Atvinna Fjöldi manns á von á að fá endurgreiddar bætur. Vinnumálastofnun hefur greitt 158 milljónir til baka.
Atvinna Fjöldi manns á von á að fá endurgreiddar bætur. Vinnumálastofnun hefur greitt 158 milljónir til baka. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Alþingi var óheimilt að skerða atvinnuleysisbótarétt þeirra sem þegar höfðu virkjað rétt sinn fyrir 1. janúar 2015. Þetta kom fram í dómi Hæstaréttar 1. júní sl.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Alþingi var óheimilt að skerða atvinnuleysisbótarétt þeirra sem þegar höfðu virkjað rétt sinn fyrir 1. janúar 2015. Þetta kom fram í dómi Hæstaréttar 1. júní sl. um styttingu á bótatímabili atvinnuleysistrygginga úr 36 mánuðum í 30 mánuði.

Vinnumálastofnun komst að því að rúmlega 2.300 manns kynnu að eiga rétt á lengingu á tryggingatímabili sínu og/eða afturvirkum greiðslum atvinnuleysisbóta á grundvelli dómsins. Strax í júní lengdi Vinnumálastofnun bótatímabil 1.175 einstaklinga, sem þáðu atvinnuleysistryggingar, úr 30 mánuðum í 36 mánuði. Þetta fólk átti ekki rétt til greiðslu afturvirkra atvinnuleysisbóta, samkvæmt frétt Vinnumálastofnunar.

Í kjölfarið var haft samband við 1.181 einstakling sem talið var að kynni að eiga rétt á afturvirkum greiðslum atvinnuleysisbóta eða lengingu á bótatímabili sínu. Tilkynning var sett á „mínar síður“ hjá Vinnumálastofnun og sendur tölvupóstur á skráð netföng hjá stofnuninni.

Vinnumálastofnun hefur nú þegar greitt tæplega 282 milljónir í afturvirkar greiðslur vegna þessa. Að frádregnum sköttum og öðrum frádráttarliðum nemur upphæðin 158,5 milljónum sem greidd hefur verið til þeirra sem áttu rétt á afturvirkum greiðslum atvinnuleysisbóta.