Gatnamót Breiðholtsbrautar og Vatnsendavegar síðdegis.
Gatnamót Breiðholtsbrautar og Vatnsendavegar síðdegis. — Ljósmynd/Vilhelm Gunnarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ármann Kr. Ólafsson: "Um leið og Arnarnesvegur verður lagður liggur því fyrir að öryggi íbúa í efri byggðum mun aukast verulega, sem og lífsgæði þeirra."

Í nýrri brunavarnaáætlun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins eru tekin af öll tvímæli um nauðsyn þess að Arnarnesvegur verði lagður. Brunavarnaáætlunin sýnir að á álagstímum eru einungis 26% íbúa Kópavogs í ásættanlegri fjarlægð frá slökkvistöð, eða í innan við tíu mínútna viðbragðstíma slökkviliðsins. Miðað við nýjustu íbúatölur tekur það því slökkvilið lengri tíma en tíu mínútur að ná til um 27.000 íbúa í Kópavogi. Ástandið er verst í Sala- og Kórahverfi, skást í elsta hluta Kópavogs. Samkvæmt upplýsingum Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu er álagstími í umferðinni alltaf að lengjast, í takt við fjölgun á höfuðborgarsvæðinu fækkar þeim stundum þar sem umferð er lítil sem engin.

Síðastliðið haust var ný samgönguáætlun kynnt. Þá kom í ljós að framkvæmd Arnarnesvegar hafði verið frestað, vegurinn sem var á áætlun fyrir tímabilið 2011-2022 var ekki lengur á dagskrá. Það eru skelfileg tíðindi fyrir íbúa í efri byggðum Kópavogs og raunar einnig íbúa í efri byggðum Reykjavíkur, Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Skoðum þetta nánar.

Í Kópavogi austan Reykjanesbrautar búa ríflega 14.000 manns. Þetta er fjölmennt svæði, íbúar í efri hluta þess, Salahverfi, Kórahverfi og Vatnsenda, þekkja vel umferðarteppu sem myndast þarna á álagstímum. Vatnsendahvarfið er eina leiðin í gegnum Vatnsendann, brattur vegur sem liggur í gegnum íbúðahverfi og óásættanlegur sem eina leiðin um svæðið.

Um leið og Arnarnesvegur verður lagður liggur því fyrir að öryggi íbúa í efri byggðum mun aukast verulega, sem og lífsgæði þeirra. Bæði léttir á umferðinni um Vatnsendaveg, íbúum til hagsbóta, og minni tíma er varið í umferð. Það gefur augaleið að þá mun einnig umferð léttast á Reykjanesbraut þegar ferðaleiðum fjölgar. Íbúar Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Reykjavíkur munu allir njóta góðs af því.

Fyrir utan þennan augljósa ávinning fyrir daglegar ferðir íbúa þá sýnir brunavarnaáætlunin svart á hvítu að vegurinn er einnig lífsnauðsynlegt öryggistæki fyrir stóran hluta íbúa Kópavogs, svo ég leyfi mér að einblína á íbúa bæjarins.

Ég skora því á samgönguráðherra og þingmenn að endurskoða samgönguáætlun. Ég vænti stuðnings og baráttu frá þingmönnum kjördæmisins fyrir þessu hagsmunamáli. Samgöngumál höfuðborgarsvæðisins eru gríðarlega mikilvægur málaflokkur og augljóst öllum sem kynna sér málið að Arnarnesvegur á að vera forgangsmál í samgöngum höfuðborgarsvæðisins og landsins alls.

Höfundur er bæjarstjóri í Kópavogi.