Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, baðst í gær afsökunar fyrir hönd bandalagsins, eftir að Tyrkir drógu hermenn sína úr æfingu sem fram fór í Noregi.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, mótmælti harðlega framferði bandalagsins, en nafn Erdogans mun hafa verið notað í æfingunni þar sem bregðast átti við því ef ein bandalagsþjóðin „sviki lit“. Þá hermdu óstaðfestar fregnir að myndir af Erdogan og Kemal Ataturk, stofnanda Tyrklands, hefðu verið notaðar á skotæfingum.
Sagði Stoltenberg að atvikin hefðu verið á ábyrgð einstaklings og að þau yrðu rannsökuð í þaula.