Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Við Selvog kenndan hygg ég hann. Hýsir fé, sem kemur ei til rétta. Gleði aðeins greiða kann. Glópa sínum aurum kann að fletta. Helgi R.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Við Selvog kenndan hygg ég hann.

Hýsir fé, sem kemur ei til rétta.

Gleði aðeins greiða kann.

Glópa sínum aurum kann að fletta.

Helgi R. Einarsson leysir gátuna þannig:

Nú mig leikur glópskan grátt

og gallaður minn þanki

er hugsa' um við hvað hér er átt,

en held að það sé banki.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Selvogsbanki heitir hann.

Hef ég bankafé í mínum þanka.

Gleðibanki er sá með sann.

Sóa glópar fé í spilabanka.

Þá er limra:

Landsbankastjórinn Lundi,

sem löngum á bankaráðsfundi

upptekinn sat

á einhvern hátt gat

þó samtímis verið í sundi.

Og síðan ný gáta eftir Guðmund:

Vakna ég upp við ys og gný,

úti er næturfriður,

hér kemur gáta af nálinni ný,

sem naumast vefst fyrir yður:

Í skóginum knár var kappi sá.

Kuldanum bægir höfði frá.

Marklaust gefur sá maður svar.

Á mörk eftir bráð á hnotskógi var.

Jón Gissurarson segir frá því á Boðnarmiði að á þriðjudaginn hafi verið vestankæla og skýjaður himinn í Skagafirði. – „Hitamælirinn sýnir einnar gráðu hita. Snjóföl er á jörð, en allmikið slyddduél gerði um áttaleytið í morgun sem stóð í um klukkustund.

Vetur kallar veður leitt

verður um fjallasali.

Snjókorn falla eitt og eitt

yfir hall og dali.“

Gömul vísa í lokin:

Gott er að vera í góðum rann,

gott er að hafa völdin,

gott er að eiga góðan mann,

gott er að sofa á kvöldin.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is