Horft til austurs Á þessari samsettu mynd má sjá hvernig arkitektar sjá fyrir sér Bygggarða á Seltjarnarnesi.
Horft til austurs Á þessari samsettu mynd má sjá hvernig arkitektar sjá fyrir sér Bygggarða á Seltjarnarnesi. — Teikning/ASK arkitektar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Uppbygging nýs íbúðahverfis á Seltjarnarnesi gæti hafist undir lok ársins ef áform fjárfesta ganga eftir. Um er að ræða svonefnda Bygggarða vestast á Nesinu.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Uppbygging nýs íbúðahverfis á Seltjarnarnesi gæti hafist undir lok ársins ef áform fjárfesta ganga eftir. Um er að ræða svonefnda Bygggarða vestast á Nesinu.

Fasteignaþróunarfélagið Landey á stóran hluta lóðanna austast á svæðinu. Svæðið hefur í áratugi verið notað undir léttan iðnað. Borgarplast var þar með aðstöðu, ásamt því sem þar voru m.a. smiðjur og bílaverkstæði. Hafa flestar þessara bygginga verið rifnar.

Var samþykkt árið 2013

Deiliskipulag undir íbúðabyggð á svæðinu var samþykkt árið 2013.

Uppbygging samkvæmt því deiliskipulagi hófst hins vegar ekki. Nú er verkefnið aftur komið á rekspöl.

Hafa eigendur svæðisins látið vinna nýtt deiliskipulag sem verður kynnt íbúum og svo tekið til umfjöllunar hjá Seltjarnarnesbæ.

ASK arkitektar hafa unnið nýja deiliskipulagið fyrir Landey en Páll Gunnlaugsson arkitekt mun kynna breytt skipulag á íbúafundi í hátíðarsal Gróttu kl. 17.00 á fimmtudag.

Páll segir að með breytingunum fjölgi íbúðum í Bygggörðum úr 144 í 196. Byggingarmagnið aukist ekki frá fyrra skipulagi heldur séu íbúðirnar minni. Þær séu nú að meðaltali 120 fermetrar en hafi áður verið 147 fermetrar. Flest húsin verði lágreist og lítil fjölbýlishús en við Norðurströnd verði þrjú stærri fjölbýlishús með inngörðum til suðurs. Þá verði einnig minni sérbýlishús í hverfinu.

Páll segir hönnun geta hafist þegar deiliskipulagið hefur verið samþykkt, vonandi í vor eða haust. Raunhæft sé að hefja framkvæmdir fyrir áramót eða í byrjun árs 2020.

Íbúar Seltjarnarness voru tæplega 4.600 í byrjun síðasta árs en íbúafjöldinn hefur haldist stöðugur.

Að sögn Páls má reikna með tveimur íbúum í íbúð en samkvæmt því gætu um 400 manns búið í nýja hverfinu. Með því myndi íbúum fjölga um 9% í um fimm þúsund.