Fæstir sjá eftir því á dánarbeðnum að hafa ekki eytt meiri tíma í vinnunni heldur frekar því að hafa ekki eytt fleiri stundum með börnum sínum. Þetta kom í ljós í athugunum ástralsks hjúkrunarfræðings, Bronnie Ware, sem skrifaði bók um niðurstöður...

Fæstir sjá eftir því á dánarbeðnum að hafa ekki eytt meiri tíma í vinnunni heldur frekar því að hafa ekki eytt fleiri stundum með börnum sínum. Þetta kom í ljós í athugunum ástralsks hjúkrunarfræðings, Bronnie Ware, sem skrifaði bók um niðurstöður sínar. Fólk sér líka eftir því að hafa misst tengsl við gamla vini og að hafa ekki leyft sér að vera hamingjusamt. Það er ábyggilega margt sem hægt er að sjá eftir en fleiri klukkustundir á stimpilklukkunni eru örugglega á lista fárra. Færri stundir er ekki það sama og að leggja ekki hart að sér í vinnunni. Bresku samtökin Autonomy Institute hafa lýst yfir stuðningi við fjögurra daga vinnuviku þar í landi. Þau vilja minni vinnu en betri.

Núna vinna flestir fimm daga vinnuviku og um það bil átta tíma á dag. Þetta var bylting á sínum tíma en kannski er kominn tími á aðra byltingu og taka upp fjögurra daga vinnuviku? Of mikil vinna getur haft neikvæð áhrif á heilsuna og aukið stress. Stress eykur líkur á ýmsum kvillum eins og til dæmis of háum blóðþrýstingi. Langur vinnudagur getur ýtt undir áfengisdrykkju, samkvæmt finnskri rannsókn. Tengsl eru líka milli langs vinnutíma og hjartasjúkdóma og einnig við svefnleysi og þunglyndi.

Ekki er alveg hægt að sjá fyrir sér að fjögurra daga vinnuvika sé í augsýn en þó getur verið að hún styttist eitthvað í náinni framtíð. Nokkrir vinnustaðir Reykjavíkurborgar tóku þátt í tilraunaverkefni um styttri vinnuviku án launaskerðingar en starfsfólk vann fjórum tímum skemur á viku. Í nýlegri könnun sem gerð var meðal félagsmanna BHM kom í ljós að 92% vilja styttri vinnuviku ef það skerðir ekki kjör þeirra. Flestir myndu kjósa að vinna einn dag í viku til hádegis. Fjögurra og hálfs dags vinnuvika væri vissulega stórt skref fram á við.

Það er allavega líklegt að minni vinna leiði til minni eftirsjár á dánarbeðnum með því að rækta betur sambandið við fjölskyldu og vini.