Flest bendir til að nú flæði hratt undan Nicolas Maduro

Ekki verður annað séð en að yfirlýsingar fjölmargra ríkja um stuðning þeirra við sjálfskipaðan leiðtoga Venesúela hafi verið bærilega samhæfðar. Donald Trump gaf merkið og svo Trudeau og því næst Theresa May. ESB krafðist þess að Maduro efndi til kosninga innan fárra daga. Litið er á hinn 35 ára gamla Juan Guaido sem leiðtoga stjórnarandstöðunnar og jafnframt að hann njóti stuðnings meirihluta þingsins, sem að vísu hefur verið sett af. Það gerði Hæstiréttur Venesuela eftir að Nicolas Maduro hafði raðað þar inn „dómurum“ sem hann færði að auki það vald sem þing landsins hefur að jafnaði.

Maduro, sem er fyrrverandi strætisvagnabílstjóri og ekki verri fyrir það, virðist kominn allnærri sinni endastöð. Hann á ekkert annað skjól eftir en byssukjafta hersins. Þess háttar skjól hefur oft dugað vel í ýmsum löndum Suður-Ameríku. Talið hefur verið fram að þessu að helsta trygging Maduros væri sú að herinn teldi sig ekki eiga annan kost en að hanga í jakkalöfum forsetans, því að yfirmenn hans væru orðnir svo blóðugir upp að öxlum að fyrirmælum hans, að öll önnur framtíð væri dökk eins og í dýflissum. Guaido tók því til bragðs að bjóða yfirmönnum hersins skilyrðislausa náðun fyrir að hafa hlýtt skipunum Maduro forseta. Það varð til þess að molna tók nokkuð úr varnarvegg forsetans, þótt í smáum stíl væri.

Guaido, sem nú nýtur viðurkenningar Bandaríkjanna, Kanada, Bretlands, Brasilíu og fleiri ríkja Suður-Ameríku, gæti því vænst þess að herinn sjái brátt í hendi sér að framtíðin sé hans en ekki Maduros, sem er rúinn trausti og fylgi og þó ekki inn að skinni eins og ríkissjóður landsins, sem býr að auki við milljón prósenta verðbólgu eða svo.

Maduro er þó ekki helsti skemmdarverkamaður landsins. Það var fyrirrennari hans, Hugo Cháves, sem tókst á ótrúlega skömmum tíma að breyta þessu einu ríkasta landi Suður-Ameríku í eitt það aumasta. Land sem glorsoltnir íbúarnir flýja frá til nágrannaríkja.

Stundum er sagt að með Sovétinu hafi hið hugmyndafræðilega skjól og lifandi lygi vinstrielítunnar horfið. Því var skrítið hversu lengi og hversu fast hún límdi sig á Cháves og var veik fyrir Fidel Castro og litla bróður allt til enda. Hver man ekki eftir talinu um það hversu „heilbrigðiskerfið“ á Kúbu stæði flestum slíkum framar, í landi þar sem meðallaunin voru 1.000 krónur á mánuði! En það var einmitt slíkt tal sem hafði einkennt svo eftirminnilega gamla sovétið líka. Þegar það kerfi hrundi til grunna kom í ljós að sú áróðursklisja var innistæðulaus. Til voru nokkur sjúkrahús fyrir flokkselítuna sem minntu á meðalsjúkrahús á Vesturlöndum, en hitt var allt eins og gerðist í þriðjaheimslöndum sem lakast stóðu.

Það hefur þvælst nokkuð fyrir Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, að vera enn með snert af glýju í augum yfir ímyndaðri snilld kommúnismans og geta því illa sætt sig við að raunveruleikinn í Venesúela sé sá sami og á Kúbu og var í Austur-Evrópu, Simbabve og öðrum ríkjum Afríku sem lentu í hinum illu örlögum.

Fullyrt er að Venesúela og Ísland eigi það sameiginlegt að gullforði landanna sé geymdur í Englandsbanka í London. Slíkum forða er ekki blandað saman í geymslum bankans, en stendur sér í kjallara bankans, merktur hverju landi.

Okkar forði tekur þar grátlega lítið pláss og veldur ekki úrslitum um fjárhagsstöðu landsins.

Sagt er að gullforði Venesúela þar sé hins vegar 1,3 milljarða dollara virði.

Juan Guaido óttist að reynt verði að seilast í þetta fé og hafi því ritað Englandsbanka bréf um að ansa ekki neinum óskum varðandi hann frá yfirvöldum á fallandi fæti í Caracas. Samkvæmt fréttum CNN og fleiri hefur Englandsbanki nú ákveðið að kyrrsetja gullforðann þar til ástandið verði ljósara.

Allt ber hér að sama brunni. Vaxandi líkur standa nú til þess að Nicolas Maduro forseti nálgist hratt sína endastöð og neyðist kannski til að hoppa af vagninum á næstu stoppistöð sem hann kemur að.