Vopnasalan til arabaríkja: Kaupa Kuwaitar líka breskan vopnabúnað? Blöð í Ísrael segja, að Ísraelar geti sjálfum sér um kennt Kuwait, Tel Aviv. Reuter.

Vopnasalan til arabaríkja: Kaupa Kuwaitar líka breskan vopnabúnað? Blöð í Ísrael segja, að Ísraelar geti sjálfum sér um kennt Kuwait, Tel Aviv. Reuter.

EKKI er talið ólíklegt, að Kuwait fari að dæmi Saudi-Arabíu og kaupi Tornado-orrustuþotur af Bretum setji Bandaríkjaþing einhverjar takmarkanir við kaupum þeirra á bandarískum þotum. Síðastliðinn laugardag gengu þeir frá samningi um vopnakaup frá Sovétríkjunum. Ísraelskir embættismenn hafa ráðist harkalega á Breta fyrir mikla vopnasölu þeirra til Saudi-Araba en sum blöð í Ísrael segja, að Ísraelar geti sjálfum sér um kennt.

Saad al-Abdullah fursti og forsætisráðherra Kuwaits hóf í gær viðræður í Washington um kaup á F-A/18-orrustuþotum og flugskeytum en sl. fimmtudag samþykkti bandaríska öldungadeildin að Maverick-flugskeytin yrðu undanskilin í hugsanlegum samningum við Kuwait. Á sama tíma eiga Kuwaitar í viðræðum við Breta og var George Younger varnarmálaráðherra væntanlegur til Kuwaits í gær til að ræða um hugsanleg kaup Kuwaita á Tornado-flugvélum og öðrum vopnabúnaði. Í síðustu viku gerðu Bretar og Saudi-Arabar með sér vopnakaupasamning upp á tíu milljarða sterlingspunda eða meira.

Á laugardag var gengið frá samningi milli Kuwaita og Sovétmanna um vopnakaup en ekki er talið, að um stóran samning sé að ræða. Er fremur litið svo á, að með samningnum vilji Kuwaitar sýna, að þeir geti fengið þau vopn, sem þá vantar, annars staðar en í Bandaríkjunum .

Yossi Ben-Aharon, háttsettur embættismaður í ísraelska forsætisráðuneytinu, sagði í gær, að vopnasala Breta til Saudi-Araba væri ógnun við Ísrael og græfi undan tilraunum til að koma á friði í Miðausturlöndum. Sum ísraelsku blaðanna, t.d. Haaretz og Jerusalem Post, segja hins vegar, að Ísraelum sé sjálfum um að kenna hvernig komið er. Þeim hefði gengið svovel við að koma í veg fyrir og takmarka vopnasölu Bandaríkjamanna til Saudi-Araba, að nú neyddust þeir til að snúa sér annað.