Iðunn Geirsdóttir var fædd á Eskifirði 7. september 1971. Hún lést á heimili sínu á Reyðarfirði 21. apríl 2018.
Foreldrar Iðunnar eru Geir Hólm, f. 9.1. 1933, byggingameistari, og Perla Hjartardóttir, f. 3.4. 1938, húsmóðir á Eskifirði. Systur Iðunnar eru Olga Geirsdóttir, f. 15.6. 1957, m. Anthony Palmer og eiga þau þrjú börn, Ingibjörg Geirsdóttir, f. 1.1. 1961, m. Snorri Guðmundsson og eiga þau þrjú börn, Kristín Geirsdóttir, f. 9.3. 1967 og á hún tvö börn.
Iðunn útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Egilsstöðum og síðan sem matvælafræðingur frá Háskóla Íslands. Eftir háskólanám vann Iðunn sem gæðastjóri hjá Myllunni-Brauð hf.
Eiginmaður Iðunnar er Ásgeir Jón Ásgeirsson, fjármálastjóri hjá Launafli ehf. Reyðarfirði og eiga þau dæturnar Berglindi Eiri, f. 26.7. 2000, og Heiðdísi Söru, f. 11.5. 2007.
Útför Iðunnar fer fram frá Reyðarfjarðarkirkju í dag, 28. apríl 2018, og hefst klukkan 14.

Við kölluðum hana stundum Iðunni djassgeggjara. Eða bara djassgeggjara. Hún átti nefnilega skemmtiatriði sem fólst í eftirhermun á djassi, með hreyfingum og þykjustuhljóðfæraleik. Það var eins og luftgítaratriði nema hvað hún spilaði á lúður. Eða kannski trompet. Það var allavega blásturshljóðfæri sem gaf frá sér hljóðin dú dú dúbbí, dúbí dúbí dú og hafði mjög einkennandi djasshljóm. Okkur fannst það fyndið af því að okkur þótti djass leiðinlegur og við hlógum á meðan Iðunn tók sóló. Hún hló svo með okkur á eftir, þessum lágværa, kraumandi einkennishlátri sínum, sem var að megninu til innvortis. Ekki kæfður eða niðurbældur, hann byrjaði bara svo djúpt. Og einhvern veginn finnst mér hlátur Iðunnar vera afar lýsandi fyrir hana. Hún var ekkert yfirborðsleg, hún Iðunn. Hún var meira inn á við, meira á dýptina, og þegar eitthvað kætti hana sást hláturinn ekki síður en heyrðist.

Þrátt fyrir að vera báðar innfæddir Eskfirðingar og varla meira en tvö hundruð metrar á milli Lambeyrarbrautar 3 og Hátúns 9 kynntumst við Iðunn ekki fyrr en á unglingsárum. Kannski fór ég upp í Hátún, ég man það ekki, en við kynntumst í það minnsta þegar Iðunn var í áttunda bekk og ég í níunda og við umgengumst talsvert fram yfir menntaskólaár. Eftir það varð sambandið stopulla, eins og verða vill þegar fólk vex upp og burt, stofnar fjölskyldu, fer í nám og býr í sitthvorum landshlutanum, eins og við Iðunn gerðum á víxl. En það var samt alltaf samband, nógu mikið til að detta í gamla gírinn þegar við hittumst og nógu mikið til að það styrktist þessi síðustu ár. Sem er mér svo dýrmætt.

Við spjölluðum stundum saman í síma, heimasíma, og hlógum að því að Kópavogsbúinn ég var með austfirskt númer en Reyðfirðingurinn hún var með Reykjavíkurnúmer. Nú er ég farin að kannast við númerið, sagði hún í eitt skiptið þegar ég hringdi og við hlógum saman að þessum misvísandi heimanúmerum. Þegar við Iðunn vorum svo báðar staddar hér á höfuðborgarsvæðinu hittumst við stundum. Ég sagði henni að ég væri mjög flinkur skutlari og hún leyfði mér að skutla sér smávegis og verja þannig með henni góðum dagsparti. Við borðuðum saman og spjölluðum og henni var skemmt þegar kom í ljós að ég var ekki jafn flink að hjálpa henni inn og út úr bílnum eins og ég var í skutlinu sjálfu. En það voru margir sem vildu skutla Iðunni, hjálpa henni eitthvað, gera henni eitthvað til þægðar, og auðvitað hitta hana. Og hún gerði sér grein fyrir því. Hún vissi til dæmis vel að það var ekki síður fyrir mig en hana að hún þekktist boð mitt um skutl. Iðunn var nefnilega ekki bara gegnheil og góð í gegn, hún var líka sterkgreind, og sú greind skilaði sér jafnt í góðum húmor og þægilegum samskiptum sem og í vakandi vitund um fallvaltleika lífsins og tímann sem teymir okkur á eftir sér, svo óttalega mislengi.

Í síðustu tvö skiptin sem við hittumst, síðasta sumar og síðasta haust, fórum við tvær saman vinkonurnar, ég og Þórunn Hrefna, hvor annarri til halds og trausts, eins og okkur þótti ráðlegra. Jú, því okkur gæti brugðið!  Við vissum að fyrst núna sæist það á Iðunni að hún væri veik, hárið hafði þynnst og húðin var þrútin, og við vorum hræddar við eigin viðbrögð. Í senn voru hjörtu okkar lítil og stór. Stór af væntumþykju til gamallar vinkonu. Lítil gagnvart meðvitundinni um hve litlu við stundum ráðum.

Auðvitað voru áhyggjur okkar af eigin viðbrögðum óþarfar. Í fyrra skiptið skammaði Iðunn okkur góðlátlega fyrir að koma áður en hún hefði haft tækifæri til að setja upp andlitið og í seinna skiptið bað hún okkur um að koma blessaðar við í sjoppu á leiðinni og kaupa handa sér ís. Í bæði skiptin sátum við langa stund og töluðum bæði um litla hluti sem gera lífið stórt og stóra hluti sem gera lífið erfitt. Hlógum mikið og grétum smávegis.
Með kærleika og virðingu kveð ég Iðunni mína Geirs og sendi aðstandendum hlýjar kveðjur samúðar og hluttekningar.

Vísa veginn, vaka yfir
allar góðar vættir bið.
Ástvinunum öllum vera
vegavísir fram á við.
c
Leiða áfram, lýsa veginn
ljúfum dætrum, báðum tveim.
Létta byrðar, lyfta þunga
úr hugum bæði og hjörtum þeim.

c

Veita vernd og vonir vekja
fjölskyldunni sértu hjá.
Lífsins gleði láttu þekkja
léttir þegar dregur frá.
x
Minning sú er eftir lifir
mætri konu vitni ber.
Megi Guð og góðar vættir
geyma hennar orðsins spor.
(bsi)

Benný Sif Ísleifsdóttir.