Staða Fríkirkjuprests auglýst: Sr. Gunnar hyggst sækja um starfið ef annað þrýtur SAFNAÐARSTJÓRN Fríkirkjunnar í Reykjavík hefur auglýst stöðu prests við kirkjuna lausa til umsóknar og er umsóknarfrestur til 15. september. Sr.

Staða Fríkirkjuprests auglýst: Sr. Gunnar hyggst sækja um starfið ef annað þrýtur

SAFNAÐARSTJÓRN Fríkirkjunnar í Reykjavík hefur auglýst stöðu prests við kirkjuna lausa til umsóknar og er umsóknarfrestur til 15. september. Sr. Gunnar Björnsson, sem sagt var upp stöðunni um mánaðamót, hyggst sækja um hana á ný fái stuðningsmenn hans uppsögnina ekki ógilta.

"Ég tel mig réttkjörinn prest Fríkirkjunnar, en ef ég neyðist tilað sækja um starfið á ný mun ég gera það," sagði sr. Gunnar í samtali við blaðið. Hann sagði að samkvæmt lögum Fríkirkjunnar væri það síðan safnaðarins að velja eða hafna, þar sem söfnuðurinn kýs sér prest.

Síðastliðinn fimmtudag héldu stuðningsmenn sr. Gunnars fund með settum biskupi, sr. Sigurði Guðmundssyni, og formanni safnaðarstjórnar Fríkirkjunnar. Að sögn sr. Gunnars voru á þessum fundi gerð drög að samkomulagi, sem meðal annars fól það í sér að uppsögnin gengi til baka, presturinn hefði ekki afskipti af störfum safnaðarstjórnar eða kjöri hennar, og að kæmu upp ágreiningsmál milli prests og stjórnar, skyldi vísa þeim til þriggja óvilhallra manna. Samkvæmt samkomulagsdrögunum átti einn þeirra að vera skipaður af presti, annar af safnaðarstjórn og þriðji af borgardómara. "Formaður inn sagðist myndu bera þetta samkomulag undir stjórnina og svara okkur svo nú eftir helgina, en á laugardag var staðan hins vegar auglýst," sagði sr. Gunnar.

Að sögn sr. Gunnars hafa stuðningsmenn hans í safnaðarstjórn, sem sögðu sig munnlega úr henni er uppsögnin var ákveðin, ítrekað tilkynnt stjórninni að þeir taki úrsögnina til baka. Þeir hafi hins vegar ekki verið boðaðir á fundi safnaðarstjórnarinnar.

Stuðningsmenn sr. Gunnars safna nú undirskriftum undir áskorun til safnaðarstjórnarinnar um að draga uppsögn prestsins til baka. Að sögn Guðnýjar Helgadóttur, eins stuðningsmanna sr. Gunnars, hafa þegar safnast á annað þúsund undirskriftir. "Söfnunin gengur hægt, þar sem við erum að þessu í frítímanum, en við erum ekki nema rétt hálfnuð," sagði Guðný. Í Fríkirkjusöfnuðinum eru 4.0005.000 manns.

Í gær og gærkvöldi reyndi Morgunblaðið ítrekað að ná í Þorstein Eggertsson, formann safnaðarstjórnar Fríkirkjunnar, en árangurslaust.