Formlegheit Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðarráðherra kallar í talstöðina og biður stjórnstöð Landsnets um að tengja Þeistareykjastöð. Benedikt Jóhannesson, Hörður Arnarson og Jónas Þór Guðmundsson fylgjast með.
Formlegheit Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðarráðherra kallar í talstöðina og biður stjórnstöð Landsnets um að tengja Þeistareykjastöð. Benedikt Jóhannesson, Hörður Arnarson og Jónas Þór Guðmundsson fylgjast með. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Fyrri vélasamstæða Þeistareykjastöðvar var gangsett formlega í gær. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðarráðherra lét tengja hana við landsnetið og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra lét auka afl hennar upp í 45 megawött.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Fyrri vélasamstæða Þeistareykjastöðvar var gangsett formlega í gær. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðarráðherra lét tengja hana við landsnetið og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra lét auka afl hennar upp í 45 megawött. Seinni vélasamstæða virkjunarinnar verður gangsett næsta vor. Fullbyggð kostar stöðin um 300 milljónir bandaríkjadala sem samsvarar rúmum 30 milljörðum á gengi dagsins.

Um helmingur af orku Þeistareykjastöðvar fer til að knýja kísilver PCC á Bakka við Húsavík sem búist er við að verði gangsett eftir miðjan janúar. Hinn helmingurinn fer til að mæta almennri eftirspurn eftir orku á Norðurlandi sem Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að fari vaxandi, og til að bæta afhendingaröryggi raforku í landshlutanum. Þeistareykjastöð er 17. aflstöð Landsvirkjunar. Hún er þriðja jarðvarmastöð fyrirtækisins og sú fyrsta sem Landsvirkjun byggir frá grunni.

Óákveðið með framhaldið

„Þetta er vel heppnuð framkvæmd. Það er flókið að reisa stóra jarðvarmavirkjun en það hefur tekist án stórra áfalla,“ segir Hörður.

Gert hefur verið ráð fyrir að framleiðslugeta Þeistareykjavirkjunar geti orðið um 200 MW. Hörður segir að framhaldið verði metið í ljósi reynslunnar af þessum áfanga, þegar séð verði hvernig háhitasvæðið bregst við nýtingu.

Þórdís Kolbrún iðnaðarráðherra segir að mikil þörf sé fyrir orkuna frá Þeistareykjastöð og hún hafi margvíslega þýðingu fyrir atvinnuuppbyggingu og orkuöryggi í landshlutanum og fyrir landið allt.

Þórdís segir að framkvæmd Landsvirkjunar sé til mikillar fyrirmyndar og tekur sérstaklega fram að ánægjulegt sé að heyra hjá heimafólki hversu vel Landsvirkjun hafi staðið að málum gagnvart þeim.

„Virkjunin er undirstaða fyrir þá atvinnuuppbyggingu sem hér er að fara af stað. Án hennar hefðum við aldrei náð þessum fyrirtækjum hingað. Hún verður einnig til að efla menntun og menningu í samfélaginu,“ segir Arnór Benónýsson, oddviti Þingeyjarsveitar.

Samkeppni um listaverk

Upplýst var við athöfnina í gær að Landsvirkjun hefði ákveðið að efna til hugmyndasamkeppni um hannað verk eða listaverk til að setja upp í nágrenni Þeistareykjastöðvar.