Sigurður Ægisson
Siglufirði
Siglfirðingurinn Valgeir Tómas Sigurðsson, fyrrverandi veitingamaður í Lúxemborg, sem m.a. rekur nú Harbour House Café á Siglufirði, með Jónasi bróður sínum, og Siglo Harbour Hostel, hefur undanfarið, ásamt Hilmari syni sínum, verið að flytja inn rafdrifin vinnuhjól frá Shenzhen í Kína, lítilli borg rétt norðan við Hong Kong.
„Þetta byrjaði þannig að ég fór nokkrum sinnum þangað austur árið 2009, til að reyna að selja Kínverjum Black Death-bjórinn minn, sem Vífilfell Víking bruggar á Akureyri, en það tókst ekki,“ segir Valgeir, aðspurður um upphafið að þessum innflutningi. „Á þessum ferðum mínum sá ég hins vegar þessi sniðugu þríhjól, bókstaflega í öllum borgum, úti um allt og í miklu magni, notuð bæði sem vöruflutningahjól og farþegahjól, maður sá heilu fjölskyldurnar á þessum farartækjum. Ég hafði verið sendill í kjötbúðinni á Siglufirði sem ungur drengur og fór þá um á reiðhjóli, t.d. með kostinn í skipin, og hugsaði með mér, þegar ég sá þetta ytra, að það hefði nú ekki verið ónýtt að vera á svona hjóli í gamla daga, og sá í hendi minni að þetta gæti hentað í allt mögulegt uppi á Fróni. Ég setti mig því í samband við framleiðendurna og heimsótti verksmiðjuna sem framleiðir þessi hjól og það var auðsótt að fá þau keypt og flutt til Íslands. Ég er sá fyrsti í Evrópu, sögðu þeir, sem kaupir þetta. Fyrsta hjólasendingin kom fyrir rúmu ári. Þetta kemur hingað í einingum og er sett saman hérna á Siglufirði. Og til að auðvelda fólki að skoða vöruna höldum við úti vefsíðunni vinnuhjol.is.“
Að sögn Valgeirs eru hjólin eins og hver önnur rafskutla, þarfnast hvorki skráningar né ökuprófs, og hægt er að keyra 100 km á hleðslunni við bestu aðstæður. Þau eru svo hlaðin með venjulegri 220V-innstungu.