Mín er sums staðar getið í erlendum ritum um bankahrunið, meðal annars í bók eftir bandarískan hagfræðing, Barry Eichengreen, Speglasölum (Hall of Mirrors, 2014). Hann kveður mig sérfræðing um fiskveiðar, sem lagt hafi til að Ísland yrði...

Mín er sums staðar getið í erlendum ritum um bankahrunið, meðal annars í bók eftir bandarískan hagfræðing, Barry Eichengreen, Speglasölum (Hall of Mirrors, 2014). Hann kveður mig sérfræðing um fiskveiðar, sem lagt hafi til að Ísland yrði fjármálamiðstöð. Hið fyrra er ofsagt, hið síðara rétt. En þá átti ég vitanlega við fjármálamiðstöð, sem byði fjármagnseigendum og fyrirtækjum lága skatta, öryggi og trúnað, en líka lága vexti. Ég hafði ekki í huga skefjalausar lántökur íslenskra banka erlendis.

Því miður eru nokkrar villur um Ísland í bók Eichengreens. Hann segir (bls. 220), að við setningu Neyðarlaganna 6. október 2008 hafi ekki verið hirt um erlenda eigendur Icesave-reikninga Landsbankans og Edge-reikninga Kaupþings, svo að Bretar hafi gripið til sinna ráða. En Neyðarlögin veittu öllum innstæðueigendum, erlendum og íslenskum, forgang í bú bankanna, þar á meðal Landsbankans. Og Edge-reikningarnir í Bretlandi voru í dótturfélagi og því tryggðir þar og ekki á Íslandi.

Eichengreen segir líka (bls. 221), að Árni Mathiesen hafi 7. október 2008 sagt Alistair (sem hann kallar Alisdair) Darling, fjármálaráðherra Breta, að íslenska ríkið, sem nú væri orðinn eigandi bankanna, gæti ekki greitt út innstæðueigendum. En þegar þeir Árni og Darling töluðu saman, hafði Fjármálaeftirlitið aðeins tekið í sínar hendur einn banka, og það var ekki ríkið, sem átti að greiða út innstæðueigendum, heldur Tryggingasjóður innstæðueigenda. Eichengreen virðist ekki heldur vita, að kröfur innstæðueigenda hafa fyrir löngu verið greiddar að fullu úr búum bankanna.

Enn fremur segir Eichengreen (bls. 397), að Geir H. Haarde hafi verið fundinn sekur um stórfellda vanrækslu fyrir að halda ekki ríkisstjórnarfundi í kreppunni. En hann var fundinn sekur um vanrækslu, ekki stórfellda vanrækslu. Og „sakarefnið“ var að taka ekki á dagsrá í ríkisstjórn vanda bankanna. Auðvitað hélt Geir fjölda ríkisstjórnarfunda í kreppunni.

Eichengreen kveður aðalheimildarmann sinn um Ísland vera Sigrúnu Davíðsdóttur. Ekki veit ég, hvað henni gengur til að bera út land sitt.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is