Umferð Tekjur af olíugjaldi voru 11,9 milljarðar á seinasta ári.
Umferð Tekjur af olíugjaldi voru 11,9 milljarðar á seinasta ári. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Tekjur ríkisins af skattlagningu ökutækja og eldsneytis á nýliðnu ári námu samtals rúmlega 45,1 milljarði króna. Þar af vega tekjur af olíugjaldinu þyngst en þær voru 11,9 milljarðar króna.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Tekjur ríkisins af skattlagningu ökutækja og eldsneytis á nýliðnu ári námu samtals rúmlega 45,1 milljarði króna. Þar af vega tekjur af olíugjaldinu þyngst en þær voru 11,9 milljarðar króna.

Á sama tíma var sá hluti framlaga til Vegagerðarinnar sem rann beint til vegamála á síðasta ári rúmlega 28,6 milljarðar kr. 11,7 milljarðar fóru þar af í viðhald á vegum og 11,7 milljarðar í nýframkvæmdir við vegi.

Þessar upplýsingar koma fram á nýju minnisblaði samgönguráðuneytisins til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Nefndin óskaði eftir að ráðuneytið tæki saman upplýsingar um heildartekjur og gjöld vegna bifreiða en fram kemur í svari ráðuneytisins að spurningarnar séu mjög umfangsmiklar, skammur tími gefinn til verksins og ekki unnt að svara þeim öllum.

Ráðuneytið tók m.a. saman nýjustu upplýsingar um skattlagningu bíla og eldsneytis eins og fyrr segir og skilaði t.a.m. vörugjald á ökutæki 8.950 milljónum kr. í ríkissjóð, bifreiðagjaldið skilaði 7.350 milljónum í tekjur í fyrra, kolefnisgjald af bensíni rúmum 1,4 milljörðum og kolefnisgjald af dísilolíu er talið hafa skilað rúmum 1,8 milljörðum.

525 milljóna skráningargjöld

Fram kemur að skv. upplýsingum Samgöngustofu er gert ráð fyrir að innheimt skráningargjöld ökutækja verði 525 milljónir á yfirstandandi ári og að tekjur af umferðaröryggisgjaldi verði 170 milljónir kr. á árinu 2019. Tekið er fram á minnisblaðinu að sundurliðaðar kostnaðartölur vegna umferðar bíla liggi ekki fyrir en bent er á úttektir sem gerðar voru fyrir nokkrum árum þar sem m.a. fram kom að talið er að heildarkostnaður vegna umferðarslysa hafi verið 10 til 40 milljarðar kr.