Hafalda Elín Kristinsdóttir fæddist á Heilbrigðisstofnun Akraness 18. júlí 1963. Hún lést á Droplaugarstöðum 6. nóvember 2017.

Foreldrar hennar eru Kristinn Elías Haraldsson, f. 15. mars 1925, d. 15. janúar 1987, og Ester Úranía Friðþjófsdóttir, f. 11. október 1933. Hafalda er sjötta í röðinni af níu systkinum. Þau eru Baldur Freyr, m. Guðrún Elísabet Jensdóttir, Elvar Guðvin, m. Þórdís Bergmundsdóttir, Dóra Sólrún, m. Guðbrandur Jónsson, Jóhann Rúnar, m. Katrín Gísladóttir, Helena Sólbrá, m. Guðmundur Gunnarsson, Jófríður Soffía, d. 13. september 1991, Snædís Elísa, m. Andrés Helgi Hallgrímsson, og Guðbjörg Huldís, m. Óskar Guðjónsson.

Hafalda giftist Gústaf Geir Egilssyni 13. júlí 1985. Þau eignuðust þrjú börn: Kristný Rós, f. 25. desember 1986, sambýlismaður hennar er Ingvi Rafn Guðmundsson. Börn þeirra eru Natalía Rós, f. 16. apríl 2012, og Jökull Rafael, f. 20. janúar 2017. Adam Geir, f. 5 maí 1989, sambýliskona hans er Lísa Dögg Davíðsdóttir. Börn þeirra eru Davíð Geir, f. 5. júlí 2011, og Elín Dögg, 11. mars 2014. Leví Geir, f. 4. júlí 1995.

Hafalda ólst upp í Rifi og útskrifaðist frá Grunnskóla Hellisands. Hún stundaði framhaldsnám í Héraðsskólanum í Reykholti. Hafalda og Gústaf hófu búskap í Ólafsvík 1982. Þar bjuggu þau til ársins 2012 að undanskildum tveimur árum á meðan Gústaf var í námi í Reykjavík, en fluttu alkomin til Reykjavíkur árið 2012.

Hafalda vann ýmis störf, í fiskvinnslu og húsamálun sem ung manneskja. Aðalstarf hennar var bókhaldsvinna hjá Viðskiptaþjónustunni og síðar Deloitte endurskoðun. Samhliða var Hafalda umboðsmaður hjá Tryggingamiðstöðinni í Ólafsvík. Hafalda lét af störfum árið 2012 vegna veikinda.

Útför Haföldu fer fram frá Ólafsvíkurkirkju í dag, 18. nóvember 2017, klukkan 13. Hafalda verður jarðsett í Ingjaldshólskirkjugarði.

Þú kemur ekki, Alda, það andar kalt um völlinn,

í einverunni sit ég með dána vonarglóð.

Á meðan þokan birtist og færist yfir fjöllin

í fjarlægð heyri eg drynjandi sjávar ölduhljóð.

(Gísli Ólafsson frá Eiríksstöðum)

Núna hefur mamma kvatt okkur úr þessu jarðneska lífi. Þrátt fyrir að kveðjan hafi verið yfirvofandi út af veikindum mömmu er kveðjan samt þung og full af trega og líklega getur maður aldrei verið tilbúin fyrir hinstu kveðjuna.

Það er erfitt að sætta sig við það að hún muni ekki fylgja okkur í lífinu og leiðsegja okkur. Vera amma barnanna okkar og gera allt sem hún var vön að gera.

Hafaldan í sjónum getur verið sterk og það var mamma okkar svo sannarlega og því átti nafnið hennar vel við hana. En einnig var mamma silkimjúk, hún náði að að halda styrknum uppi á svo mjúkan máta. Mamma var hjartahlý, fórnfús, ósérhlífin, hörkudugleg, þrautseig og vandvirk.

Þegar við systkinin tökum kosti hennar saman sér maður hvað hún bjó yfir þeim mörgum og hvað þeir voru góðir. Mamma var kletturinn okkar, haggaðist ekki og var alltaf svo traust. Hún var alltaf til staðar, var fyrst á staðinn og fór síðust heim.

Við börnin vorum alltaf í fyrsta sæti hjá henni, það var aldrei nein spurning um það. Mamma lagði alltaf allt í sölurnar fyrir okkur. Mamma var hláturmild kona með smitandi hlátur. Hún bjó yfir miklu jafnaðargeði og gat því tekið auðveldlega á erfiðum hlutum. Hún var félagslynd og það var alltaf nóg af fólki í kringum okkur.

Við erum þakklát fyrir það uppeldi og þá góðu æsku sem við hlutum frá foreldrum okkar. Æskan okkar var full af lífi og fjöri, hlýju, hamingju, ferðalögum og síðast en ekki síst, dýrum.

Við vitum að mamma var meðvituð um nærveru okkar fram að síðasta andardrætti og það er ákveðin huggun í því.

Við munum segja börnunum okkar frá ömmu Haföldu eins oft og við getum. Við munum halda minningu hennar á lofti og leyfa þeim að kynnast henni í gegnum okkur. Allar þær hefðir sem við höfðum heima í Brautarholtinu ætlum við að halda með okkar börnum og fjölskyldu.

Síðustu dagar mömmu eru okkur ómetanlegir og við erum þakklát fyrir þá. Stórfjölskyldan stóð þétt saman og samveran var góð. Þessir dagar verða okkur dýrmætar minningar og við sáum hvað hún var elskuð.

Við erum djúpt snortin yfir allri þeirri aðstoð sem hefur boðist okkur vegna fráfalls móður okkar. Við verðum ævinlega þakklát fyrir hana.

Við endum minningargreinina um mömmu á bæn sem hún bað með okkur á kvöldin. Við vitum að hún er ein af englunum sem munu sitja yfir okkar sængum.

Við sjáumst seinna, mamma.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson frá Prestshólum)

Þín börn,

Kristný Rós, Adam Geir

og Leví Geir.

Elsku hjartans Hafalda mín, það er sárt að kveðja þig, sem ert búin að gefa okkur svo mikið af gleði og ástúð. Þú varst strax sem lítið barn svo ljúf, róleg og geðgóð og það geislaði af þínu fallega andliti, hlýja og bros.

Hvert sem þú fórst skildir þú eftir vináttu og tryggð. Þú varst einstök, þið systur þú og Jófríður voruð tengdar órjúfanlegum böndum. Þú misstir mikið þegar Jófríður dó enda var hún besti vinur þinn. Og nú þurfum við að sætta okkur við að missa þig líka.

Nú eru tvær rósir úr barnahópnum mínum fölnaðar. Það er dimmt í hjarta og söknuðurinn á eftir að vera mikill. Ég á eftir að sakna þín.

Það var mikið áfall þegar við fórum að finna að þú varst að missa tökin á daglegum verkum og greindist með þennan sjúkdóm sem bæði er bitur og óvægur. Það voru þér erfiðir tímar. Nú ert þú komin á þann stað sem þér líður betur, þú skilur mikið eftir af góðum minningum sem ég get yljað mér við.

Elsku Hafalda mín, minningin um þig og kærleik þinn mun lifa um ókomna tíð.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson frá Prestshólum)

Mamma.

Elsku Hafalda Elín, systir mín og mágkona með sérstaka og fallega nafnið sem fór vel við fegurð hennar utan sem innan, hefur kvatt okkur eftir mikla baráttu við erfiðan sjúkdóm aðeins 54 ára gömul.

Maður verður allt í senn sorgmæddur yfir missinum en líka feginn að nú þjáist hún ekki meir og er farin þangað sem ljósið alltaf lifir. Þar taka margir nánir ástvinir, ungir sem eldri, á móti henni. Við erum þakklát fyrir að hafa átt hana í lífi okkar og vitum að öllum sem kynntust henni þótti vænt um hana.

Blíðari og betri kona er vandfundin, alltaf var hún með sitt jafnaðargeð og rólega nærveru. Líka eftir að hún varð veik, þá tók hún því af æðruleysi og rólyndi á meðan við hin vorum í afneitun og vantrú.

Við eigum margar góðar minningar með henni sem við erum þakklát fyrir. Allar útilegurnar, veiðiferðirnar og samveru- og spilastundir með fjölskyldunni eru stundir sem eru ómetanlegar.

Í Haföldu systur sinni átti Baldi nána og kærleiksríka vinkonu sem og systur. Við mágkonurnar vorum miklar vinkonur og æfðum og kepptum í blaki saman, sungum í Jöklakórnum og nutum okkar mikið þar. Við unnum saman að því að hafa bókhaldið í lagi hjá okkur hjónunum, ólum börnin okkar upp og studdum hvor við aðra eins og best við gátum í því. Mér er það líka minnisstætt þegar hún reyndi að gera mig að golfara og ég var í leiðsögn hjá henni í um sjö daga en þá gafst hún upp og sagði blíðlega eins og var hennar von og vísa að ég gerði marga hluti betur en að spila golf.

Hafalda var ekki skaplaus þó að hún færi vel með það, þegar hún var viss um hvað hún vildi þá haggaði henni ekki neitt. En eins og alltaf upplýsti hún sína skoðun með hógværð og kærleika. Hláturinn hennar ómar í huga okkar og honum gleymir maður aldrei. Ekki heldur angurværa og blíða brosinu.

Elsku Gústaf Geir, Kristný Rós, Adam Geir, Leví Geir, tengdabörn, barnabörn, Ester Úranía ættmóðir okkar og fjölskyldan öll, missir ykkar og okkar allra er mikill og við biðjum þessa að við finnum styrk hjá hvort öðru á þessum erfiðu tímum.

Minningin um yndislega konu lifir í hjörtum okkur.

Baldur Freyr, Guðrún

Elísabet og fjölskylda.

Komið er að kveðjustund, með sorg í hjarta kveð ég þig, elsku systir, allt of snemma.

Margar minningar koma upp í hugann þessa dagana. Þær fyrstu frá því að mamma kom með þig heim glænýja með allt svarta hárið sem var svo fallegt og mikið. Þú varst undurfalleg með þetta mikla svarta hár og þessa ljósu húð. Ég var mjög stolt stóra systir þegar fólk dáðist að þér.

Það var alltaf gaman að passa þig, það var ekkert mál að leyfa þér að skottast með mér þó að ég væri að passa önnur börn. Alltaf svo þæg og góð og lítið fyrir þér haft. Þannig varstu alla tíð, algjör ljúflingur.

Þessar minningar ylja og er ég full þakklætis fyrir það sem þú gafst mér og varst mér.

Þú varst tíu ára þegar ég flutti norður og eftir það hittumst við systkinin sjaldnar, en alltaf var samband okkar ljúft og gott. Þegar farið var í heimsókn á æskuslóðirnar var ætíð fyrst komið við hjá ykkur Gústa í Ólafsvíkinni. Þú varst mikil fjölskyldukona og það var alltaf ljúft að koma til þín og fá kaffisopa og heimabakað meðlæti. Hugsaðir svo vel um heimilið þitt og gullmolana þína þrjá, Kristnýju, Adam og Leví.

Fyrir fimm árum breyttist allt þitt líf, þegar veikindi þín settu þig á annan stað í lífinu, en alltaf skein persóna þín í gegn svo blíðlega og ljúft. Alltaf var stutt í brosið þitt þrátt fyrir mikla vanlíðan. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að vera í samfylgd með þér í gegnum þessi ár og í gegnum veikindi þín. Við systurnar og mamma áttum góðar stundir með þér, sem styrkti samband okkar og gaf okkur mikinn styrk til að takast á við þetta stóra verkefni.

Núna ert þú komin á betri stað í faðm Guðs og til allra ættingja okkar sem farnir eru á undan þér.

Hvíl í friði, elsku systir, þín verður sárt saknað og mun ég gráta mikið, en góðar minningar um góða manneskju og systur mun lifa í hjarta mínu.

Elsku mamma, Gústi, Kristný, Ingvi, Adam, Lísa og Leví. Guð gefi ykkur öllum styrk í sorginni.

Það má svo sem vera

að vonin ein

hálf veikburða sofni í dá.

Finnst vera eitthvað

sem íþyngir mér

en svo erfitt í fjarlægð að sjá.

Það gilda má einu

hvort ég áleiðis fer

eða staldra hér ögn við og bíð.

Þótt tómið og treginn

mig teymi út á veginn

ég veit ég hef alla tíð...

Verið umvafin englum

sem að vaka hjá

meðan mannshjörtun hrærast

þá er huggun þar að fá.

Þó að vitskert sé veröld

þá um veginn geng ég bein

því ég er umvafin englum

aldrei ein – aldrei ein.

(Valgeir Skagfjörð)

Þín systir,

Dóra Sólrún Kristinsdóttir.

Hafalda, okkar ástkæra systir, mágkona, vinkona og frænka, er látin. Við viljum þakka fyrir góðu árin sem við áttum með henni.

Sitjum hér með tárin í augunum, okkur finnst tómlegt að hugsa um lífið án hennar, að hún sé farin frá okkur.

Hún var tekin frá okkur allt of snemma en þegar við hugsum um að hún sé farin rifjast upp margar gamlar fallegar minningar.

Hún sem var svo einstaklega falleg að innan sem utan með hjartað á réttum stað, einstaklega ljúf og góð manneskja.

Hafalda var einstaklega traust og ábyrg, svo nákvæm og allt sem hún tók sér fyrir hendur gerði hún einstaklega vel og var ofboðslega metnaðargjörn.

Einstaklega skyldurækin, ef það voru afmæli gátum við bókað að hún kæmi í kaffi og alltaf með gjöf.

Hún var mikill dýravinur og barnavinur, var þessi manneskja sem laðaði að sér fólk og dýr.

Hún var alltaf svo róleg og yfirveguð og öllum líkaði vel við hana, var sannkallaður demantur.

Hún var góður blakfélagi, badmintonfélagi, svo mikill keppnismanneskja. Einu skiptin sem hún skipti skapi voru á vellinum. Annars var hún oftast blíð og góð, svo hjálpsöm og alltaf til staðar, sérstaklega þegar á reyndi.

Hún hjálpaði okkur fjölskyldunni mikið og með bókhaldið frá upphafi alveg fram að veikindum og við metum það mikils, án hennar hefðum við aldrei getað þetta. Við söknum hennar sárt.

Erum svo heppin að eiga dásamlegar og fallegar minningar um yndislega konu sem lifir í hjörtum okkar um alla ævi.

Elsku fallega blómið okkar, vonandi ertu komin á betri stað þar sem þér líður vel og megi guðs englar umvefja þig.

Nú er hún komin til pabba, ástkæru systur sinnar og frænda sem munu taka vel á móti henni.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson)

Við sendum Gústa, Kristnýju, Adam, Leví og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur. Megi guð styrkja og umvefja ykkur á þessum erfiðu tímum. Við sendum ykkur ljós og styrk.

Með kveðju.

Jóhann, Katrín

og fjölskylda.

Við sitjum hér við tölvuna og horfum út um gluggann á fyrsta snjóinn prýða trén glitrandi í vetrarsólinni og reynum að finna leið til þess að lýsa hugsunum okkar. Maður hefur misst taktinn og finnur engin orð þar sem aðeins eitt kemst fyrir í huga manns. Í sorginni þráir maður að skilja, þó það sé ekki hægt, og spyr „Hvers vegna?“ Hafalda sem var sannarlega svo góð fyrirmynd á öllum sviðum. Glöð, hreinlynd, söngelsk, góður félagi og aldrei heyrði maður hana hallmæla nokkrum manni. Hugurinn reikar til minninganna úr Rifinu og samverustunda okkar systkinanna og leikfélaganna.

Í æsku okkar Haföldu var Rifið fullt af börnum við leik og störf frá morgni fram á kvöld. Í heyskap hjá afa og ömmu og í lok vinnudagsins tóku við leikir í göltunum og í fjörunni og þaðan hlaupið fram á bryggjurnar. Alls staðar var líf þar sem krían varð svo eftirminnilegur miðpunktur á vorin þar sem hún varði lönd sín, breiddi elsku sína yfir börn sín og sótti björg í bú. Í þessu umhverfi varð öllum eðlislægt að virða lífið og vinskapinn og elska náttúruna.

Við gengum kát út í lífið, fundum elskuna og stofnuðum fjölskyldur. Áttum margar góðar stundir með Haföldu og fjölskyldum okkar í útilegum og ferðalögum um Ísland. Náinn og góður vinskapur tókst með börnum okkar. Lífið var fullt af áskorunum og viðfangsefnum sem maður tókst á við með fjölskyldu og vinum. Samveran úi í náttúrunni opnaði hugann og treysti vinaböndin. Þessar minningar eru nú svo verðmætar og við varðveitum myndirnar í huganum þar sem við sátum með Haföldu undir tjaldskörinni, hlógum og sungum meðan við horfðum á daginn skila sér inn í nóttina. Glóð sólarinnar varpaði smáum skuggum og nóttin breiddi smám saman mjúka töfrablæju sína yfir heiðina og jökulinn. Fuglarnir höfðu sungið og kvakað allan liðlangan daginn elsku sína og kærleik yfir unga sína sem földu sig í móanum.

En gleðin er ekki alltaf ein á ferð; hún getur leitt sorgina sér við hlið. Allt sem þú elskar vekur þér gleði og tími Haföldu með börnunum og barnabörnunum var alltaf svo dýrmætur. Við þökkum Haföldu fyrir yndislega samfylgd sem átti að verða svo mikið lengri. Við sendum Gústa, Kristnýju, Adam og Leví hugheilar samúðaróskir. Hugur okkar er hjá þeim öllum og barnabörnunum.

Helena Sólbrá Kristinsdóttir og Guðmundur Gunnarsson.

Nú er komið að kveðjustund. Hafalda Elín stóra systir mín er farin frá okkur. Hún er örugglega búin að hitta bestu vinkonu sína, hana Jófríði Soffíu systur sem fór frá okkur fyrir 26 árum. Í uppvexti okkar man ég að Hafalda var alltaf blíð og umhyggjusöm stúlka. Hún var einstaklega greiðagóð og iðin þannig að hún var alltaf að aðstoða á heimilinu, sérstaklega í eldhúsinu. Á stóru heimili eru ýmis verk sem þarf að vinna og hún var alltaf fyrst að bjóða sig fram. Sem unglingur skildi ég engan veginn hvernig hún nennti að gera allt sem hún var beðin um því mér fannst ekkert leiðinlegra og reyndi alltaf að komast hjá því. Þegar við vorum orðnar fjórar yngstu systurnar eftir þurfti oft líka að aðstoða pabba með ýmis verk og þar var hún líka dugleg, þá aðallega við viðgerðir á vörubílnum og í stærri verkum í viðhaldi á húsinu.

Hafalda og Jófríður voru miklir vinir og ég ímynda mér að samband þeirra hafi verið eins og tvíburasambönd geta verið. Stundum öfundaði ég þær en var líka svo stolt að eiga svo flottar og hæfileikaríkar systur. Sem börn voru þær og vinkonur þeirra mjög uppátækjasamar. Ég man sérstaklega eftir uppsetningum á leikritum í Gamla Rifi eftir að það var tómt. Þær vinkonurnar settu upp alls kyns leikrit og allir voru kallaðir til að koma og horfa á. Okkur krökkunum fannst þetta eins og atvinnuleikhús.

Hafalda var alltaf einstaklega góð við mig og þegar ég átti stundum erfitt á unglingsárum var hún alltaf fyrst að koma og gera eitthvað til að hressa mann við.

Eftir að Hafalda varð fullorðin og eignaðist sitt heimili og börn var samband okkar alltaf gott þó að ég væri flutt til Reykjavíkur. Það var alltaf gott að koma í eldhúsið hennar og fá kaffi, rækjusalat og kex. Við gátum rabbað um heima og geima og ég tala nú ekki um þegar við vorum báðar farnar að æfa blak og jafnvel kepptum á móti hvor annarri. Dönsuðum saman á lokahófinu. Við völdum báðar sama númer á keppnisbúninginn okkar án þess að vita af því. Númerið okkar var 13, lukkutalan hennar Jófríðar. Soffía dóttir mín er með sama númer á sínum búningi í fótboltanum í dag. Hafalda er mikil fyrirmynd fyrir marga enda er hún nægjusamasta og duglegasta manneskja sem ég þekki. Hugsaði alltaf fyrst um aðra en átti svo sannarlega innstæðu fyrir að gera meira fyrir sig.

Síðustu ár hafa verið okkur erfið en Hafaldan okkar hvarf frá okkur smátt og smátt inn í þennan skelfilega sjúkdóm alzheimer. Við gátum lengi vel ekki meðtekið það að þetta væri að gerast en þegar hún réði ekki lengur við einföldustu hluti varð maður að sætta sig við það. Eftir að Hafalda og Gústi þurftu að fá meiri aðstoð komu þau til Reykjavíkur og hittumst við þá oftar, fyrst í dagþjálfun í Hlíðarbæ, þar sem henni leið mjög vel, og síðan á Droplaugarstöðum. Mamma og við systurnar eyddum miklum tíma saman í herberginu hennar og það gaf okkur mikið að geta verið hjá henni og aðstoðað hana eftir bestu getu.

Ég kveð hana með sorg í hjarta og vil trúa því að núna sé hún með Jófý, Hjalta og pabba og þau hjálpi hvert öðru.

Kveðja,

Snædís.

Það var veturinn 1997, leiðinlegt veður úti og við Hjalti kúrðum okkur inni á herbergi í Menntaskólanum að Laugarvatni. Hann var að segja mér frá föðurfjölskyldu sinni, enginn smá fjöldi og flestir skírðir tveimur nöfnum. Ég staldraði við nafn Haföldu af því ég hafði aldrei heyrt það áður en fannst það ofsalega fallegt og passa eitthvað svo vel við stelpu frá Rifi á Snæfellsnesi.

Tíminn leið og ég var svo heppin að fá að kynnast stórfjölskyldu Hjalta, öllu þessu góða fólki. Mér er sérstaklega minnisstætt vorið 2007 þegar við Hjalti fórum vestur og hann á sjóinn en Elísa Björk var nýfædd. Einn daginn var ég ein heima með litla molann okkar, Hafalda kom þá færandi hendi með nýbakaðar kræsingar og sængurgjöf. Ég þekkti hana ekki mikið, hafði oft hitt hana en ekki mikið spjallað því hún var mjög hlédræg að eðlisfari.

Mér þótti svo vænt um hvað hún gaf mér mikinn tíma, hún var hjá mér nær allan daginn og við kynntumst svo vel. Spjölluðum um lífið og tilveruna, nýja litla lífið, móðurhlutverkið, barnæskuna á Rifi, foreldra hennar, systkini og fleira.

Eftir að Hafalda fór á Droplaugarstaði reyndi ég að fara eins oft til hennar og ég gat. Einfaldlega út af því að Hafalda gaf mér svo mikið, nærvera hennar var einstök, hláturinn og brosið. Auðvitað var erfitt þegar maður sá að sjúkdómurinn var að ná meira og meira yfirhöndinni. Börnin mín og sérstaklega Ester Laufey komu nokkrum sinnum með mér, hún byrjaði að læra á þverflautu í haust og fannst gaman að koma með mér á mánudögum og spila fyrir Haföldu. Bros Haföldu var klárlega besta hólið sem hún fékk fyrir flautuleikinn.

Það var því erfitt að taka á móti henni úr flaututíma, mánudaginn sem Hafalda kvaddi, og segja henni fréttirnar eftir að hún hafði sagt að hún væri tilbúin með nýtt lag fyrir Haföldu og hvort við værum ekki að fara til hennar.

Elsku Hafalda mín, takk fyrir minningarnar einstaka kona, hvíldu í friði.

Elsku Ester, Gústi, Kristný, Adam, Leví og fallegu barnabörn, votta ykkur öllum mínum dýpstu samúð.

Anna Ýr Böðvarsdóttir.

Hún var hógvær og hlédræg. Falleg með sitt mikla hrafnsvarta hár, hvíta húð og rauðar varir. Hún var alveg eins og Mjallhvít í sögunni. Hún var öflugur liðsmaður í leikjum og uppátækjum okkar krakkanna í Rifi, alltaf með en tók aldrei forystu. Hún var iðin til allra verka svo af bar en talaði ekki af sér.

Þegar flestir úr hópnum voru farnir að heiman til náms og ég sem var yngst í þessum hópi var enn eftir á Rifi skrifaði hún mér bréf frá Reykholti. Lýsti fyrir mér lífinu á heimavistinni, henni var umhugað um mig og hún var hrædd um að mér leiddist og væri einmana. Svona var hún, umhyggjusöm og kærleiksrík gagnvart sínum. Hún var með hjarta úr gulli.

Gústi og börnin voru hennar gleði og gæfa. Um þau hugsaði hún af mikilli alúð og lagði kapp á að búa þeim sem best heimili.

Þegar minnið fór að gefa sig og leitað var skýringa áttum við saman nokkrar stundir þar sem við rifjuðum upp æskuna. Áfallið stóra þegar frændurnir drukknuðu, gleðistundir okkar í leikjum, heyskap og öðru í Rifi og öll leikritin sem við settum upp í Gamla Rifi. Allt sem við áttum með Jófríði og söknuðinn eftir henni.

Við hlógum, grétum og sungum saman, reyndum að losa um allt gamalt og sárt. En svo kom í ljós að það var hinn grimmi alzheimersjúkdómur sem rændi hana minninu, persónuleikanum og svo að lokum lífinu sjálfu. Það hefur verið sárt að fylgjast með glímunni við þennan grimma sjúkdóm. En einnig gefandi að verða vitni að þeirri ást og þeim kærleika sem hún var umvafin af fjölskyldu sinni. Sérstaklega varð ég vitni að ástríki Esterar og systranna við að lina þjáningar hennar.

En þvílíkt erfitt hlutskipti fyrir Ester og systkinin að þurfa í annað sinn að fylgjast með dóttur og systur heyja erfiða baráttu við ólæknandi sjúkdóm.

En nú hefur Hafalda fengið hvíld og betri líðan á nýjum stað. Ég er þakklát fyrir samfylgd hennar.

Elsku Gústi, Kristný, Adam, Leví, Ester og systkinin, ykkar spor hafa verið þung í langan tíma, innilegar samúðarkveðjur, Guð gefi ykkur styrk. Ljúf minning Haföldu lifir.

Erla.

Hafalda hefur farið í sitt síðasta ferðalag, hún kvaddi okkur á sama hátt og hún lifði, af sínu meðfædda æðruleysi og rósemi.

Þó að kveðjustundin hafi verið erfið var hún um leið falleg og friðsæl.

Við sem fylgdumst með henni í gegnum veikindin sem tóku hana frá okkur sáum alltaf karakterinn sem hún hafði að geyma, hún gat hlegið að lélegum bröndurum okkar og lengi gátum við farið með hana á rúntinn til Hveragerði og þá var sungið alla leiðina.En söngur fylgdi henni alla tíð, bæði var hún í kirkjukór og átti marga góða smelli í karókí á börum víðs vegar um heiminn. Við brosum oft þegar við hugsum um keppnisskapið í Haföldu, en henni þótti frekar leiðinlegt að tapa, hvort sem það var í blaki eða badminton, hún gaf allt í leikinn og hikaði hvergi við að fórna sér á eftir bolta. Þetta keppnisskap hjálpaði henni og okkur þegar fréttin kom um að hún væri komin með hinn illvíga sjúkdóm Alzheimer. Öllu tók hún með sama æðruleysinu. En á endanum þegar tapið var óumflýjanlegt tók hún því með reisn. Hafalda sótti styrk í barnatrú sína sem hún ræktaði alla ævi og kenndi sínum börnum, Kristnýju, Adam og Leví, sem geta nú leitað í þann sama styrk í sorginni sem dynur á.

En nú er hún farin og við sem eftir sitjum getum einungis yljað okkur við allar góðu minningarnar sem við eigum og enginn getur tekið frá okkur. Minningar frá unglingsárunum þegar lífið snerist um að fara á ball í Röstinni eða á sveitaball og okkur fannst við vera ódauðleg.

Minningar frá því þegar við vorum farin að búa, við á Laugarnesveginum og Gústi og Hafalda í Ólafsvík. Aðfangadagskvöldið sem við áttum saman á Laugarnesveginum og biðum eftir að Kristný kæmi í heiminn.

Minningar um árin sem við bjuggum í Ólafsvík, með allan barnaskarann í kringum okkur.

Minningar um öll ferðalögin sem við fórum í saman bæði innanlands og utan. Útilegurnar með fjölskyldunni þar sem alltaf var hægt að fara í tjaldið hjá Haföldu og gæða sér á rækjusalati.

Alltaf nóg til handa öllum. Í ferðum okkar um heiminn er svo margs að minnast og oft kom hún okkur á óvart með óttaleysi sínu, hún hikaði ekki við að klappa tígrisdýrum á magann eða hoppa á fílsbak eða kafa með fiskum úti á hafi. Kannski var eitthvað sem sagði henni að lifa lífinu lifandi og prófa sem flest því hún fengi ekki mikinn tíma.

Eftir stendur í huga okkar eitt lítið orð, sem er „takk“. Takk fyrir að hafa fylgt okkur í gegnum súrt og sætt í næstum 40 ár.

Takk fyrir að sýna okkur að lífið er hverfult og ekki hægt að taka sem sjálfsögðum hlut. Takk fyrir að sýna okkur að það er hægt að mæta örlögum sínum með æðruleysi. Takk fyrir allar skemmtilegu stundirnar, öll ferðalögin sem við fórum saman.

Takk fyrir allan hláturinn og gleðina sem við áttum.

Elsku Hafalda okkar. Takk fyrir allt. Þín verður sárt saknað.

Hver minning dýrmæt perla,

að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug

þakka hér.

Þinn kærleikur í verki er gjöf sem

gleymist eigi

og gæfa var það öllum er fengu að

kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Innilegar samúðarkveðjur.

Sigurlaug og Ingólfur.

Dulúð lýsir henni vel, afskaplega fallegt barn en ekki síður falleg sem fullvaxta kona. Einhvern veginn svo ósnertanleg eins og álfkona.

Við bárum báðar nafn hafsins, hennar töluvert sjaldgæfara en mitt.

Ár skildi okkur að en við vorum mörg frændsystkinin á svipuðum aldri sem ólumst upp í litla sjávarþorpinu á Rifi.

Einstaklega falleg sál með hreint hjartalag, nærvera hennar gefandi og engan vildi ég heldur hafa hjá mér þegar ég var veik sem barn en Haföldu. „Mamma, má Hafalda koma að leika við mig?“ var viðkvæðið og alltaf var það sjálfsagt mál af hennar hálfu.

Ég heyrði fullorðnu konurnar í þorpinu tala um að Hafalda væri svo handfljót og dugleg að vinna. Það væri nú ekkert mál fyrir hana Ester að vinna á móti 13 ára dóttur sinni í síldarsöltun hjá KG.

Þetta fannst mér merkilegt og ákaflega eftirsóknarverður mannkostur. Ég suðaði í mömmu að hringja í Kristján Guðmundsson til að biðja um vinnu í síldarsöltun fyrir mig og Jófríði systur Haföldu, en við vorum jafngamlar. Mikið var þetta erfið vinna og þó að við værum mjög duglegar 12 ára gamlar stúlkur, næðum varla ofan í tunnurnar, heyrði ég aldrei talað um að við værum „handfljótar“ enda ekki hálfdrættingar á við Haföldu.

Ég á skemmtilega minningu frá unglingsárunum þegar Hafalda var í Héraðsskólanum í Reykholti og við Jófríður í Héraðsskólanum að Reykjum í Hrútafirði. Reykholtsskóli kom eitt sinn í heimsókn að Reykjum til að etja kappi í körfubolta og fleiri íþróttagreinum. Viðhöfðum hlakkað mikið til að hittast við þetta tækifæri. Við Jófríður kepptum í körfu og þegar við vorum í miðjum kappleik heyrði ég Reykholtsstráka kalla úr stúkunni: „Hvar eru Jófríður og Smáfríður?“ Þá mundu þeir ekki nafnið mitt en greinilega lýsingu Haföldu á frænku sinni. Ég vildi helst hverfa niður úr gólfinu.

Nú er álfkonan fagra komin til nýrra heimkynna en minningin um hana lifir með okkur sem hana þekktum.

Lífið og dauðinn eru eitt, eins og áin og hafið eru eitt.

(Khalil Gibran)

Ástvinum öllum sendi ég innilegustu samúðarkveðjur.

Sæunn Sævarsdóttir.

Nú er hún Hafalda okkar fallin frá, að okkur finnst allt of snemma. Við minnumst hennar sem góðs vinar og félaga í Kirkjukór Ólafsvíkur. Hún var alltaf róleg og yfirveguð, hjálpsöm og hafði afar hlýja nærveru.

Í dag kveðjum við hana með söknuði en geymum í hjörtum okkar allar góðu minningarnar og þökkum samfylgdina í gegnum árin.

Fjölskyldu Haföldu og vinum vottum við okkar innilegustu samúð. Blessuð sé minning hennar.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Fyrir hönd Kirkjukórs Ólafsvíkur,

Nanna og Steiney.

Hún Hafalda okkar hefur kvatt, en skilið eftir mikið af minningum. Minningum sem við eigum eftir að geyma og verma okkur við. Minningum um gleði, sorg, vináttu og traust.

Hugurinn geymir góða og slæma reynslu, sem við getum nýtt okkur í gegnum vandamál dagsins og búið til gleðistund minninga. Þegar svo minningin hverfur gerir lífið það líka.

Við sem eftir lifum flettum nú upp í huga okkar myndum af einstakri manneskju og vermum sál okkar með fallegum minningum um hana Haföldu okkar. Það kvikna margar ljúfar minningar nú þegar leiðir skilja og aðrar daprari sem við höfum upplifað með henni.

Ferðirnar vestur um áramótin hlýja okkur um ókomna framtíð. Taílandsferðin var yndisleg þótt tár hafi fallið þar á fyrstu árum sjúkdóms hennar. Heimsóknir til okkar á Spáni koma óneitanlega upp í hugann og þá sér í lagi jólin þegar við, Gústi og Hafalda, Ingó og Silla, ásamt öllum börnum og barnabörnum nutum jólahátíðarinnar saman við söng, spil og gleði.

Þá verða kaffiboð og barnaafmæli verðmætar minningar þar sem fjölskyldan og vinir hittust. Þar var konfektkakan sem krakkarnir elskuðu og nefndu snemma Hafölduköku og varð með tímanum í öndvegi á veisluborðinu. Tímarnir með þeim hjónum í Kirkjukór Ólafsvíkur óma sem rismikill og fagur sálmur, sem skilur eftir mynd af yndislegum hjónum.

Hafalda var sterkur karakter sem lét lítið yfir sér. Dags daglega var hún róleg þó að stutt væri í sprell og hlátur sem var mörgum minnisstæður. Hún sagði kannski ekki mikið þegar á bjátaði heldur beit á jaxlinn. Hún þurfti ekki mörg orð til að mynda vináttu heldur var sterk nærvera hennar sem batt hana saman. Eða eins og betri helmingurinn lýsir því: „Strax og hún var að kynnast fjölskyldu okkar var hún bara eins og systir og hefur alltaf verið.“ Eflaust hefur það verið traustið og trygglyndið sem skapaði þennan fallega eiginleika.

Hafalda var keppnismanneskja og stóð Gústa þar ekkert að baki. Þannig eru eftirminnilegir tímar í badminton hvort sem þau voru að keppa sín í millum eða saman, var allt gert af miklu kappi. Stundum varð barátta þeirra um fjaðurboltann, spilandi saman í tvenndarleik, oft heldur mikil og kom mótleikurunum þá stundum til góða.

Hafalda var Rifsari, með stóru erri ef það var eitthvert vafamál, í hugum fólks. Krían fuglinn hennar, eins og allra Rifsara. Krían vinnusama, sem eyðir stuttu sumarfríi sínu á Íslandi til að koma upp ungviði sínu, minnir um margt á Haföldu. Vinnusemi, umhyggja og þegar við átti gat hún alveg látið heyra vel í sér.

Kæra Ester, systkini og fjölskyldur, ættingjar,vinir og venslafólk, við samhryggjumst ykkur á þessari sorgarstund, sem að vísu er líka stund léttis allra viðkomandi.

Elsku Gústi, Kristný, Adam, Leví og fjölskyldur. Við vottum ykkur okkar dýpstu samúð nú þegar komið er að kveðjustund. Það hafa verið dapurlegir tímar að fylgjast með henni hverfa hægt og rólega frá okkur án þess að eiga von um nokkurn bata. Hafalda mun ætíð eiga stað í hjörtum okkar, og þið elskurnar eigið það líka.

Agla, Arnljótur, Dagný,

Örn og Stefanía.

Sunnan yfir sæinn breiða

sumarylinn vindar leiða

draumalandið himinheiða

hlær og opnar skautið sitt

vorið kemur, heimur hlýnar hjartað mitt.

Gakk þú út í græna lundinn,

gáðu fram á bláu sundin

mundu að það er stutt hver stundin

stopult jarðneskt yndið þitt

vorið kemur, heimur hlýnar hjartað mitt.

Allt hið liðna er ljúft að geyma

láta sig í vöku dreyma

sólskinsdögum síst má gleyma

segðu engum manni hitt

vorið kemur, heimur hlýnar hjartað mitt.

(Jóhannes úr Kötlum)

Með þessu ljóði langar okkur í Samkór Reykjavíkur að kveðja fyrrverandi kórfélaga okkar Haföldu Elínu Kristinsdóttir, sem söng með okkur í allt of stuttan tíma. En í þann stutta tíma sáum við að þar fór hjartahlý, söngelsk og alveg yndisleg manneskja sem kvaddi allt of fljótt. Kórfélagar senda Gústa, börnum, tengdabörnum og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur.

Megi Guð gefa ykkur styrk í sorginni.

Fyrir hönd félaga í Samkór Reykjavíkur,

Sylvía Daníelsdóttir.