[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Á Norðurlandi er tónlistarhefðin sterk og þátttaka í kórastarfi almennt mikil. Það breytir engu þótt margir eigi um langan veg að sækja á æfingar, kannski klukkustundar langt ferðalag hvora leið.

Viðtal

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Á Norðurlandi er tónlistarhefðin sterk og þátttaka í kórastarfi almennt mikil. Það breytir engu þótt margir eigi um langan veg að sækja á æfingar, kannski klukkustundar langt ferðalag hvora leið. Þannig er farið með marga í okkar kór, menn sem koma úr innstu dölum hér í Húnvatnssýslum eða úr Skagafirði og þá er yfir fjallvegi að fara. Menn gera margt fyrir áhugamálið,“ segir Höskuldur B. Erlingsson, formaður Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps.

Í sjónvarpsþættinum Kórar Íslands á Stöð 2 á dögunum bar sá kór sigur úr býtum í lokaþætti, þangað sem fimm kórar aðrir náðu og allir fantagóðir. Í verðlaun fékk karlakórinn húnvetnski fjögurra milljóna króna ferðaverðlaun sem koma sér vel, en fyrir dyrum stendur söngför til Ítalíu að vori.

Mikilvægur þáttur í menningarlífi

Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps var stofnaður árið 1925 og hefur allar götur síðan verið mikilvægur þáttur í menningarlífi í héraði. Söngmenn kórsins í dag eru alls 46 og frá hausti til vors æfa þeir tvisvar í viku, til skiptis í Húnaveri og á Blönduósi. Margir bændur eru í kórnum og fyrir vikið hikuðu menn þegar til þeirra var leitað um þátttöku í kórakeppninni á Stöð 2, því haustið er jafnan annatími í sveitunum við fjárrag og annað.

Taka ber svo fram að Bólstaðarhlíðarhreppur, sem kórinn er kenndur við og náði yfir Blöndudal austan Blöndu, fremri hluta Langadals og Laxárdals og allan Svartárdal, er ekki lengur til. Sem sjálfstætt sveitarfélag var hann lagður til sameinaðs Húnavatnshrepps árið 2005.

„Upphaflega var nefnt að við yrðum í fyrsta þættinum en þegar það frestaðist fram í 3. þáttinn, sem var 25. september, fannst okkur það hljóma betur og slógum til. Strax gáfu 20 menn sig fram og þegar kom að lokaþættinum var liðið orðið fullskipað, utan hvað einn félagi okkar lagðist í flensu og átti ekki heimangengt. Allir vildu vera með í velgengninni. Við veltum aðeins fyrir okkur fyrir úrslitin hvaða lag við skyldum taka; annaðhvort þá sígilt karlakóralag eða eitthvað í áttina að dægurlagi sem allir kunna. Niðurstaðan varð Sem lindin tær, það fræga Siglufjarðarlag, og það held ég að hafi verið vel valið. Að minnsta kosti voru undirtektirnar góðar og sigurinn sætur. En mér þóttu margir í lokaþættinum mjög góðir, til dæmis kórinn Spectrum, að hinum ólöstuðum,“ segir Höskuldur sem starfað hefur með Karlakór Bólstaðarhlíðahrepps frá 2003, en margir hafa verið í kórnum í áratugi.

Lögreglukór og Bjöggalög

„Nokkrir af körlunum eru til viðbótar við karlakórinn einnig í kirkjukór í sinni sveit. Finnst það ákveðin samfélagsleg skylda, svo mikilvægt sé fyrir sveitina sína að þar sé tiltækur kór fyrir helstu athafnir. Fyrir sunnan var ég í Lögreglukórnum og í söngnámi um skeið. Mér finnst þátttaka í þessu starfi mjög ánægjuleg og hún hefur gefið mér mikið, til dæmis söngferðalög eins og til Nýja-Íslands í Kanada. Þá höfum við einnig bryddað upp á mörgum skemmtilegum verkefnum í léttari dúrnum sem hafa fengið frábærar viðtökur. Eitt árið vorum við með dagskrá með lögum Geirmundar Valtýssonar, lög Ellyjar og Vilhjálms á síðasta ári og nú í vor lög með Björgvini Halldórssyni. Raunar höfum við ekki alveg sleppt hendinni af Bjöggalögunum og stefnum á að koma suður með þá dagskrá einhvern tíma eftir áramót,“ segir Höskuldur; Reykvíkingurinn sem flutti út á land og finnst það frábært.

„Já, ég hef stundum sagt að ég gæti aldrei þrifist í Reykjavík, áhugamálin mín eru þannig að hér eru tækifærin. Ég fer í stangveiðina á sumrin og er þá stundum leiðsögumaður í ánum hér í kring. Á haustin eru það rjúpan og gæsin. Svo erum við hjónin með nokkra klára, ríðum stundum út og finnst afar skemmtilegt.“