Kristrún Sigurfinnsdóttir fæddist á Bergsstöðum í Biskupstungum 3. janúar 1919. Hún lést á dvalarheimilinu Ási í Hveragerði 17. mars 2019.
Foreldrar hennar voru hjónin Sigurfinnur Sveinsson, f. 12. desember 1884, d. 31. mars 1966, og Guðrún Þorsteinsdóttir, f. 25. maí 1884, d. 3. júlí 1968.
Elstur systkina var uppeldisbróðir Sveinn Kristjánsson, f. 20. desember 1912, d. 13. janúar 2008. Þorsteinn Sigurfinnsson, f. 17. júní 1917, d. 16. desember 2006. Þórunn Sigurfinnsdóttir, f. 22. júní 1920, d. 9. október 2017. Dóróthea Sigurfinnsdóttir, f. 23. júní 1924, d. 10. febrúar 2012.
Kristrún ólst upp á Bergsstöðum. 10 ára byrjaði hún í barnaskólanum í Reykholti og var þar fjóra vetur. Rúmlega tvítug bjó hún og starfaði einn vetur hjá móðursystur sinni í Grindavík. Veturinn 1942 til ’43 fór hún í húsmæðraskólann á Staðarfelli.
22. júní 1945 giftist hún Vilmundi Indriðasyni frá Arnarholti í Biskupstungum, f. 13. apríl 1916, d. 21. ágúst 1999. Foreldrar hans voru Indriði Guðmundsson og Theodóra Ásmundsdóttir. Kristrún og Vilmundur bjuggu á Bergsstöðum fyrstu tvö árin en vorið 1947 keyptu þau Efsta-Dal 1 af foreldrum hans og bjuggu þar blönduðu búi. Synir þeirra, Sigurfinnur og Theodór, komu seinna ásamt fjölskyldum og bjuggu með þeim í félagsbúi.
Kristrún starfaði um tíma í Leikskólanum Lind á Laugarvatni. Hún var félagi í Ungmennafélagi Laugdæla og Kvenfélagi Laugdæla.
Kristrún og Vilmundur eignuðust þrjá syni.
1) Sigurfinnur, f. 10. maí 1947, giftur Margréti J. Þórarinsdóttur, f. 13. apríl 1948. Búsett í Efsta-Dal 1. Dóttir þeirra Kristrún, f. 4. mars 1968, gift Guðmundi B. Böðvarssyni, f. 18. mars 1966.
Börn þeirra; Kristbjörg, hennar unnusti Bjarni Steinarsson, barn þeirra Ingi Leó. Ragnar Ingi, hans unnusta Hafdís Helgadóttir. Finnur Þór. Uppeldissonur Þórarinn Halldórsson, f. 28. mars 1973, giftur Helgu Harðardóttur, f. 1. júlí 1977. Dætur þeirra eru Erna og Linda.
2. Theodór Indriði Vilmundarson, f. 17. september 1950, giftur Ragnheiði B. Sigurðardóttur, f. 5. ágúst 1951. Búsett í Efsta-Dal 1. Börn þeirra; Sigrún, f. 17. maí 1971, gift Bjarna Þór Sigurðssyni, f. 2. september 1968. Börn þeirra Kristín Heiða og Þorgeir. Vilmundur, f. 23. júlí 1973, giftur Guðrúnu Erlu Sigfúsdóttur, f. 8. september 1973. Synir þeirra; Óskar Fannar, Hlynur Ísak og Steinar Ingi. Rakel, f. 30. janúar 1982, gift Guðjóni Geir Einarssyni, f. 4. janúar 1985. Synir þeirra Bergur Páll og Þorleifur Máni.
3. Gunnar Vilmundarson, f. 29. júlí 1953, giftur Jónu Bryndísi Gestsdóttur, f. 2. september 1954. Búsett á Laugarvatni. Synir þeirra; Gestur, f. 28. júlí 1976, maki Sigríður Soffía Sigurjónsdóttir, f. 22. mars 1981. Synir þeirra Sverrir Styrkár og Styrmir Steinn. Rúnar, f. 7. febrúar 1979, giftur Evu Hálfdanardóttur, f. 20. apríl 1979. Börn þeirra; Ásta Rós, Gunnar Geir og Þórhildur Eva. Arnar, f. 27. maí 1987, giftur Helgu Björt Bjarnadóttur, f. 15. júlí 1989.
Útför Kristrúnar fer fram frá Skálholtsdómkirkju í dag, 29. mars 2019, klukkan 14.

Elskuleg amma mín og nafna hefur nú kvatt í hinsta sinn. Á langri ævi hefur hún siglt á jafnaðargeði og góðlyndi. Jafnan kát og með það viðhorf að lífið sé til að hafa gaman af því. Ætli það hafi ekki haft áhrif á að hún náði hundrað ára afmælinu, ásamt því að reykja ekki, drekka lítið og borða óunninn og hollan mat. Þau næstum tuttugu ár sem hún lifði eftir að afi dó eldaði hún og hugsaði um sig sjálf. Sagði að hún þyrfti að hafa eitthvað að gera. Sauð sér kartöflu og uppáhaldið var hrossaket með. Hún gerði gott úr matnum, sauð fiskhausa í súpu og gaf svo kisumjáinu með sér. Hún skóf skyrbréfið alltaf vel og þvoði og brúkaði aftur. Hún tíndi ber og frysti og hafði út á skyrið allan veturinn, vissulega hollt og gott. Hún gekk daglega til Ragnheiðar í kaffi og hreyfingu fékk hún líka í gegnum veiðiskapinn og rölti reglulega niður að á til að vitja um netstúfinn og sækja í soðið ef vel bar við, ásamt því að athuga með minkagildrur. Hún tapaði eitt sinn hænunum í minkinn og hann át fiskinn úr netinu og því var hann réttdræpur. Hún veiddi mýs og setti sem agn í niðurgrafna tunnu, hálfa af vatni, svo minkurinn kæmist ekki upp aftur. Þetta lukkaðist eindæma vel hjá henni. Eitt sinn handsamaði hún mús í mélfötu og sýndi okkur krökkunum hvað hún var falleg. Ég heyri ennþá skrækina í tengdadætrum hennar, sem voru ekki eins hrifnar. Enda þurfti músin ekki að vera lifandi til að þær færu upp á borð.

Eitt sinn fangaði hún veikan smyril og hafði upp á lofti hjá sér nokkuð lengi um vetur og veiddi og gaf honum mat þar til hann var fleygur á ný.

Amma erfði vondar mjaðmir frá pabba sínum og fór í tvær mjaðmaaðgerðir hvoru megin og einnig var skipt um lið í báðum hnjám. Hún gat ekki lagst á hnén eftir þessar lagfæringar en það háði henni ekki að vinna niður við jörð, hún lagði sig bara saman með bein hné og drundinn upp eins og hún orðaði það sjálf. Svona gat hún vasast úti t.d. í kartöflubeðinu. Breiddi yfir sængur, kíkti undir og hlúði að, enda fékk hún alltaf nýjar bullur í pottinn langt á undan öðrum.

Þegar við komum úr fjósinu var gjarnan litið stutt inn til ömmu í leiðinni. Þá var gott að fá kalda pönnsu eða jafnvel samloku úr normalbrauði og þrumara. Nú í seinni tíð, þegar krakkarnir mínir litu inn á leið úr fjósinu, var minna um bakstur en hún fór gjarnan að tala um gamla tíma við þau og útdeila konfekti úr frystinum sem hún geymdi frá jólum.

Amma Rúna var glögg á skepnur og var eðlislægt að eiga samskipti og tala við þær. Dýrin vita meira en margur heldur sagði hún. Gjarnan fór hún upp á Álfhól til að líta yfir, enda ekki ráð að leita að skepnum nema fara þar upp fyrst. Hún vissi t.d.alltaf ef kvíga sem gekk úti var komin að burði. Þá gat amma komið skálmandi uppeftir til pabba, heldur óróleg og fékk hann í lið með sér. Ekki fyrir löngu síðan klöngruðumst við saman upp á Álfhól og hún benti vítt og breitt og sagði sögur. Hún lagði alltaf mikið upp úr að hafa útsýni og þarna uppi var t.d. í gamla daga skemmtilegt að fylgjast með safninu koma af fjalli og renna framhjá. Eina sögu sagði hún af því þegar strákarnir voru litlir og afi og vinnumaðurinn höfðu verið að smala Efstadalshagana daginn áður og voru farnir að Hólum að smala þar. Það sem angraði ömmu var að þeir höfðu þurft að skilja lamb eftir í sjálfheldu inni í Selgili daginn áður. Henni fannst ómögulegt að það væri látið bíða lengur. Þá kom hún því þannig fyrir að strákarnir voru góðir einir í nokkra stund, greip trippi sem var eftir heima og þeysti innúr högum, náði lambinu og kom því heim. Hún glotti svolítið þegar hún minntist viðbragða afa þegar hún sagði honum fréttirnar um kvöldið. En þetta kom honum víst ekki á óvart, svo lagin var hún við skepnurnar. Hún naut þess að fara á bak og umgangast hross. Hún minntist þess að eftir annasaman dag og strákarnir komnir í ból var gott að skjótast á Krumma inn að fossi. Hún endurnærðist, ein eftir kóngsveginum, eitt með skepnunni í skóginum stutta stund. Fyrir 11 árum fór amma á keppnishestinn hennar Kristbjargar minnar. Hún sat teinrétt og naut sín á faxprúðum hestinum. En hafði samt á orði að það þyrfti að snyrta á honum faxið svo hrossið sæi út, þetta væri sérkennileg tíska.

Amma fékk marga bununa aftan á fjórhjólum hjá Ragnari Inga og Óskari Fannari eða snjósleðarúnt með Finni Þór. Þó þetta væru ekki gamlir ökumenn fannst henni þetta alveg upplagt og hafði gaman af, að auki sem það stytti hjá henni gönguna þegar njólatínslan hafði borið hana langt af bæjarhlaðinu.

Mig langar að koma á framfæri þakklæti til starfsfólks á Dvalarheimilinu Ási í Hveragerði, þar sem amma dvaldi síðustu misserin. Þar var vel hugsað um hana og þó hún væri farin að ruglast í höfðinu trúði ég henni þegar hún sagði mér að sér liði þar vel.

Nú sé ég ömmu fyrir mér í sumarlandinu, sitja flötum beinum milli þúfna, berjablá og njóta náttúrunnar.

Ég ber stolt nafnið þitt amma mín. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þín



Kristrún Sigurfinnsdóttir