Innleiðing 5G tenginga Þétta þarf sendinetið fyrir uppbyggingu 5G farneta og er talið ákjósanlegt að setja senda á ljósastaura með stuttu millibili.
Innleiðing 5G tenginga Þétta þarf sendinetið fyrir uppbyggingu 5G farneta og er talið ákjósanlegt að setja senda á ljósastaura með stuttu millibili. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Tækninýjungar sem bera með sér risavaxna byltingu í samfélögum, 5G farnetið, internet hlutanna og gervigreind eru meðal viðfangsefna næstu ára í tillögu að nýrri stefnu í fjarskiptum fyrir árin 2019-2033, sem samgönguráðherra hefur lagt fyrir Alþingi. Sett er það markmið að Íslendingar verði meðal forystuþjóða í hagnýtingu fimmtu kynslóðar farneta, 5G.

Í fimm ára fjarskiptaáætlun, sem lögð var fram samhliða, eru tiltekin verkefni næstu ára um uppbyggingarþörf fastaneta og senda í tengslum við 5G innviði. Endurskoða á kröfur um útbreiðslu farneta, m.a. í ljósi nettengdra tækja og þjónustu sem verði aðgengileg á 5G netum.

Segja má að innleiðing 5G tenginga fyrir fjarskipti sé þegar hafin. Fjarskiptafyrirtækið Ericsson heldur því fram í nýrri skýrslu að eftir sex ár muni 40% jarðarbúa standa þjónusta á 5G netum til boða. Fjögur stærstu fjarskiptafyrirtæki Bandaríkjanna hafa lýst yfir að þau muni bjóða 5G þjónustu undir lok þessa árs og á fyrri helmingi næsta árs. Uppboð fjarskiptatíðna fyrir 5G farnet eru hafin í Evrópu og í skýrslunni segir að boðið verði upp á fyrstu viðskiptaáskriftir á 5G netum 2019.

Farin að smíða búnaðinn

,,Tæknin er að verða stöðluð og fyrirtækin eru farin að smíða búnaðinn inn á 5G,“ segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS). Þetta er hluti af þróun til langs tíma að sögn hans, með fyrri kynslóðum farneta, s.s. 3G og 4G farsímanetunum, en farið er að kalla 4G netið 4,5G net vegna þess að nú þegar er búið að innleiða í þau ýmsa tæknilega getu sem 5G netin eiga að uppfylla.

„Þannig að fjarskiptafélögin eru sannarlega byrjuð að skoða þessa tækni og hvernig hægt er að innleiða hana, ekki síst hvaða viðskiptamódel þau geta notað til að hafa upp í þann kostnað sem sannarlega mun leiða af uppbyggingu þessara neta.“

Hafnkell bendir á að með 4G netinu sem notað er í dag sé þegar búið að leysa tæknileg vandamál varðandi gagnaflutninga á milli internettengdra tækja sem fólk notar en með innleiðingu 5G tækninnar sé þróuninni haldið áfram fyrir allskonar nettengd tæki og tól. ,,Það er sagt að 5G sé internet hlutanna og þar erum við sem samfélag að fara inn á nýjar brautir.“

Notkunarsvið 5G tækninnar eru nokkur og útfærslurnar ólíkar, m.a. áframhaldandi þróun á sífellt meiri niðurhalshraða tenginga milli tækja í farnetinu og tengingu allskonar internettengdra tækja sem þurfa ekki endilega á mikilli bandbreidd að halda. Að sögn Hrafnkels þarf að setja upp þéttara sendanet fyrir mun hærri tíðnisvið en notuð eru í dag eða upp í allt að 26 gígarið. ,,Vegalengdin sem sendirinn dregur er mældur í tugum eða örfáum hundruðum metra. Það þarf að þétta sendinetið og kannski verða sendarnir settir á ljósastaura,“ segir hann. Sendarnir eru aflminni og skammdrægari en núverandi sendar en geta boðið upp á alveg gríðarlegan hraða í gagnaflutningum.

Hrafnkell á von á að þegar innleiðing tækninnar fer í gang fyrir alvöru geti hún orðið mjög hröð. ,,Við hjá Póst- og fjarskiptastofnun erum sannarlega byrjuð að huga að tíðnimálunum og það mun ekki standa á því að stjórnvöld muni geta veitt réttar tíðnir fyrir þessar þjónustur. Það þarf að skoða hvernig þjónustur verða útfærðar í þessum netum og allskonar þætti í kringum það, s.s. varðandi sjálfkeyrandi bíla.“

Að sögn hans eru íslensk fjarskiptafyrirtæki þegar farin að innleiða svonefnda Narrowband-IoT tækni, sem nefnd hefur verið léttbandstækni, fyrir farsímakerfin, sem tengja saman mæla og vöktunarbúnað fyrir internet hlutanna inn í ákveðið kerfi. ,,Það má því kannski segja að að mörgu leyti séum við bara byrjuð á 5G. Þróun 5G tækninnar sé því í raun og veru þegar farin að síast inn í fjarskiptakerfið.“