Kristjón Grétarsson frá Hellissandi fæddist 21. júlí 1963. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 21. apríl 2018.

Kristjón bjó lengst af á Hellissandi og stundaði þar sjómennsku en síðustu árin bjó hann í Grindavík þar sem hann vann við eigið fyrirtæki. Kristjón var sonur hjónanna Guðnýjar Sigfúsdóttur og Kristjóns Grétarssonar. Bróðir hans er Jóhann Grétarsson kerfisfræðingur.

Eftirlifandi börn hans og Áslaugar Sigmarsdóttur eru Gerða Arndal Kristjónsdóttir, Grétar Arndal Kristjónsson og Óskar Freyr Arndal Kristjónsson.

Sambýliskona hans er Laufey Þorgrímsdóttir frá Ólafsvík.

Kristjón verður jarðsunginn frá Lindakirkju í dag, 4. maí 2018, klukkan 13.

Hann Kiddi okkar er dáinn. Þessi káti fjörugi strákur sem allt vildi gera fyrir alla fæddist á Sólvangi í Hafnarfirði því ekki var pláss í Reykjavík, það var fullt tungl og allt fullt á fæðingardeildinni. Hann var þar eini strákurinn með átta stelpum. Það var sunnudagur 21. júlí og fyrsta Skálholtshátíðin og því vildi ljósan hans að hann yrði látin heita Brynjólfur eftir Brynjólfi biskupi. En það var löngu ákveðið að strákurinn yrði látin heita Kristjón eins og föðurafi hans. Þegar Kiddi var á fyrsta árinu fluttum við á Hellissand þar sem hann bjó lengst af. Kiddi var mjög kátur krakki alltaf brosandi og stríðnin og prakkarastrikin ekki langt undan. Hann var orkumikill og mikið útibarn. Jóhann bróðir hans fæddist fjórum árum seinna, Jóhann var innibarn og gat dundað sér við ýmislegt, mikill fiktari. Þegar Jóhann fór að stálpast reyndi Kiddi stundum að fá hann með sér út í fótbolta en það var ekki auðvelt. Kiddi tók því til sinna ráða og keypti bróður sinn með Matsbox bílum til að koma út og átti Jóhann því stórt safn af bílum.

Snemma kom í ljós áhugi Kidda á sjónum og stóð hann varla út úr hnefa þegar hann fór að fara með pabba sínum á sjó um helgar og í skólafríum eða hann var mættur á bryggjuna þegar pabbi hans kom í land að hjálpa honum að landa. Hann stundaði sjóinn lengst af og var bæði skipstjóri og stýrimaður á minni bátum. Kiddi var vinamikill og alltaf var stór hópur af krökkum í kringum hann. Einn af hans besti vinum Heiðar, bjó hinum megin við götuna en  það var aðeins vika á milli þeirra, þeirra vinskapur hefur haldist alla tíð. Hann eignaðist fleiri vini, Eyþór sem seinna varð mágur hans og Siggi Guðfinns en þeir líka hafa haldið vinskapnum við hann alla tíð. Svo var það hann Knútur en þeir brölluðu mikið saman. En vinahópurinn var stærri en ég nefni ekki alla.

Hann kynntist ungur Áslaugu Sigmarsdóttur en hún var ein úr vinahópnum. Þau giftu sig og voru saman í tuttugu og tvö ár.  Þau eignuðust saman þrjú börn; Gerðu, Grétar og Óskar. Gerða er gift Mána Ingólfssyni og eiga þau þrjú börn Reynir  Örn sem var í miklu uppáhaldi afa síns, Irmu Júlíu og Marin Leu. Grétar er í sambúð með Brynhildi Guðmundsdóttir og Óskar Freyr er í sambúð með Nönnu Birtu Pétursdóttir. Kiddi var mikill tónlistarunnandi og þegar hann hlustaði á uppáhalds hljómsveitir sínar sat hann eins og meðvitundarlaus og þá var oft erfitt að ná sambani við hann. Hann fór snemma að fikta á gítar og þeir bræðurnir báðir. Kiddi samdi bæði ljóð og texta og einnig samdi hann lög við ljóð eftir pabba sinn. Þeir bræður hafa síðan spilað mikið saman tveir og einnig ásamt fleirum aðallega í Boðunarkirkjunni og einnig  í fleiri kirkjum. Kiddi var alla tíð trúaður og ræktaði sína trú en Bakkus tók sinn toll en Kiddi  fór í meðferð bæði hjá SÁÁ og Samhjálp og átti löng edrútímabil.

Kiddi var mikið fyrir skepnur og átti í mörg ár hesta þegar börnin voru lítil. Þau eiga margar góðar minningar frá þeim tíma í hesthúsunum og útreiðatúrum með pabba sínum. Hundurinn hans, hann Rocky lifir hann en þeir hafa verið óaðskiljanlegir síðastliðin átta ár og var hans besti vinur og saknar hann nú húsbónda síns mikið. Kiddi var náttúrubarn og hjálpaði Kidda afa sínum mikið í trjágarði sem hann ræktaði, Tröð, og einnig eftir að afi hans lést og meðan hann bjó á Hellissandi. Kiddi átti líka alltaf lifandi blóm heima hjá sér og hann elskaði friðarlilju.

Kiddi kynntist Bergþóru Fjölnisdóttir í meðferð á Hlaðgerðarkoti og giftu þau sig og bjuggu þau saman í nokkur ár, Bergþóra  á þrjár dætur; Erlu, Tinnu og Bergþóru. Begga og Kiddi stofnuðu saman hreingerningafyrirtæki sem Kiddi vann við í um fimm ára tímabil eða þar til hann tók við fyrirtæki föður síns sem sá um viðgerðir á fiskikörum árið 2013 sem hann vann við til dauðadags.

Síðastliðið ár var Kiddi í sambúð með Laufeyju Þorgrímsdóttur frá Ólafsvík en þau hafa verið vinir frá unga aldri og vinskapur verið milli fjölskyldna okkar og hennar.  Kiddi var mikið ömmubarn bæði hjá Jóhönnu ömmu sinni í Fossvoginum en þar var alltaf gist í bæjarferðum, þar var líka oft glatt á hjalla því þar var eins og umferðamiðstöð þar sem börn, barnabörn og barnabörn kíktu í heimsókn og hittust oft þar. Svo var Helga amma á Gilsbakka sem sá ekki sólina fyrir honum. Strákarnir voru alltaf með annan fótinn á Gilsbakka hjá ömmu og afa enda stutt að fara og alltaf var til Helgu appelsín en það var appelsín blandað í vatni og öllum krökkum þótti sérlega gott. Kiddi afi á Gilsbakka passaði strákanna stundum, þá fengu þeir að gera það sem þeir vildu því hann bannaði þeim ekki neitt því það mátti ekki skemma athafnaþrá strákanna. Sigfús pabbi minn og afi hans lifir enn og verður 100 ára í sumar.

Elsku Kiddi minn þessi harmafregn barst til mín á Tenerife að þú værir mjög veikur og síðan látinn um nóttina 21. apríl. Það var erfið ferðin heim. Ég á eftir að sakna þín mikið og sakna þess að sjá ykkur Rocky koma gangandi í kaffi og stríðnis uppátækjanna þinna sem voru aldrei langt undan.

Sjálfur Guð ákvað að leifa þér að sofna og hvílir þú nú hjá englunum, hann einn veit hvað var þér fyrir bestu. Ég á þá trú að við hittumst á himnum þegar Jesú kemur og sækir okkur öll. Það verður fagnaðarfundur.

Kristjón verður jarðsunginn í Lindakirkju 4 maí og jarðsettur í Ingjaldshólskirkjugarði þann 6.maí við hlið Helgu ömmu sinnar.



Sonur minn þú sefur nú svo vært
Og svefninn vekur hugans hinstu drauma.
Ég vil að ljós þitt lýsi ætið skært
Of leið þín beinist inn á rétta strauma.
Og föðurhöndin um þig ætíð lýkur
Og ávallt þína mjúku vanga strýkur.

(Grétar Kristjónsson)







Ástar og saknaðar kveðjur

mamma og pabbi.