[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Noregur Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Óhætt er að segja að þetta hafi verið stærra stökk en mig óraði fyrir.

Noregur

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Óhætt er að segja að þetta hafi verið stærra stökk en mig óraði fyrir. Hraðinn í handboltanum í Noregi er til dæmis mikið meiri en heima, svo dæmi sé tekið og skipulagið betra,“ sagði Þráinn Orri Jónsson handknattleiksmaður við Morgunblaðið í gær en hann fluttist í sumar frá Gróttu til Noregsmeistara Elverum.

„Hraðinn er mikið meiri hér úti eins og Aftureldingarmenn fengu til dæmis að finna fyrir í haust þegar þeir mættu Bækkelaget og hreinlega sprungu eftir 45 mínútna leik. Hér er til dæmis alltaf hlaupið í bakið á andstæðingnum, ólíkt því sem er heima. Auk þess sem allt skipulag á þessum upphlaupum er betra en heima á Íslandi þar sem fyrst og fremst er horft til þess hvað hornamennirnir gera. Ef þeir komast ekki í skotfæri þá er sókninni oft lokið í bili og lítið meira að frétta,“ sagði Þráinn Orri sem segist hafa verið góðan tíma að jafna sig á breyttum aðstæðum í boltanum fyrst eftir að hann flutti út.

„Ég var úrvinda eftir dagana og var oft sofnaður klukkan níu á kvöldið. Heima gat ég leikið 60 mínútur en hér úti held ég að maður héldi ekki út heilan leik á þeim hraða sem hér er, ekki að minnsta kosti eins og standið var á mér þegar kom út,“ sagði Þráinn Orri sem er einn þriggja línumanna Noregsmeistaranna.

Leiktíminn fer vaxandi

„Ég er ekkert ósáttur við þann tíma sem ég hef fengið með liðinu. Aðallínumaðurinn hefur leikið bróðurpartinn af flestum leikjum en ég og danskur línumaður höfum skipt á milli okkar þeim tíma þegar aðallínumaðurinn hefur ekki verið inni á leikvellinum. Leiktíminn hefur aukist jafnt og þétt hjá mér og er alveg í samræmi við það sem ég bjóst við. Ég held að þjálfarinn hafi talið mig vera lélegri leikmann en ég er í raun og veru. Leiktíminn á vafalaust bara eftir að vaxa hjá mér þegar lengra líður á veru mína hjá félaginu.“

Þráinn segir gaman að kynnast því að leika með meistaraliði sem allir vilja vinna eftir að hafa leikið með Gróttu um árabil. „Okkur var spáð öllum þremur titlunum í Noregi á þessu tímabili, það er meistaratitli, bikarnum og deildarmeistara. Við erum í svipuðum sporum og KR-ingar í körfunni. Elverum er liðið sem allir vilja vinna. Menn eru orðnir vanir pressunni hér vegna þess að Elverum hefur um langt árabil verið með besta liðið, en fyrir mér er þetta alveg ný upplifun,“ sagði Þráinn Orri sem nýkominn var af norskunámskeiði þegar Morgunblaðið sló á þráðinn skömmu fyrir hádegið í gær. „Norskan er að koma hjá mér, jafnt og þétt.“

Þátttakan í Meistaradeild Evrópu með Elverum hefur einnig verið ný reynsla fyrir Þráin. Hann segir að Elverum-liðinu hafi gengið nokkuð vel í D-riðli keppninnar. Liðið á möguleika á efsta sætinu þegar þrír leikir eru eftir en efsta sæti gefur þátttökurétt í 16-liða úrslitum. Fjögur lið eru í baráttu um efsta sætið en auk Elverum og Skjern frá Danmörku eru það Ademar Leon frá Spáni og Gorenje Velenje frá Slóveníu. „Leikurinn við Skjern á sunnudaginn [á morgun] mun ráða miklu um möguleika okkar. Eftir hann eigum við útileik við Dinamo Búkarest og síðan heimaleik við Ademar León í lokaumferðinni. Ef staða okkur verður góð fyrir þann leik verður fullt hús og stemning á heimaleiknum,“ segir Þráinn Orri og bætir við að liðið eigi fjölmennan og traustan hóp stuðningsmanna.

Stór hópur stuðningsmanna

„Það hefur komið mér á óvart. Stór hópur fylgir okkur í alla útileiki, meira að segja í Meistaradeildinni. Þetta er alveg nýtt fyrir mér því heima er varla hægt að fá fólk til þess að koma frá Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ á leiki.“

Þráinn Orri segist á heildina litið vera ánægður með vistaskiptin. Hann hafi fundið að tímabært væri að skipta um umhverfi. „Ég var efins í fyrstu, meðal annars vegna þess að heima á Íslandi eru menn sem segja að norska deildin sé ekki góð. Héðan frá Noregi fara fleiri leikmenn orðið í þýsku 1. deildina en gerist heima. Vonandi opnast dyr fyrir fleiri Íslendinga til þess að fara til betri liðanna í Noregi eftir veru mína hér. Íslendingar eru mikilsmetnir hér í Elverum eftir að nokkrir hafa gert það gott á síðustu árum, jafnt sem þjálfarar og leikmenn,“ sagði Þráinn Orri Jónsson handknattleiksmaður.