Heiður Kristín Bjarnadóttir, til vinstri, og Kristín Halla Jónsdóttir fengu viðurkenningu frá Íslenska stærðfræðafélaginu.
Heiður Kristín Bjarnadóttir, til vinstri, og Kristín Halla Jónsdóttir fengu viðurkenningu frá Íslenska stærðfræðafélaginu.
Nú í vikunni veitti stjórn Íslenska stærðfræðafélagsins tveimur félögum heiðursviðurkenningar fyrir störf í þágu stærðfræði og stærðfræðimenntunar á Íslandi.

Nú í vikunni veitti stjórn Íslenska stærðfræðafélagsins tveimur félögum heiðursviðurkenningar fyrir störf í þágu stærðfræði og stærðfræðimenntunar á Íslandi. Það voru þær Kristín Bjarnadóttir, prófessor emeritus, og Kristín Halla Jónsdóttir, dósent emeritus. Þær nöfnur eru skólasystur úr Menntaskólanum í Reykjavík og útskrifuðust þaðan úr stærðfræðideild sumarið 1963. Báðar luku þær svo námi í uppeldis- og kennslufræði.

Kristín Halla er fyrsti íslenski kvendoktorinn í stærðfræði en hún hélt til University of Houston að loknu B.Sc.-prófi í stærðfræði og eðlisfræði við Háskóla Íslands og lauk í Houston mastersprófi 1973 og doktorsprófi 1975. Aðalgreinar hennar voru algebra og grannfræði og að loknu námi starfaði hún við HÍ sem sérfræðingur og aðjunkt, fluttist svo í Kennaraháskólann sem lektor 1977 og frá 2008 sem dósent við menntavísindasvið þegar KHÍ sameinaðist HÍ. – Kristín var formaður Íslenska stærðfræðafélagsins 1979-1981, eina konan til þessa.

Kristín Bjarnadóttir starfaði víða sem kennari í grunn- og framhaldsskólum á Íslandi að loknu grunnnámi en lauk síðan mastersprófi í stærðfræði við University of Oregon árið 1983 og starfaði við Fjölbrautaskólann í Garðabæ, Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands í framhaldi af því. Hún varð prófessor árið 2013 og hefur verið ötul við rannsóknir á sögu stærðfræðinnar, skrifað greinar og bókarkafla, kennslubækur fyrir skóla sem og fróðleik á Vísindavefinn.

Þá hefur Kristín sinnt námskrár- og námsefnisgerð og verið ráðgefandi varðandi stærðfræðimenntun í landinu. Hún hefur einnig verið dugmikil í félagsstörfum Félags kvenna í fræðslustörfum, Bandalags íslenskra skáta og Félags raungreinakennara.