Baldur Ágústsson
Baldur Ágústsson
Eftir Baldur Ágústsson: "Jafnframt eigi tímafrek mál ekki að tefja önnur sem fljótlegt er að framkvæma. Mál sem þannig tefjast gildi því afturvirkt eins og fordæmi eru fyrir."

Nú sitja þrír stjórnmálaflokkar með mismunandi áherslur – og sögu – og sammælast um völd, hvernig eigi að skipta þeim og hvaða kosningaloforð sé hægt að efna – og hvenær. Þjóðin fylgist með. Flest erum við hóflega bjartsýn en bíðum og vonum, eins og alltaf!

Áskorun

Það þarf ekki að segja ykkur stjórnmálamönnum að kjósendur skynja að þrátt fyrir mörg góð kosningaloforð á undanförnum árum hafa þær væntingar margar brugðist; loforðin „gleymst“ og efndirnar verið trassaðar, jafnvel út allt kjörtímabilið og þá verið lofað aftur – og síðan aftur.

Meðal þess sem þannig hefur farið fyrir er t.d. opin stjórnsýsla, milliliðalaust lýðræði, réttur kjósenda til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál – að ekki sé minnst á hjól atvinnulífsins og skjaldborg heimilanna.

Lífskjör aldraðra, öryrkja og sjúkra, svo og fátækt hafa líka verið margnefnd en ekkert gerst. Það er til sérstakrar skammar því þar er um að ræða lífsskilyrði og lífshamingju þeirra sem eiga oft lítinn tíma eftir ólifaðan til að njóta gleði og góðra stunda þegar líður á ævikvöldið.

Tilfinning margra kjósenda er sú að þjóðfélagið sé á niðurleið og rétt eins og flugvél sem stefnir á fjall geti orðið stutt í sprengingu.

Ég skora á þá stjórnmálamenn sem nú standa í eldlínunni að temja sér eftirfarandi vinnubrögð til að ávinna sér stuðning, traust kjósenda og bjartsýni þjóðarinnar:

1. Málefnasamningur nýrrar ríkisstjórnar verði einfaldur, auðskilinn og afdráttarlaus.

2. Forgangsmál verði ljós og dagsetningar framkvæmda settar í samninginn. Jafnframt eigi tímafrek mál ekki að tefja önnur mál sem fljótlegt er að framkvæma. Mál sem þannig tefjast gildi því afturvirkt eins og fordæmi eru fyrir.

3. Þá komi einnig fram, að eigi síðar en þegar fyrirtekt einstakra mála á að hefjast, verði formlega kynnt hverjir hafa haft uppi óskir eða þrýsting um viðkomandi mál og hverjar óskir þeirra eru. Einnig, að hve miklu leyti þessar óskir voru teknar til greina og eru því hluti málsins eins og það er tekið fyrir t.d. á Alþingi.

4. Í töluðu jafnt sem rituðu máli verði efni og flokkar kallað sínum réttu nöfnum. T.d. er nú innheimt sjónvarpsgjald sem ekki rennur allt til Rúv.

Svipað mun vera um fleiri gjöld sem innheimt eru.

Þjóðin fái kórréttar skýringar, þ.m.t. sönn nöfn á öll mál.

5. Ljóst sé, í ræðu þeirra, riti og verkum að stjórnmálamenn gangi til starfa sem trúnaðarmenn þjóðarinnar allrar jafnt – af heilindum og heiðarleika.

Að lokum

Ég læt hér staðar numið í bili, en sjálfsagt verða ýmsir til að lengja þennan lista, þeir sem vel þekkja vandamálin og leiðir til úrbóta.

Ég vona að íslensk þjóð geti hlakkað til komandi kjörtímabils undir stjórn þings og ríkisstjórnar sem setur réttlæti, heiðarleika og heilindi á oddinn.

Ég óska verðandi ríkisstjórn velfarnaðar og verðskuldaðrar virðingar.

Höfundur er fv. forstjóri, flugumferðarstjóri og frambjóðandi til embættis forseta Íslands. baldur@landsmenn.is