Nú liggur fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um staðfestingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella þriðja orkupakka ESB inn í EES-samninginn. Ákvörðunin kallar á lagabreytingar og var hún því með stjórnskipulegum fyrirvara um samþykki Alþingis. Með því yrði Ísland skuldbundið að þjóðarétti að innleiða í landsrétt þær ESB gerðir sem gilda fyrir Ísland. Það er í samræmi við uppfærslu EES-samningsins á reglum innri markaðar EES um frjálst flæði vinnuafls, fjármagns, þjónustu og vöru. Raforka er vara, en frjálst flæði hennar er háð tengingu dreifikerfa. Íslensk raforka fellur því ekki undir reglur um frjálst flæði vöru innan EES.
Orkupakkinn samanstendur af átta ESB-gerðum, þremur um raforku, fjórum um jarðgas og einni um stofnun Samstarfsstofnunar eftirlitsaðila á orkumarkaði en tilgangur hennar er að aðstoða eftirlitsaðila varðandi sameiginlegar reglur innri orkumarkaðarins. Eftirlitsstofnun EFTA mun gegna hlutverki stofnunarinnar gagnvart Íslandi líkt og venja er samkvæmt EFTA-ESB tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Gerðirnar um jarðgas gilda ekki um Ísland skv. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
Í sameiginlegum skilningi utanríkisráðherra og orkumálastjóra ESB kemur fram að vegna sérstöðu Íslands með einangraðs dreifikerfi raforku hafi stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans hvorki gildi né raunhæfa þýðingu hérlendis. Vegna aðstæðna á Íslandi segir einnig: „Þess vegna hentar hið sérstaka fyrirkomulag fyrir Ísland, sem sameiginlega EES-nefndin samþykkti, þar sem komist er hjá allri ónauðsynlegri byrði, best fyrir íslenskar aðstæður.“ Óljóst er hvaða „sérstaka fyrirkomulag fyrir Ísland“ nefndin samþykkti en hana er ekki að sjá í ákvörðun hennar.
Að innleiða í landsrétt reglur sem hafa ekki gildi á Íslandi veldur lagalegri óvissu og gengur gegn hagsmunum þjóðarinnar. Ótti við að missa yfirráð yfir náttúruauðlindum sínum er ein ástæða þess að Ísland hefur ekki gerst aðili að Evrópusambandinu. Þau yfirráð eru samtvinnuð sjálfstæði og hagsæld þjóðarinnar. Þingsályktunartillagan er lögð fyrir Alþingi með vísan til 21. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveður á um að hafi samningar í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, skuli samþykki Alþingis koma til. Augljóst er að þegar um helstu náttúruauðlind þjóðarinnar er að ræða ber að leita samþykkis þjóðarinnar.
Umfjöllun greinargerðar þingsályktunartillögunnar um innleiðingu ESB-gerðanna er rýr en athyglisverð, sbr. eftirfarandi: „Verði þessi tillaga samþykkt verður reglugerð (EB) nr. 713/2009 [um Samstarfsstofnunina] innleidd í íslenskan rétt með hefðbundnum hætti en með lagalegum fyrirvara um að grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verði ekki reist eða áætluð nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar og komi ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni. Þá verði jafnframt tekið enn frekar og sérstaklega til skoðunar á vettvangi Alþingis hvort innleiðing hennar við þær aðstæður samræmist íslenskri stjórnarskrá.“
Sjá má að lagafyrirvarinn felur í sér vafasama lögfræðilega loftfimleika og óvissuferð gagnvart eftirfylgni við EES-samninginn en fyrirvarinn á að setja skorður við að með innleiðingu gerðarinnar geti Ísland orðið hluti innri orkumarkaðarins. Gerðin felur í sér framsal á fullveldi og stjórnskipuleg álitaefni og á Alþingi að krefjast nánari upplýsinga um innleiðinguna.
Reglugerð um raforkuviðskipti yfir landamæri er sögð hafa ekki þýðingu hér á landi.
Stjórnvöld ætla því að innleiða í landsrétt ESB-gerðir sem hvorki að stórum hluta er ætlað að hafa gildi né hafa gildi á Íslandi. Hér er um að ræða regluverk sem lítur að helstu náttúruauðlind þjóðarinnar. Allt ber þetta að sama brunni; þriðji orkupakkinn hefur ekki gildi hvað Ísland varðar enda landið ekki hluti af innri raforkumarkaði ESB. Grundvallaratriði er að þetta komi skýrt fram í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það myndi afstýra óvissu í EES-samstarfinu, sem hefur verið farsælt fyrir Ísland og mikil sátt um.
Alþingi ber að hafna þingsályktunartillögunni og tilkynna það sameiginlegu EES-nefndinni. Slík málsmeðferð ógnar ekki aðild að EES- samningnum enda í fullu samræmi við ákvæði hans. Ótti við slíkt er hættulegur samstarfinu. Stór hluti þriðja orkupakkans hefur ekki gildi fyrir Íslandi líkt og orkumálastjóri ESB og utanríkisráðherra hafa lýst yfir og mikilvægt er að það komi fram í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Nefndin færi varla að komast að öðrum skilningi enda sitja þar undirmenn ráðherrans og orkumálastjórans; sendiherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein EFTA-megin og fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB. Þetta yrði í fyrsta sinn í 25 ára sögu EES-samningsins sem hinn stjórnskipulegi fyrirvari væri nýttur og máli vísað aftur til nefndarinnar, enda í fyrsta sinn sem ætlunin er að færa helstu náttúruauðlind Íslands undir erlent eftirlit og regluverk innri raforkumarkaðar ESB sem landið er ekki hluti af.
Höfundur er lögfræðingur LL.M. eyjolfur@yahoo.com