Mannlíf Sungið og spilað í borginni á fallegum degi.
Mannlíf Sungið og spilað í borginni á fallegum degi. — Morgunblaðið/Golli
Þingmenn sem kjörnir voru á dögunum eru brýndir til dáða í ályktunum aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands sem haldinn var nýlega. Er skorað á þá að bæta kjör örorkulífeyrisþega í gegnum fjárlög næsta árs.

Þingmenn sem kjörnir voru á dögunum eru brýndir til dáða í ályktunum aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands sem haldinn var nýlega. Er skorað á þá að bæta kjör örorkulífeyrisþega í gegnum fjárlög næsta árs. Þar eru nefnt að hækka óskertan lífeyri almannatrygginga í 390 þúsund krónur fyrir skatt og afnema skerðingu sérstakrar framfærsluppbótar krónu á móti krónu með því að fella bótaflokkinn inn í tekjutryggingu.

Fullgildir þátttakendur

Í umfjöllun aðalfundar ÖBÍ um atvinnu- og menntamál er skorað á Alþingi að auka atvinnutækifæri fatlaðs fólks og þess sem hefur skerta starfsgetu svo hlutastörf við hæfi bjóðist. Einnig að innleiða hvatningakerfi fyrir fyrirtæki til að ráða starfsfólk með skerta starfsgetu. Viðeigandi hjálpartæki verði fyrir hendi og stofnaður opinber lánasjóður fyrir fatlað fólk og örorkulífeyrisþega til að fjármagna kostnað til uppbyggingar sem gæti stuðlað að aukinni atvinnuþátttöku þeirra. Sömuleiðis verði tækifæri fatlaðs fólks til náms og tryggð, svo að nemendur með sérþarfir fáiþjónustu sem þeir eiga rétt á.

„Gefa þarf öllum tækifæri til að verða fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Einstaklingar með skerta starfsgetu hafa oft litla möguleika á að komast út á vinnumarkaðinn þar sem framboð af hlutastörfum við hæfi er mjög takmarkað,“ segir í greinargerð með tillögum. Þar er einnig vakin athygli á viðhorfskönnun sem Gallup gerði fyrir ÖBÍ, en þar kom fram að 80% aðspurðra voru hlynnt því að umbuna ætti fyrirtækjum og stofnunum sem réðu til starfa fólk með skerta starfsgetu. Unnt sé að auka atvinnuþátttöku þessa fólks með nýsköpun og um leið stuðla að sjálfstæðum rekstri þess. sbs@mbl.is