandi dýr. „Á augabragði er notandinn kominn með upplýsingar um t.d. eiganda og nafn dýrsins og jafnvel mynd af því.“

Skanninn hefur fengið nafnið Anitar Bullet og er á stærð við snjallsíma, svo hann rúmast auðveldlega í jakkavasa. „Áður en við hófum hönnunina lögðumst við í mikla rannsóknarvinnu og skoðuðum alla helstu örmerkjaskannana sem fást á markaðnum í dag, hver notendahópurinn er og hvað fólk hefði gott og slæmt að segja um skannana. Með þær upplýsingar í höndunum þurftum við að ákveða hvaða leið væri best að fara við hönnunina og varð úr að nýta eins og frekast væri unnt þá tækni sem þegar er í snjallsímanum enda myndi það gera tækið ódýrara í framleiðslu. Þurfum við t.d. ekki að hafa rafhlöðu eða skjá á skannanum fyrst hann er tengdur við snjallsíma.“

Þurfti að beita töluverðri útsjónarsemi til að koma fyrir í svona litlum pakka öllum þeim nemum sem þarf til að lesa velflestar gerðir örmerkja. Rafrásir og aðra íhluti vinnur Anitar í samstarfi við þýskan framleiðanda en öll samsetning fer fram á Íslandi. Hólkarnir utan um örmerkjaskannann eru smíðaðir í þrívíddarprentara en í framtíðinni yrði sprautuformun notuð í staðinn.

Fáir gefa landbúnaði gaum

Til viðbótar við vélbúnaðinn vinnur Anitar að þróun sérhæfðs hugbúnaðar fyrir ólík svið dýraræktunar. „Við köllum hugbúnaðinn RegisAnimal og þar undir er að finna forrit á borð við RegisHorse, RegisDog, RegisCattle og RegisSheep.“

Anitar hefur fundið tiltölulega tómlegan skika á markaðnum og segir Karl Már merkilegt að sjá hve fá fyrirtæki í öllum heiminum þróa hugbúnað fyrir landbúnað. „Af öllum öðrum atvinnugreinum virðist landbúnaðurinn fá minnsta athygli hugbúnaðarfyrirtækja,“ segir hann en bætir við að fyrir vikið séu tækifærin þeim mun meiri fyrir Anitar. „Eins og gefur að skilja er markaðurinn gríðarlega stór. Sem dæmi þá er um hálf milljón manna skráð í heimssamtök dýralækna og er það stétt sem notar örmerkjaskanna í daglegum störfum sínum. Bændur eru síðan mun fleiri.“

Ísland verður prufumarkaður fyrir Anitar og stefnan síðan sett á erlendan markað. Segir Karl Már að Ísland henti vel sem upphafsreitur enda hafi Bændasamtökin byggt upp vandaðan gagnagrunn og verið samstarfsfús. „Þegar Kickstarter-herferðinni lýkur komum við framleiðsluferlinu af stað og munum í framhaldinu leita til fjárfesta sem geta fylgt okkur inn á erlenda markaði.“