Brjóstaskurðlæknir Kristjáni Skúla Ásgeirssyni, lækni í Klíníkinni, finnst greiðsluþátttaka sjúklinga í íslensku heilbrigðiskerfi allt of há og fyrir marga hópa algjörlega óásættanleg.
Brjóstaskurðlæknir Kristjáni Skúla Ásgeirssyni, lækni í Klíníkinni, finnst greiðsluþátttaka sjúklinga í íslensku heilbrigðiskerfi allt of há og fyrir marga hópa algjörlega óásættanleg. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.

Sviðsljós

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Konur sem eru með BRCA-stökkbreytingu í genum sem eykur áhættuna á að fá krabbamein í brjóst og eggjastokka geta nú farið í fyrirbyggjandi brjóstnám og uppbyggingu á Klíníkina í Ármúla og fengið það niðurgreitt af Sjúkratryggingum Íslands (SÍ). Nýverið tóku Sjúkratryggingar ákvörðun um að greiða að fullu fyrir brjóstaaðgerðir BRCA-kvenna á Klíníkinni, en hingað til hafa konur eingöngu getað farið í slíkar aðgerðir á Landspítalanum.

Kristján Skúli Ásgeirsson, brjóstaskurðlæknir á Klíníkinni, segir að tveggja ára baráttu sé nú lokið. „Það voru ákveðnar forsendur í greiðsluskrá Sjúkratrygginga sem voru reyndar um 20 ára gamlar sem tóku fram að brjóstnámsaðgerðir gætu verið greiddar af SÍ en þegar við fórum að gera aðgerðirnar fengum við í upphafi neitun á greiðsluþátttöku. Ein kona sem kom til okkar í aðgerð kærði þessa neitun og það fór fyrir Úrskurðarnefnd velferðarmála. Þar var fengið lögfræðiálit og komist að þeirri niðurstöðu að það stæðist ekki lög að neita konum greiðsluþátttöku vegna þessara aðgerða. Þá fór boltinn að rúlla og með góðri samvinnu við Sjúkratryggingar var ný gjaldskrá búin til, sem gerir það að verkum að Sjúkratryggingar Íslands taka nú að fullu þátt í kostnaði við fyrirbyggjandi brjóstnámsaðgerðir og brjóstauppbyggingu hjá íslenskum konum með BRCA-stökkbreytingar.

Konur hafa nú val um að sækja þessar aðgerðir til Klíníkurinnar ef þær kjósa það. Að BRCA-konur hafi möguleika á að fá álit annarra, að fá að velja sér meðferðarstað og meðferðaraðila, þykir sjálfsagður og mikilvægur réttur alls staðar þar sem þessar aðgerðir eru framkvæmdar utan Íslands,“ segir Kristján Skúli.

„Þær íslensku konur sem eru með BRCA-genið og eru að velta fyrir sér valkostum geta nú farið í Klíníkina og fengið þar ráðgjöf. Ef þær kjósa að gangast undir fyrirbyggjandi brjóstnámsaðgerð og brjóstauppbyggingu verður greiðsluþátttaka þeirra sambærileg og áður. Það sem út af stendur í greiðsluþátttökunni við þessar aðgerðir er hjúkrunarkostnaðurinn sólarhringinn eftir aðgerðirnar, en konurnar liggja oftast inni í einn sólarhring. Nú verður farið í vinnu við að fá greiðsluþátttöku við hjúkrunarkostnaðinn.“

Óásættanlegur kostnaður

Kristján Skúli tekur fram að honum finnist greiðsluþátttaka sjúklinga í íslensku heilbrigðiskerfi allt of há og fyrir marga hópa algjörlega óásættanleg. „Að íslenskar konur sem greinast með brjóstakrabbamein þurfi að greiða úr eigin vasa mörg hundruð þúsund krónur, jafnvel milljónir, fyrir meðferð sína er náttúrulega út í hött.“

Hann starfar einnig í Englandi þar sem sjúklingar sem leita til hins opinbera heilbrigðiskerfis (NHS) greiða ekki krónu fyrir sínar læknisaðgerðir. „Við erum með einhvers konar heilbrigðiskerfi sem er mitt á milli þess að vera rekið af ríkinu og sjúklingunum sjálfum. Helst vildi ég að konurnar þyrftu ekkert að borga fyrir þessar aðgerðir, eins og tíðkast á Englandi, en eins og staðan er núna er greiðsluþáttakan fyrir þessar aðgerðir lítil og við stefnum á að kostnaðurinn verði sem minnstur með frekari samningum við SÍ.“

Stofna íslenskt Brakkasetur

Fyrirhugað er að stofna sérhæfða einingu innan Brjóstamiðstöðvarinnar í Klíníkinni, nokkurs konar íslenskt Brakkasetur, sem mun bjóða upp á ráðgjöf, sálstuðning, eftirlit og fyrirbyggjandi brjóstnámsaðgerðir fyrir konur með BRCA-stökkbreytingar. „Greiðsluþátttaka SÍ gefur okkur tækifæri til að byggja upp sérhæfða einingu til að halda utan um þennan hóp, en við höfum frá upphafi stefnt á að gera það. Þær sem bera BRCA-genið og fara í fyrirbyggjandi aðgerð eru oftast ungar hraustar konur sem eru að fara í áhættuminnkandi aðgerð og slíkar aðgerðir eiga ekki endilega heima inni á hátæknispítala. Þetta er sérhæfð starfsemi sem þarf sérhæfða einingu utan um og ég hef í huga að gera þá einingu alþjóðlega,“ segir Kristján Skúli.

Á heimsvísu eykst eftirspurn eftir fyrirbyggjandi BRCA-aðgerðum mikið. „Ástæðurnar eru margar, fleiri og fleiri konur eru að greinast með þessar stökkbreytingar. Konur eru vel upplýstar um þá möguleika sem eru fyrir hendi og það er engin spurning að brjóstnámsaðgerðir eru áhrifaríkastar í að minnka áhættuna á að fá brjóstakrabbamein. Tæknin er líka orðin betri en var fyrir nokkrum árum og aðgerðin og uppbyggingin öruggari og betri.“