[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Stjórnarmyndunarviðræðum Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og VG var fram haldið í gær og miðaði ágætlega samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Baksvið

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Stjórnarmyndunarviðræðum Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og VG var fram haldið í gær og miðaði ágætlega samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Starfshópar á vegum flokkanna þriggja unnu áfram að málefnasamningi ríkisstjórnarinnar í húsakynnum Alþingis allan daginn í gær og gekk sú vinna með ágætum, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Flokksformennirnir funduðu á nýjan leik í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í gær. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins fóru formennirnir yfir ákveðna kafla í málefnasamningnum með vinnuhópnum, sem hópurinn hafði ekki getað lokið við, án aðkomu formannanna. Meðal annars hafi það verið kaflar um skattamál, umhverfismál, málefni vinnumarkaðarins, heilbrigðismál og loftslagsmál.

Hlé vegna fundar Framsóknar

Formennirnir funduðu aftur þrír saman í kjölfar fundarins með málefnavinnuhópnum. Þeir gerðu hlé á fundi sínum síðdegis í gær, þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, þurfti að halda á haustfund miðstjórnar Framsóknarflokksins á Laugarbakka í Miðfirði. Fundurinn hófst í gærkvöld og stendur í allan dag.

Svo kann að fara að haustfundur Framsóknar setji strik í reikninginn hvað varðar að ljúka stjórnarmyndunarviðræðunum, þar sem í raun tapist einn sólarhringur vegna fundarins. Formennirnir gera sér þó vonir um að morgundagurinn verði vel nýttur og það takist að fínpússa málefnasamninginn á þeim degi, en segjast þó alltaf hafa mánudaginn upp á að hlaupa. Það verði að líkindum ekki fyrr en þá sem ráðast muni endanlega hvernig verkaskipting flokkanna verður í ríkisstjórn, hvaða flokkur fái hvaða ráðuneyti þótt fyrir liggi nú að Katrín Jakobsdóttir verður forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.

Formenn flokkanna töldu í gær að líklegt væri að málefnasamningur yrði tilbúinn upp úr helgi og í kjölfarið yrði hægt að kynna hann fyrir flokksstofnunum.