Hamfarir Frá björgunarstarfi eftir að snjóflóð féll á Flateyri 26. október árið 1995. Margir þolendur snjóflóðanna glíma enn við áfallatengd vandamál.
Hamfarir Frá björgunarstarfi eftir að snjóflóð féll á Flateyri 26. október árið 1995. Margir þolendur snjóflóðanna glíma enn við áfallatengd vandamál. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Axel Helgi Ívarsson axel@mbl.is Edda Björk Þórðardóttir, nýdoktor við Háskóla Íslands, er ein þeirra sem flytja fyrirlestur á ráðstefnu um náttúruhamfarir og viðnámsþrótt samfélaga, sem fer fram í Hörpu þessa dagana.

Axel Helgi Ívarsson

axel@mbl.is

Edda Björk Þórðardóttir, nýdoktor við Háskóla Íslands, er ein þeirra sem flytja fyrirlestur á ráðstefnu um náttúruhamfarir og viðnámsþrótt samfélaga, sem fer fram í Hörpu þessa dagana. Þátttakendur eru á þriðja hundrað frá 17 löndum og þá er fjöldi fyrirlestra á ráðstefnunni hátt á annað hundrað. Áhersla er lögð á hvernig hægt er að hjálpa fólki sem lent hefur í miklum hremmingum og hvernig fólk getur búið sig undir hamfarir.

Edda fjallar m.a. um rannsókn sína í lýðheilsuvísindum þar sem hún kannar heilsufar þolenda snjóflóðanna í Súðavík og á Flateyri, sem féllu í janúar og október árið 1995. Þá voru sérstaklega rannsökuð áhrif á þolendur, sem voru á aldrinum 2-19 ára þegar snjóflóðin féllu.

Þolendur gíma við svefnvanda

„Það sem við sjáum er að fólk, sem var á barnsaldri þegar snjóflóðin féllu er líklegra til að vera með áfallatengd svefnvandamál í dag en jafnaldrar þess. Við skoðuðum hvað er sem spáir fyrir að fólk þjáist af áfallatengdum svefnvandamálum.

Það sem kemur helst fram er skortur á félagslegum stuðningi eftir snjóflóðin og viðbrögð foreldra þeirra í kjölfar hamfaranna tengjast svefnvanda. Það er þó mikilvægt að taka fram að þetta eru ekki orsakatengsl heldur einungis samband þarna á milli,“ segir Edda í samtali við Morgunblaðið um útkomu rannsóknarinnar.

Þátttakendur voru spurðir hvort þeir væru í dag með áfallatengd svefnvandamál, t.d. að vera með matraðir tengdar áfallinu og að upplifa kvíða og streitueinkenni á nóttunni. Auk truflana í draumsvefni þar sem fólk t.d. öskrar, sparkar eða kýlir frá sér í svefni. „Þetta eru svefneinkenni, sem eru algengari hjá þeim sem hafa upplifað alvarleg áföll en öðrum,“ segir Edda um einkennin.

Börn næm á viðbrögð foreldra

Aðspurð hvað sé átt við með viðbrögðum foreldra í kjölfar hamfaranna segir Edda börn vera afar næm á viðbrögð foreldra sinna. „Við sáum það að börn þeirra foreldra, sem sýndu mikla reiði og voru með tilfinningalegan doða eftir áfallið eru líklegri til að vera með áfallatengdan svefnvanda mörgum árum eftir hamfarirnar. Það er mikilvægt að taka fram að þetta eru mjög eðlilegar tilfinningar sem foreldrarnir eru að upplifa eftir svona áfall.“

Afar eðlileg viðbrögð við áföllum eru að upplifa tilfinningalegt uppnám, reiði, sorg og doða. Mikilvægt er að fólki standi til boða aðstoð ef líðan batnar ekki þegar fram horfir.“

„Rannsóknin sýnir hve mikilvægt það er að huga vel að börnum eftir hamfarir, að hjálpa foreldrum þeirra að ná bata sínum og veita þeim fræðslu og leiðsögn um viðbrögð barna eftir áföll. Það þarf að vinna með fjölskyldum í heild og umhverfi fjölskyldna þegar við ætlum að ná til barna og hjálpa þeim að ná bata. Það er á ábyrgð okkar sem samfélags að styðja vel við börn og foreldra þeirra, ekki bara fyrst eftir áföll heldur einnig þegar fram í sækir,“ segir Edda.

Edda segir jafnframt að mikilvægt sé að koma því til skila hve mikil þörf er á að gagnreynd meðferð við áfallastreitu og svefnvanda standi þolendum til boða eftir áföll sem þeir verða fyrir.

„Við erum framarlega hér á landi í að veita áfallahjálp eftir hamfarir og önnur áföll en það sem vantar er að tryggja fjármagn svo hægt sé að veita fólki, sem þarf á því að halda, gagnreynda meðferð, þegar lengra er liðið frá áfallinu og bati hefur ekki átt sér stað,“ segir Edda og bætir við að meðferðin verði að vera þolendum aðgengileg óháð búsetu og á viðráðanlegu verði fyrir fólk.