[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Zlatan Ibrahimovic og Paul Pogba verða í leikmannahópi Manchester United þegar liðið tekur á móti Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Þetta staðfesti José Mourinho , knattspyrnustjóri United, á fréttamannafundi í gær.

* Zlatan Ibrahimovic og Paul Pogba verða í leikmannahópi Manchester United þegar liðið tekur á móti Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Þetta staðfesti José Mourinho , knattspyrnustjóri United, á fréttamannafundi í gær. Pogba hefur verið frá keppni síðustu tvo mánuðina og Zlatan hefur ekkert spilað síðan hann meiddist alvarlega á hné í apríl.

*Boston Celtics vann í fyrrinótt sinn 14. sigur í röð í NBA-deildinni í körfuknattleik þegar liðið bar sigurorð af ríkjandi meisturum, Golden State Warriors, 92:88. Boston, sem byrjaði tímabilið með því að tapa fyrstu tveimur leikjum sínum, lenti um tíma 17 stigum undir en tókst að knýja fram sigur. Kyrie Irving var drjúgur á lokakaflanum en hann skoraði 11 af 16 stigum sínum á síðustu fimm mínútunum.

*Verðlaunin fyrir október í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu féllu Manchester City í skaut. Pep Guardiola var útnefndur stjóri mánaðarins en lærisveinar hans hafa verið á gríðarlegri siglingu og eru með átta stiga forskot á toppi deildarinnar. Þjóðverjinn Leroy Sané var valinn leikmaður mánaðarins en kantmaðurinn snöggi skoraði þrjú mörk í október og gaf þrjár stoðsendingar.

* Milos Milojevic, fyrrverandi þjálfari karlaliða Víkings R. og Breiðabliks í knattspyrnu, hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari sænska liðsins Mjällby. Auk þess að vera aðstoðarþjálfari liðsins mun Milos verða yfirmaður akademíu félagsins. Mjällby hafnaði í öðru sæti í suðurriðli sænsku C-deildarinnar í ár og tapaði á dögunum fyrir Örgryte í umspili um sæti í B-deildinni.