[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég gerði lok félagaskiptagluggans að umtalsefni í síðasta pistli og má segja að lokadagur gluggans hafi verið nokkuð áhugaverður.

Ég gerði lok félagaskiptagluggans að umtalsefni í síðasta pistli og má segja að lokadagur gluggans hafi verið nokkuð áhugaverður. Engir íslenskir leikmenn færðu sig um set en nokkur lið gerðu breytingu á sínum hópi með því annað hvort að skipta um Kana eða bæta við öðrum. Þessi 7. umferð var því áhugaverð því þessir nýju leikmenn komu á leikdegi eða daginn áður og náðu einni æfingu. Allir fóru þeir rólega af stað og er það mjög eðlilegt. Þeir Zach Carter, KR, og DJ Valentine, Þór Þ., voru t.d. með neikvætt framlag en allir leikmenn þurfa sinn aðlögunartíma.

Þá kom tilkynning frá KKÍ um að eftir tímabilið yrði 4+1-reglan afnumin og opið yrði fyrir leikmenn frá löndum sem eru innan Evrópska efnahagssvæðisins. Það breytir landslaginu töluvert í körfunni og spurning hvað körfuknattleikshreyfingin gerir í framhaldinu. Það er augljóst að þriggja ára reglan hlýtur að detta út en núna mega erlendir leikmenn spila sem Íslendingar ef þeir hafa haft lögheimili á landinu í þrjú ár. Þá er spurning hvort eigi að leyfa áfram einn Kana eða hvort það verði eingöngu leikmenn innan EES.

Sá fyrsti í dágóðan tíma

Stjarnan vann sinn fyrsta sigur í dágóðan tíma. Hann var þó langt í frá auðveldur því Þórsarar frá Akureyri voru mun betri í leiknum, þar til Marques Oliver fékk fimmtu villuna í byrjun fjórða leikhluta. Það var ekki fyrr en þá að Stjarnan tók við sér og sneri leiknum sér í vil. Ég hef bent á það að Stjarnan er kannski ekki með sama ofurhópinn og á síðasta tímabili en Stjarnan á samt að vera með töluvert betra lið en Þór. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Sherrod Wright mun falla inn í hópinn og hvaða áhrif hann hefur þegar hann verður kominn í leikform. Þá finn ég til með Þórsurum eftir þennan leik. Þeir mega engan veginn við því að missa sinn besta mann og kjölfestuna í liðinu útaf í svona langan tíma. Það er fátt sárara en að missa frá sér leik eftir að hafa verið í bílstjórasætinu svona lengi.

Stólarnir hafa það gott einir á toppnum, nú þegar þriðjungur af mótinu er búinn. Þeir voru ekki í vandræðum með Þór frá Þorlákshöfn og sýndu enn og aftur hversu mikil breiddin er í liðinu þegar Pétur Rúnar Birgisson meiddist eftir aðeins eina mínútu. Þeir eiga tvo til þrjá menn í hverri stöðu og því hélt vélin bara áfram að malla án Péturs. Þrátt fyrir mikinn vandræðagang hjá Þór þá hef ég enga trú á því að liðið verði mikið lengur í fallbaráttu, en sæti í úrslitakeppninni getur verið í hættu ef liðið fer ekki að rífa sig í gang. Næstu þrír leikir Þórsara eru gegn Val, Hetti og Þór Ak. og það eru leikir sem verða að vinnast til að laga stöðuna fyrir jólafrí.

Valsmenn á blússandi siglingu

Lið umferðarinnar er klárlega Valur. Þeir tóku sjóðheita ÍR-inga gjörsamlega í kennslustund þar sem þeir leiddu um tíma með 24 stigum. Það að fara í Hellinn í Breiðholti og taka öruggan sigur er meira en að segja það. Mig grunar að ÍR-ingar hafi mætt í þennan leik svolítið hátt uppi eftir gott gengi undanfarið og þegar það gerist, þá er mönnum skellt á jörðina í þessari deild. Ef menn mæta ekki klárir til leiks á móti hvaða andstæðingi sem er í þessari deild þá fá menn það í andlitið. Það er kúnst að höndla gott gengi og vonandi, fyrir ÍR, læra menn af þessu.

Á meðan Valsmenn eru á blússandi siglingu eru hinir nýliðarnar í tómu tjóni. Hattarmenn voru skelfilega slakir gegn Keflavík og var Viðari Erni þjálfara eðlilega ekki skemmt eftir leik. Þegar Gísli Þórarinn Hallsson er orðinn langbesti leikmaðurinn þá eru nokkrir sem þurfa að hugsa sinn gang. Alltof margir leikmenn eru flatir og karakterslausir það sem af er tímabili. Ég átti t.d. von á miklu meiru frá Andrée Michalsson. Það vantaði að minnsta kosti ekki að það var uppi á honum typpið í viðtali hérna í morgunblaðinu í sumar, þegar hann sagðist hugsanlega vera á leið til Ítalíu eða álíka deilda í Evrópu. Miðað við spilamennskuna í vetur þá þarf hann að treysta á líf eftir þetta líf, því hann er ekki að fara spila í sterkum deildum á meginlandinu í þessu lífi.

Meiri vilji hjá Haukum

KR-ingar voru langt frá því sannfærandi þegar þeir tóku á móti Haukum. Það þarf að kalla til sagnfræðinga til að finna út hvenær KR tapaði tveimur deildarleikjum í röð síðast. Haukar fengu flott framlag frá nokkrum leikmönnum og virtist langa meira í sigurinn að þessu sinni. Miklu meiri stemning var í þeirra herbúðum og áttu þeir sigurinn algjörlega skilinn. KR-ingar hafa ekki verið sannfærandi það sem af er tímabilinu en Haukar eru hugsanlega að eflast með hverjum leik.

Flestir áttu von á naglbít í Njarðvík í gærkvöldi og leit allt út fyrir að svo yrði í fyrri hálfleik en yfirburðir heimamanna voru algjörir í seinni hálfleik. Grindvíkingar voru án Dags Kár Jónssonar og má einnig segja að þeir hafi verið án Rashad Wack. Spilamennska hans virðist annað hvort vera í ökkla eða eyra. Hann þarf að finna meiri stöðuleika en ég ætla að gefa bekknum hjá Njarðvík heiðurinn af þessum sigri því hann pakkaði bekknum hjá Grindavík að þessu sinni.

Sérfræðingur Morgunblaðsins Benedikt Guðmundsson benedikt@gmail.com Benedikt Guðmundsson er reyndur körfuboltaþjálfari og fyrrverandi íþróttafréttamaður sem er sérfræðingur Morgunblaðsins í körfubolta í vetur. Í dag fer hann yfir sjöundu umferð Dominos-deildar karla.