Helgafellskirkja á Snæfellsnesi.
Helgafellskirkja á Snæfellsnesi. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Snorri Jónsson fæddist í janúar 1683, en ekki er vitað um nánari dagsetningu eða hvar hann fæddist. Hann var sonur Jóns Magnússonar, f. 1662, d. 7.12. 1738, prests í Hjarðarholti og síðar sýslumanns í Dalasýslu.

Snorri Jónsson fæddist í janúar 1683, en ekki er vitað um nánari dagsetningu eða hvar hann fæddist.

Hann var sonur Jóns Magnússonar, f. 1662, d. 7.12. 1738, prests í Hjarðarholti og síðar sýslumanns í Dalasýslu. Foreldrar Jóns voru hjónin Magnús Jónsson prestur á Kvennabrekku, síðar sýslumaður í Dalasýslu, og Guðrún Ketilsdóttir húsfreyja og var Snorri því bróðursonur Árna Magnússonar prófessors. Snorri var launsonur Jóns og var móðir hans vinnukona, Katrín Snorradóttir, f. 1650, og var hún vinnukona hjá Jóni sýslumanni í Búðardal í manntalinu 1703. Foreldrar hennar voru hjónin Snorri Guðmundsson, bóndi á Hnappsstöðum í Laxárdal, og Guðrún Snorradóttir.

Snorri ólst upp með föður sínum en fór í Skálholtsskóla 19 ára að aldri og varð stúdent 1705. Hann var síðan í þjónustu Jóns Vídalín biskups en fór út í nám í Kaupmannahafnarháskóla 1708, tók guðfræðipróf og fékk 2. einkunn.

Snorri kom svo heim og varð konrektor á Hólum 1711 og rektor 1714. Hinn 2.7. 1717 var hann vígður prestur að Helgafelli en þurfti að afsalaði sér því vegna of bráðrar barneignar með konu sinni. Hann fékk uppreisn 1718 og fékk Helgafell aftur í september 1719, en gegndi rektorsstöðunni til 1720. Það ár fluttist hann í Helgafellssveit og gegndi prestsembættinu á Helgafelli allt til 1753. Hann var prófastur í Snæfellsnesprófastsdæmi 1720-1738.

Snorri þótti vel lærður, var latínuskáld og stundaði lækningar.

Kona Snorra var Kristín Þorláksdóttir, f. 1683, d. 1752, dóttir Þorláks Ólafssonar prests á Miklabæ í Blönduhlíð. Þau áttu fjölda barna, þar á meðal Jón Snorrason sýslumann í Hegranesþingi, Gísla Snorrason prófast í Odda og Gunnlaug Snorrason prest og skáld á Helgafelli.

Snorri lést 29. janúar 1756.