Óvissa Herinn hafði mikinn viðbúnað við hæstarétt í fyrradag.
Óvissa Herinn hafði mikinn viðbúnað við hæstarétt í fyrradag. — AFP
Stjórnvöld í Kambódíu mótmæltu harðlega afskiptum umheimsins af innanríkismálum sínum og sökuðu Bandaríkjastjórn um að vera „höfuðpaura valdaránstilraunar“ í landinu.

Stjórnvöld í Kambódíu mótmæltu harðlega afskiptum umheimsins af innanríkismálum sínum og sökuðu Bandaríkjastjórn um að vera „höfuðpaura valdaránstilraunar“ í landinu. Ásökunin kom í kjölfar þess að hæstiréttur landsins ákvað að banna Kambódíska björgunarflokkinn, CNRP, helsta stjórnarandstöðuflokk landsins, á fimmtudaginn, ásamt því sem um hundrað af helstu forvígismönnum flokksins var meinað að hafa frekari afskipti af stjórnmálum.

Bandaríkin, Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar fordæmdu þegar ákvörðun réttarins og kröfðust þess að hún yrði afturkölluð. Sok Eysan, talsmaður Hun Sen, forsætisráðherra landsins, sagði hins vegar að Kambódía gæti alveg komist af án stuðnings Bandaríkjanna og ESB. „Það eru lönd eins og Rússland, Kína, Japan og Suður-Kórea sem myndu hjálpa okkur að halda áfram að vera lýðræðisríki,“ sagði Sok við AFP-fréttastofuna.

Ákvörðunin um að banna CNRP þýðir það að flokkur Huns Sen, Þjóðarflokkur Kambódíu, mun að öllum líkindum vera einn um hituna þegar kosið verður aftur til kambódíska þingsins á næsta ári, þar sem CNRP var eini stjórnarandstöðuflokkurinn sem eitthvað kvað að. Tókst honum næstum því að verða ofan á í þingkosningunum 2013.

Forseti landsins, Kem Sokha, sem kemur úr röðum CNRP, var tekinn fastur í september síðastliðnum og sakaður um landráð. Þá hafa fjölmiðlar sem ekki eru hliðhollir stjórnvöldum orðið fyrir áreitni og blaðamönnum verið varpað í fangelsi.