Ferðalag Sigurbergur Sveinsson og félagar spila í Hvíta-Rússlandi í dag.
Ferðalag Sigurbergur Sveinsson og félagar spila í Hvíta-Rússlandi í dag. — Morgunblaðið / Hari
Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Við rennum blint í sjóinn.

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Við rennum blint í sjóinn. Vitum nánast ekkert um þetta lið sem mætum en látum það ekki á okkur fá,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari karlaliðs ÍBV í handknattleik en hann er mættur til Zhlobin í Hvíta-Rússlandi þar sem ÍBV mætir HC Gomel í Áskorendakeppni Evrópu í dag. Um er að ræða fyrri viðureign liðanna.

„Venjulega þá býr maður sig undir leiki með því að fara yfir upptökur af leikjum andstæðinganna en í þessu tilfelli er því ekki til að dreifa. Við höfum reyndar bút úr leik HC Gomel og Meshkov Brest en þar var svo mikill munur á liðunum að það er ekkert að marka enda er Brest eitt besta lið Evrópu. Nú erum við í einhverju allt öðru sem getur líka verið spennandi,“ sagði Arnar í gær þar sem hann var nýstiginn upp í rútu fyrir utan flugvöllinn í Minsk en rútan átti að flytja hann og liðsmenn ÍBV nærri 300 km leið til Zhlobin. Bærinn er í suðausturhluta Hvíta-Rússlands, ekki langt frá landamærunum Úkraínu, ekki svo ýkja langt frá borginni Chernobyl hvar eitt mesta kjarnorkuslys sögunni varð fyrir rúmum 30 árum.

Eru án þriggja sterkra

ÍBV teflir ekki fram sínu sterkasta liði í dag, að sögn Arnars. Magnús Stefánsson meiddist í viðureign við FH á miðvikudagskvöldið. Ákveðið var að hann yrði eftir heima eins og Elliði Snær Viðarsson sem einnig er meiddur. Markahæsti leikmaður Eyjaliðsins, Theodór Sigurbjörnsson, fór heldur ekki með félögum sínum til Hvíta-Rússlands þar sem hann verður væntanlega faðir í fyrsta sinn um helgina.

„Við erum spenntir fyrir þessu. Það getur líka verið skemmtilegt að takast á við óvissuna,“ sagði Arnar.

Lið HC Gomel er skipað fremur ungum leikmönnum. Þeir væru frá 16 til 22 ára flestir en fáeinir væru nærri þrítugu. Tveir Úkraínumenn væru í hópnum en aðrir væru Hvít-Rússar. Reynslan er ekki mikil innan liðsins sem tók síðast þátt í Evrópukeppni fyrir þremur árum og féll þá úr leik í fyrstu umferð fyrri Bern Muhri frá Sviss.

Fleiri Íslendingar á ferðinni

HC Gomel er í þriðja sæti efstu deildar í heimalandinu en aðeins eru sex lið í deildinni. Liðið hefur unnið fjórar viðureignir en tapað sjö, síðast fyrir SKA Minsk á dögunum, 30:28. Minsk trónir á toppi deildarinnar um þessar mundir en fyrrgreint Meshkov Brest-lið er í öðru sæti en á leiki til góða á Minsk.

Ef marka má heimasíðu HC Gomel verður mikið um dýrðir í keppnishöllinni í Zhlobin í nágrenni Gomel því auk leiks karlalið HC Gomel og ÍBV í Áskorendakeppninni í dag mun í kjölfarið verða flautað til leiks hjá kvennaliði HC Gomel og Byåsen frá Noregi. Með norska liðinu leikur íslenska landsliðskonan Helena Rut Örvarsdóttir. Helena og félagar unnu fyrri leikinn með fjögurra marka mun, 32:28.