[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Hæsta orkuverð sem heimilum á landinu stendur til boða vegna raforkunotkunar og til húshitunar var í dreifbýli á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða á síðsta ári, eins og verið hefur á undanförnum árum.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Hæsta orkuverð sem heimilum á landinu stendur til boða vegna raforkunotkunar og til húshitunar var í dreifbýli á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða á síðsta ári, eins og verið hefur á undanförnum árum. Heildarverð heimilis þar er nú 315.179 sem er 1,5% hærri kostnaður en á árinu 2017. Heildarorkukostnaðurinn var hins vegar lægstur á Seltjarnarnesi eða 138.557 kr. í fyrra.

Hæsta verð fyrir hita og rafmagn í þéttbýli hér á landi er 107% hærra en það lægsta að því er fram kemur í nýjum samanburði Byggðastofnunar á orkukostnaði heimila sem byggður er á útreikningum Orkustofnunar á kostnaði á ársgrundvelli við raforkunotkun og húshitun, á sömu fasteigninni sem notuð er til viðmiðunar á nokkrum þéttbýlisstöðum og í dreifbýli.

Ef eingöngu er litið á raforkukostnaðinn kemur í ljós að lægsta mögulega verð sem neytendum stendur til boða að meðtöldum flutnings- og dreifingarkostnaði fæst á Akranesi, í Mosfellsbæ, á Seltjarnarnesi og í Reykjavík, um 79 þúsund krónur. Í dreifbýli hjá Orkubúi Vestfjarða er lægsta mögulega verð 53% hærra, eða 120 þúsund krónur.

Í þéttbýli er rafmagnsverð hæst á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða, 91.632 kr. Fram kemur að orkukostnaður í dreifbýli er rúmlega 30% hærri en hæsta verð í þéttbýli. Í þéttbýli er hæsta verð 17% hærra en lægsta verð og hefur munurinn minnkað um 3% frá árinu 2017.

Vaxandi munur á algengu verði og því sem er í boði

Notendurnir greiða augsýnilega ekki alltaf lægsta verðið sem þeim stendur til boða því þeir geta valið á milli raforkusala en ekki eru allir sem notfæra sér það. Bent er á í umfjöllun skýrslu Byggðastofnunar að notendum virðist ekki vera almennt ljóst að þeim er heimilt að kaupa raforku af hvaða sölufyrirtæki sem þeir kunna að kjósa en þau eru nokkur og með mismunandi verð. „Lægsta mögulega verð er það verð sem notendur geta fengið með því að velja orkusala sem býður lægsta söluverð á raforku á hverjum tíma. Munur á milli lægsta mögulega verðs og algengasta verðs hefur vaxið frá síðasta ári, var mest rúm 2% á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi en er nú mestur tæp 4% á sömu stöðum. Annars staðar er algengur munur um 2%,“ segir í skýrslu Byggðastofnunar.

Samanburðurinn leiðir enn fremur í ljós að þegar kemur að húshitunarkostnaði er munurinn öllu meiri en á raforkukostnaðinum. Lægsti húshitunarkostnaðurinn er nú á Seltjarnarnesi, 59.924 kr., og því næst koma Flúðir þar sem hann er 60.492 kr. og Mosfellsbær 79.804 kr. Munurinn á hæsta og lægsta verði á landinu er 226%.

„Fyrir ári var lægsta mögulega verð hæst á orkuveitusvæði RARIK í dreifbýli, hjá Orkubúi Vestfjarða í dreifbýli, á Hólmavík, í Grundarfirði, í Neskaupstað, á Reyðarfirði og í Vopnafjarðarhreppi kr. 191.666. Hefur sá kostnaður hækkað um tæp 2% og er nú kr. 195.134. Þá voru Bolungarvík, Ísafjörður og Patreksfjörður einnig með hæstan kostnað árið 2017, kr. 191.666, en hefur nú lækkað í kr. 189.996,“ segir í umfjöllun um húshitunarkostnaðinn.

Bent er á að með notkun varmadælna myndi húshitunarkostnaður, þar sem nú er bein rafhitun, lækka að jafnaði um 50%. Á tólf svæðum á landinu gæti sú lækkun numið um 100.000 kr. fyrir meðalheimili á ársgrundvelli.