Hraustur Viktor tók 290 kg í bekknum.
Hraustur Viktor tók 290 kg í bekknum. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HM Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Akureyringurinn Viktor Samúelsson var í gær í eldlínunni á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum sem fram fer í Pilsen í Tékklandi. Viktor keppti í -120 kg flokki en árangur hans var afar svekkjandi.

HM

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Akureyringurinn Viktor Samúelsson var í gær í eldlínunni á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum sem fram fer í Pilsen í Tékklandi. Viktor keppti í -120 kg flokki en árangur hans var afar svekkjandi.

Keppnin byrjaði í hnébeygju. Viktor reyndi þrisvar við 375 kg en náði engri gildri lyftu og því var ljóst að hann myndi ekki vera í baráttunni í samanlögðum árangri. Hann hélt þó áfram keppni enda tvær greinar eftir.

Viktor lyfti 290 kg í fyrstu tilraun í bekkpressunni og reyndi tvisvar við 312,5 kg. Í seinni lyftunni var hann grátlega nálægt því að fá hana gilda sem hefði skilað honum bronsi í greininni, en 290 kg lyftan var engu að síður fjórði besti árangurinn í bekkpressunni.

Í réttstöðulyftu náði Viktor 305 kg upp í fyrstu tilraun. Hann reyndi næst við 315 kg sem var ógilt, en fékk lyftuna gilda í annarri tilraun og reyndist það 10. besti árangurinn í greininni.

Viktor lyfti því samtals 610 kg en fær samanlaga árangurinn ekki metinn þar sem hann náði ekki skráðum lyftum í öllum greinum. Besti árangur hans í samanlögðu er 1.000 kg og hefði hann höggvið nærri því með gildri lyftu í hnébeygju.

Viktor var að keppa á HM í annað sinn á ferlinum. Á síðasta ári hafnaði hann í sjötta sæti með 1.000 kg í samanlögðum árangri.

Júlían J.K. Jóhannsson keppir á morgun í +120 kg flokki en Júlían á titil að verja í rétttstöðulyftu en í fyrra setti hann heimsmet ungmenna í greininni þegar hann lyfti 380 kg. Júlían hafnaði í 5. sæti í samanlögðum árangri á HM í fyrra.