Ólafur Skagfjörð Ólafsson

Ólafur fæddist á Akureyri 1. nóvember 1928, hann lést á sjúkrahúsinu á Akureyri fimmtudaginn 11. október 2018. Foreldrar hans voru Ólafur Tómasson fæddur að Bústöðum í Austurdal þann 12.06 1901, dáinn 06.09 1952 og Stefanía Guðrún Ingveldur Jóhannesdóttir fædd að Jarðbrúargerði í Svarfaðardal þann 17.12 1905, dáinn 15.03 1985.

Systkini Ólafs eru tvíburasystir hans Þórey Skagfjörð, tvíburasysturnar Kristín Bára og Oddný Alda fæddar 28.06 1936 og Guðrún Hrönn fædd 17.01 1945, uppeldissystir Sólborg Bjarnadóttir fædd 28.11 1923, dáinn 27.04 2014.

Ólafur kvæntist Arnbjörgu Steinunni Gunnarsdóttur 02.11 1958 í Möðruvallakirkju, Hörgárdal. Arnbjörg fæddist að Fremri-Kotum í Skagafirði þann 03.10 1939, dáinn 28.10 1997. Foreldrar hennar voru Gunnar Valdimarsson fæddur að Efri-Rauðalæk þann 21.02 1907, dáinn 30.07 1975 og Sigurlaug Stefánsdóttir fædd að Geirmundarstöðum þann 24.11 1919, dáinn 15.10 1982.

Ólafur og Arnbjörg bjuggu allan sinn búskap í Garðshorni og eignuðust þau sex börn, (1) Ólafur Rafn, maki Guðrún Þorláksdóttir búsett í Danmörku, börn þeirra Adda Björk, Andri Fannar og Guðmundur Hjörtur, (2), Áskell Örn, búsettur í Garðshorni, börn hans Alda Friðný, Aníta Ósk, Örvar Freyr og Arnbjörg Hlín, (3) Sigurlaug, maki Níels Þorvaldsson búsett á Akureyri, börn hennar Elvar Örn og Ari Már, (4) Ingveldur Guðrún, maki Magnús Magnússon búsett á Akureyri, börn þeirra Ólafur Þór og Lilja, barn Magnúsar af fyrra sambandi Freydís Dögg, (5) Gunnar, maki Halldóra E. Jóhannsdóttir búsett í Garðshorni 2, börn þeirra Karólína Eir og Hákon Orri, barn Gunnars af fyrra sambandi Jenný Lind, (6) Tómas, maki Matthildur Stefánsdóttir búsett í Eyjafjarðarsveit, börn þeirra Ólafur Haukur, Lena, Víðir Steinar og Helena Arnbjörg. Ólafur og Arnbjörg áttu einnig átján barnabarnabörn. Ólafur ólst upp á Bústöðum í Austurdal í Skagafirði, vorið 1944 fluttist hann með foreldrum sínum í Garðshorn í Kræklingahlíð. Fyrst eftir flutningana sinnti hann bústörfum í Garðshorni ásamt foreldrum sínum en 17 ára gamall fór hann í byggingarvinnu. Ólafur vann einnig fjögur ár í síldarverksmiðjunni á Dagverðareyri og rúmlega tvítugur starfaði hann á skurðgröfu víða um sveitina. Árið 1957 tók hann við búinu í Garðshorni og var hann bóndi allar götur síðan.

Útför Ólafs verður gerð frá Akureyrarkirkju föstudaginn 26. október kl. 13:30.

Í dag kveð ég elsku afa Óla. Það var alltaf gleði og glens í kringum þig afi, ég man hvað mér fannst það frábært þegar ég uppgötvaði hnyttni þína og svarta húmorinn, mér var sagt í foreldrasamtali í grunnskóla að ég væri með svartan húmor og vissi ég um leið hvaðan ég hefði hann.
Þú varst einstakur maður og uppátækin þín stórkostleg. Eitt sinn, ekki fyrir svo mörgum árum, kom ég í Garðshorn, þú varst ekki inni en ég vissi að þú værir heima.
Ég fór því út að leita að þér og ég fann þig, sitjandi í holu, með göngugrindina við hliðina á þér, þú varst að reyna að grafa upp einhvern gamlan girðingarstaur með Mackintosh-bauk. Það eru forréttindi að fá að alast upp með annan fótinn í sveit og kynnast því lífi sem þar er og er ég þakklátur fyrir að Katla, dóttir mín, hafi fengið sinn skerf af því líka. Katla hafði einstaklega gaman af því að koma í Garðshorn og kíkja á kindurnar hjá ykkur.
Það verður skrýtið að eiga ekki eftir að sjá þig í horninu þínu í Garðshorni og taka við þig spjall yfir kaffibolla.
Elsku afi, minning þín lifir í huga og hjarta okkar sem eftir lifum og mun ylja okkur um komandi framtíð, takk fyrir allt, elsku afi Óli.

Ólafur Haukur Tómasson.

Elsku besti afi Óli, lífið verður ekki eins án þín. Ákveðnar hefðir verða ekki eins án þín, til dæmis fjölskylduboðin á jóladag í Garðshorni, þú varst mikill fjölskyldumaður og hafðir unun af því að fá fólkið þitt saman. Ég mun alltaf muna hvað það var skemmtilegt að koma í sveitina til þín og hjálpa þér að sjá um dýrin þótt ég skildi nú aldrei hvað þú varst að gera með þessar hænur því ég var skíthræddur við þær, sama hversu oft þú sagðir mér að þær væru nú ekkert hættulegar.
Hjá þér upplifði ég ýmislegt, til dæmis fékk ég fyrsta kaffisopann minn hjá þér, þá enn á barnsaldri, kaffi og nóg af molasykri. Ég er hins vegar ekki enn þann dag í dag búinn að læra að rugga kaffibollanum á borðinu án þess að það sullist eitthvað úr bollanum, ég man hvað mér þótti það flott. Ég hef oft reynt að drekka kaffi eins og afi Óli en ekki náð því, það sullast alltaf upp úr hjá mér.
Þú varst glettinn og glaðlegur maður og um leið mikill manna- og dýravinur, þú varst vinmargur og var mikið um gestagang hjá þér. Fólk sem hitti þig einu sinni varð að vinum og kunningjum um alla tíð og það fann það.
Þú ert ein af mínum fyrirmyndum og óska ég þess að ég muni líkjast þér í framtíðinni. Þú verður alltaf í hjarta mínu, elsku besti afi, og er ég þakklátur fyrir þær stundir sem við áttum saman.

Víðir Steinar Tómasson

Elsku afi minn.
Sum skref eru þyngri að stíga en önnur. Ég held að ég hafi aldrei stigið eins þung skref og þegar það rann upp fyrir mér að ég væri líklega að fara í heimsókn til þín í hinsta sinn. Þú hefur nefnilega spilað svo stórt hlutverk í lífi mínu að það er nánast ómögulegt að hugsa til þess að þú sért búinn að kveðja, að maður gangi ekki lengur að því vísu að finna karlinn í eldhúshorninu sínu í sveitinni að segja fréttir og sögur.
Margar af mínum bestu æskuminningum eru einmitt úr sveitinni. Garðshorn hefur ætíð verið miðpunktur í tilveru minni, nokkurs konar nafli alheimsins, því alltaf lá leiðin aftur í sveitina til þín. Og alltaf voru móttökurnar hlýjar og góðar, enda varstu með eindæmum skemmtilegur karl sem bauðst öllum þeim sem renndu upp á hlað að kíkja í kaffi og spjall. Þegar ég var yngri var það orðið að hálfgerðu áhugamáli hjá mér að setjast við eldhúsborðið og fylgjast með þegar vinir þínir og sveitungar kíktu í kaffi, sem var jú æði oft. Þetta var upplifun sem gat toppaði góða bíóferð, þó að ég hafi ekkert endilega alltaf haft fullan skilning á öllu því sem fram fór. En mér þótti alltaf virkilega gaman að fylgjast með þér segja fréttir og sögur með þinni einstöku frásagnarsnilld, sögunum fylgdu gjarnan þessir sérstöku axlarkippir þegar þú hlóst, góðlegur stríðnisglampi í augunum og ákveðið glott. Oftar en ekki virtist þú líka vera skyldur einhverjum í sögunum og gast rakið skyldleikann við viðkomandi langt aftur í ættir. Svo flugu jafnvel nokkrar vísur með en mér þótti alltaf stórmerkilegt hvernig þú gast munað allar þessar vísur. Þessir hæfileikar virðast hafa erfst misvel og rötuðu sko aldeilis ekki til mín, ég þarf virkilega að leggja mig fram við að læra vísur og oftast gleymast þær fljótt. Já, nema ein! En þú sást til þess að við frændsystkinin lærðum hana fljótlega eftir að við byrjuðum að tala og það er að sjálfsögðu vísan um Rauðu kusu.
Margar góðar minningar úr sveitinni tengjast líka ömmu, stundirnar sem ég átti með henni við að draga upp myndir úr blöðunum sem hún málaði eftir og grjónagrauturinn góði sem hún eldaði. Ekki má gleyma hinni heilögu Leiðarljós-stund, en hún náði að koma mér upp á að horfa á þetta eðalsjónvarpsefni á ungaaldri. Þær voru líka ansi margar ævintýraferðirnar með þér eða frændsystkinum mínum upp á tún. Þú varst alltaf duglegur að leyfa mér að dröslast með þér í allskonar verkefni, sama hvort það voru fjósverkin, girðingarvinnan eða að afhausa nokkrar hænur. Mér er líka mjög minnistætt þegar ég fékk að fara með þér á landbúnaðarsýningu á Hrafnagili. Þar sýndir þú gamlar aðferðir við heyskap; slóst með orf og ljá, bast í bagga og festir þá á klyfbera á hrossi. Ég man hvað ég var ótrúlega stolt á þessari stundu að geta sagt að þessi klári og duglegi karl væri afi minn!
Minningarnar af þér á seinni árum eru alls ekki síðri, því þó að líkamlegri heilsu þinni hafi hrakað þá var hugur þinn alltaf eins og hjá unglambi. Þú hélst í húmorinn fram á lokadag og fannst ekki leiðinlegt að geta strítt örlítið, seinustu árin tókst þér að minnsta kosti oft að plata mig. Til dæmis þegar mér tókst að týna Freyju, inn í lokuðu húsi. Tíkin gufaði bara upp og þú þóttist ekkert vita hvað hefði orðið af henni. Ég var í örvæntingu minni komin á sokkunum út á hlað að kalla á kvikindið, handviss um að hún væri farin að opna hurðir og hefði stungið af, þegar ég heyrði þig skella upp úr inn í stofu. Þegar betur var að gáð, lá tíkin bakvið stólinn þinn í góðu yfirlæti og fékk reglulega klapp á kollinn. En ég náði nú líka nokkrum sinnum að hrekkja þig þegar ég var yngri, og ég man að þú varst misjafnlega ánægður með það og þá sérstaklega einhvern tímann þegar þurfti að fækka hænunum. Ég var skipaður sérlegur aðstoðarmaður sem hafði það hlutverk að halda þeim kyrrum á meðan þú hjóst og það sem var enn mikilvægara; í nokkra stund á eftir. En forvitnin um hversu langt þær kæmust hauslausar varð oft ansi mikil og þær voru því nokkrar sem ég missti takið á, alveg óvart!
Mikið er ég líka glöð að við létum verða af því að fara í bíltúr í Austurdalinn í fyrra. Það verður alltaf ógleymanleg ferð á æskuslóðir þínar og það hefði verið leitun að betri leiðsögumanni um þessar slóðir. Þú byrjaðir að þylja upp öll bæjarnöfn þegar við komum ofan í Skagafjörðinn, taldir upp fyrrverandi eða núverandi ábúendur, skemmtileg kennileiti og sagðir sögur um Skottu og hina ýmsu drauga. Það var ótrúleg tilviljun að allir þeir sem urðu á vegi okkar þennan dag, reyndust ýmist vera gamlir vinir þínir eða ættingjar, þeir urðu því allmargir fagnaðarfundirnir þennan dag og mikið sem var spjallað. Þú varst alveg hæst ánægður með daginn og þá sérstaklega þá skemmtilegu tilviljun að hafa óvænt hitt á kvöldmessu í Goðdalakirkju, en þar stóðu kerlingarnar í röðum til að fá knúsa þig og karlarnir til að taka í höndina á þér.
Elsku afi minn, þó að kveðjustundin sé sár þá veit ég að þú varst undir hana búinn og ég þykist einnig vita fyrir víst að móttökurnar hinum megin eru vafalaust ekki af verri endanum, enda mikill meistari mættur.
Þú munt alltaf vera mér ákveðin fyrirmynd, góðhjartaður dugnaðarforkur með húmorinn í lagi, sem verður svo sannarlega sárt saknað.
Þinn Hanafótur

Aníta Ósk Áskelsdóttir.

Elsku afi.


Það er stórt skarð sem þú skilur eftir nú þegar þú hefur kvatt okkur. Þú varst svo stór partur af tilverunni, svona fastur punktur í lífinu sem maður gat alltaf gengið að vísum og það kunni ég svo mikið að meta. Það virðist ómögulegt að ætla að koma í nokkur orð hvers virði þú varst mér, því ég gæti hreinlega skrifað um það heila bók.
Þú varst einstakur og ég get fullyrt að það var enginn eins og þú, hvorki fyrr né síðar. Þú varst blíður og góður, harðduglegur og húmoristi af guðs náð. Þú hafðir einstaka nærveru og það var gaman að vera í kring um þig. Ég hef alltaf litið mikið upp til þín og verið stolt af því að kalla þig afa minn. Þegar ég var lítil og var spurð af því hverra manna ég væri þá svaraði ég alltaf ,,Óli í Garðshorni er afi minn því ekkert þótti mér eðlilegra en að allir vissu hver þú værir. Eins ef ég var spurð hverjir foreldrar mínir væru, þá svaraði ég snögglega ,,Áskell og Hrafnhildur EN þú þekkir örugglega afa minn, hann Óla. Þeir sem voru með mér í fyrstu bekkjum grunnskóla fengu líka reglulega sögur af afa. Það var svokölluð samverustund einu sinni í viku og þá sátum við í hring og fengum að segja frá því sem okkur lá á hjarta. Afi var oft og iðulega það viðfangsefni sem ég kaus að fjalla um. Enda þótti ofurbóndinn að norðan afar áhugaverður í augum borgarbarnanna. Ein svona stund er mér sérstaklega minnisstæð. Þá var kennarinn að ræða um húsdýr og spyr bekkinn hvort að við hefðum séð kýr. Ég var ekki lengi að stela orðinu af henni og hóf langa ræðu um öll húsdýrin sem hann afi minn ætti í sveitinni. Í mínum huga var þetta auðvitað stærsta og besta sveitin og var þetta því mikil montræða. Ég taldi upp allan þann fjölda af dýrategundum sem höfðu búsetu í Garðshorni og endaði svo söguna á því að segja bekknum að afi hefði sko meira að segja einu sinni átt svín. Það fannst mér einhverra hluta vegna alveg sérstaklega merkilegt. Svín voru í mínum huga frekar sjaldgæf dýrategund, eins undarlega og það kann að hljóma. Kennarinn greip þetta á lofti og spurði hvort ég vissi þá ekki hvað karlkyns svín væru kölluð. Já ég hélt það nú, sveitasérfræðingurinn sem ég var. Ég svaraði hátt og snjallt, beikon! Kennarinn leiðrétti í flýti þann misskilning og ég roðnaði niður í tær og hugsaði að þarna hefði nú karlinn platað mig. Jú það var nefnilega þannig afi minn, að þú hafðir eitt sinn þegar við vorum að ræða um dýrin, sagt mér að karlkyns svín kölluðust beikon. Þetta tók ég eðlilega gott og gilt en ég sé alveg fyrir mér stríðnisglampann í augunum og tístið sem hefur heyrst í þér þegar þú sannfærðir mig um þetta.
Það var alltaf svo gott að koma í sveitina og margar af mínum uppáhalds æskuminningum áttu sér einmitt stað þar. Þú varst duglegur að leyfa okkur krökkunum að brasa með þér og virtist hafa endalausa þolinmæði í að útskýra bústörfin og kenna okkur á hitt og þetta. Skemmtilegast af öllu fannst mér þegar ég fékk að vera með í heyskapnum og sitja aftan á heyvagninum að raða böggum. Þú varst líka duglegur að leyfa okkur að koma með þér í traktorinn og það var alveg toppurinn, að fá að rúnta með þér um túnin.
Það var alltaf gott að vera í kringum þig og það skipti í raun engu hvað við vorum að gera, það var alltaf gaman. Meira að segja að fara með þér í bæinn að sækja fóðurbæti gat verið hörku fjör.

Þú hafðir einstaklega gaman af vísum og kunnir þær margar. Öll þekktum við barnabörnin vísuna um Rauðu kusu og er hún sennilega fyrsta kvæðið sem ég lærði. Ætli ég hafi ekki verið 6 ára þegar ég var einmitt stödd í einum af þessum samverustundum í skólanum þegar ég ákvað fara með kvæðið um Rauðu kusu. Úr því spruttu líflegar umræður um vindgang með tilheyrandi hlátrarsköllum og fíflagangi hjá hópnum. Skemmst frá því að segja að kennarinn var hæst ánægður með þetta framlag mitt til skólastarfsins.
Ég sé það svo vel þegar ég lít til baka hversu stór partur þú hefur alltaf verið af minni tilveru og ég á þér margt að þakka afi minn. Umfram allt er ég þakklát fyrir þá fyrirmynd sem þú varst. Þú kenndir okkur dugnað, góðmennsku, ósérhlífni, hjálpsemi, gleði og gæsku. Þú varst öllum góður og tókst öllum vel, ekki síst börnum, en þú varst einstakur við börn og komst fram við þau sem jafningja. Þú talaðir aldrei illa um neinn og ef þú hafðir ekkert gott að segja þá bara sagðirðu ekki neitt. Það er mannkostur sem vert er að taka sér til fyrirmyndar. Ég held ég hafi bara einu sinni heyrt þig blóta einhverjum og þá vorum við að ræða stjórnmál í kjölfar hrunsins og þú varst kannski enginn sérstakur aðdáandi ákveðinna stjórnmálamanna eða flokka.
Þú varst sagnamaður mikill og fannst bæði gaman að segja sögur og heyra þær. Það var líka sérstaklega gaman að heyra þig segja góða sögu því þú áttir það til að krydda þær svolítið. Ef sagan var ekki nógu skemmtileg þá bara bættirðu aðeins í eða hagræddir henni eftir þörfum. Góð saga má auðvitað aldrei líða fyrir sannleikann.
Þú kveiktir áhuga minn á ljóðum og kveðskap og ég naut þess að sitja með þér við eldhúsborðið og hlusta á þig fara með vísur. Þegar ég var 10 ára fékk ég í afmælisgjöf litla dagbók og ákvað að þetta yrði mín fyrsta ljóðabók. Ég hófst strax handa að yrkja og fannst ég vera að rita hvert meistaraverkið á fætur öðru. Ég var kannski ekki í neitt sérstaklega góðri tengingu við raunveruleikann á þeim tímapunkti. Ljóðin voru mörg og í hvert skipti sem ég lauk við ljóð eða kvæði las ég þau fyrir þig. Þú hlustaðir alltaf af áhuga og sagðir svo yfirleitt þetta er fínt. En þannig varstu einmitt afi minn, þú gafst þér alltaf tíma til að hlusta og varst alltaf til staðar. Þú áttir það til að gefa okkur krökkunum viðurnefni og pödduhöfðingi var það sem þú kallaðir mig. Ég get nú ekki sagt að ég hafi verið eitthvað sérstaklega hrifin af þessu nafni á sínum tíma en mikið sakna ég þess að heyra það í dag.

Höfðinginn í Garðshorni kvatt hefur nú,
sárlega nístir staðreyndin sú.
En lifa við megum í minningu hans,
og læra af honum lífsins dans.
//
Enginn veit sína ævina alla,
og vonlaust að spá hvenær himnarnir kalla.
En kallið víst kemur hjá sérhverjum manni,
og sorg verður eftir má segja með sanni.
//
Þá horft er til baka með tárum og trega,
en þakklæti ætti þó þyngst að vega,
fyrir þá gleði og hlýju sem mest fór fyrir,
í Garðshorni áður en Óli fór yfir.
//
Að handan nú situr og segir þar sögur,
við hlið hans er Lilla brosandi og fögur.
Á ný þeirra leið hefur loks legið saman,
og trúlega er hjá þeim gleði og gaman.
//
Ávallt svo góður, glettinn og hress,
með hjarta úr gulli og lítt fyrir stress.
Kvæði og ljóð af vörum hans runnu,
hendurnar ætíð af dugnaði unnu.
//
Börnunum bauð hann sinn útbreidda faðm,
og fegin þau héldu fast í hans arm.
Hans viska og minning munu áfram lifa,
Þó lífsklukkan sé nú hætt að tifa.
//
Skagafjörður ól af sér einstakan dreng,
með tæran og fagran hjartastreng,
sem syrgjum við nú með söknuð í hjarta,
og þráum að sjá aftur brosið hans bjarta.
(Alda Friðný)

Það er erfitt að kveðja einhvern sem hefur verið svo stór partur af tilverunni í svo langan tíma. Það er nánast óhugsandi að ímynda sér hvernig það verður að hafa þig ekki í Garðshorni og raun er eins og vanti einhvern mikilvægan hlut af manni sjálfum nú þegar þú ert farinn.
Ég er afskaplega þakklát fyrir að hafa átt þig að og svo stolt af því að kalla þig afa.
Þú varst mér ólýsanlega dýrmætur.
Þín

Alda.