Sigfríður Erla Ragnarsdóttir fæddist á Akureyri 28. júlí 1943. Hún lést á Dyngju, hjúkrunarheimili HSA á Egilsstöðum, 31. maí 2019.
Foreldrar hennar voru Guðrún Oddsdóttir, húsfreyja, f. 27. mars 1918, d. 28. mars 1995, og Ragnar Stefánsson, bílstjóri á Akureyri, f. 1. maí 1923, d. 20. apríl 2007.
Elstur systkina Erlu er Oddur Lýðsson, f. 11. apríl 1941, þá Jón Þorsteins, f. 16. júní 1945, Úlfar, f. 28. des. 1949, Anna, f. 28. mars 1952, Ragna Ósk, f. 22. jan. 1955, Sigríður, f. 16. mars 1958, og Guðbjörg Inga, f. 18. ágúst 1959.
Sigfríður Erla giftist Sævari Kristni Jónssyni í ágúst 1963.
Börn Sigfríðar Erlu og Sævars Kristins eru Kristín Hrönn, f. 2. mars 1963, maki Gunnar Benediktsson, börn þeirra a) Sævar Már, maki Hrafnhildur Rós, börn þeirra eru Ægir Þór og Katrín María. b) Oddur Logi, maki Hekla Björk, börn þeirra eru Halldór Logi (d. 2013), Sóley Þrá, c) Brynjar Örn, d) Anna Katrín og e) Benedikt Kristinn. Elfa Björk, f. 16. mars 1964, maki Magnús Ástvald Eiríksson, börn þeirra eru a) Ólöf Þórhalla, maki Aðalsteinn, börn Siggerður, Inga Kristín, Guðrún Ása, Anita og Aðalsteinn. b) Eiríkur Ástvald, maki Selma, börn: Sunneva Kolbrún, Snæbjört Elfa og c) Guðný Kristjana. Sigríður Sif, f. 16. mars 1968, maki Gestur Pálsson, börn þeirra eru Telma Þöll Buabin, maki Andri Már, Klara Margrét, maki Cathrine Kraft, Katla Mjöll, maki Sverrir Örn, og Sigríður Helga. Anna Sigurbjörg, f. 10. mars 1969, maki Einar Árni Kristjónsson, börn þeirra eru a) Guðrún Erla Sumarrós, börn Emilía Alís, Bergrós Björt og b) Ísar Karl. Þórdís, f. 6. apríl 1975, dóttir hennar er Tara Sóley Mobee. Guðrún Freydís, f. 28. apríl 1976.
Erla og Sævar hófu búskap á Rauðabergi, Mýrahreppi, og bjuggu þar þangað til Erla og Sævar skildu árið 1984 og flutti Erla á Vesturbraut 19, Höfn, Hornafirði, með dætur sínar.
Erla var mikil félagsvera og var í Kvenfélaginu á Mýrum þar sem hún lagði stund á hannyrðir og félagsstörf. Hún kenndi hannyrðir við Grunnskólann í Holti um tíma. Síðar vann hún við aðhlynningu á dvalarheimilinu á Höfn í Hornafirði og var það henni mikil gleði þar sem hún hafði alltaf löngun til að læra hjúkrun.
Erla flutti til Egilsstaða til dætra sinna sem þar búa, þegar starfsævi hennar lauk vegna vanheilsu og bjó lengstan tíma í húsnæði sínu að Árskógum 26A en flutti síðar í íbúð í Hamragerði 5 þar sem hún bjó til æviloka.
Útförin fór fram 15. júní 2019.

Þú elsku besta amma. Erla mín amma. Sigfríð og seinna meir Sigfríður Erla. Ég man það vel þegar ég hef verið svona um fjögurra ára og við að skoða blóm, steina en aðallega að tína ber. Þetta hefur sennilega verið þegar þið afi voruð að skilja eða búin að skilja. Og ég var alltaf að spyrja: Af hverju afi væri ekki með? Ég man ekkert sérstaklega eftir svarinu þínu, en mér finnst eins og þú hafir ekki alveg viljað svara því. Þetta hefur lítill strákur eins og ég ekki skilið nógu vel. En ég man að ég vissi að ég gæti nú útskýrt þetta á minn hátt og byrjaði að syngja Ég læt engan svipta mig svefni í nótt. Sama hver draugurinn er. (Og svo með hinni mestu innlifun) Og svo kom hann afi að leita að ömmu. Æ ertu hér! sagðann. Elskan mín góð. Og þú ferð svo að hlæja. Það mikið að þú hallar þér aftur og dast af þúfunni og misstir berjadallinn og hélst bara áfram að hlæja. Eins og flestir aðrir. Og forvitna stráknum fannst ekkert fyndið við þennan texta. En ég hló líka.
Þú fylltir mig ánægju á mörgum sviðum. Ég fékk bassagítarinn í fermingargjöf frá þér með magnaranum sem hefur fylgt mér æ síðan. Fyrir utan nokkra mánuði. En það var samt byrjunin á að leika sér í tónsmíðum og kenna sér á gítar, tileinka ég þér, því öðruvísi hefði ég ekki farið útí það að leika mér í tónlist. Það var gaman þegar þú eldaðir fyrir mig, alltaf útskýrt á meðan. Nema þegar þú hafðir lítin tíma, þá varstu eitthvað pirruð og þá fékk maður ekki eins mikla útskýringu. Það gat hreint verið algjört listaverk að brjóta saman dúka, lök, sængurver ... Nei, nei nei! Byrjum aftur! Taktu nú betur í hornin. Já og snúðu nú. Nei nei nei! Byrjum aftur. Strákurinn hafði ekki mikla þolinmæði fyrir þessu. En kom mér í gegnum þetta. En ég gerði þetta ekki eins mikið og aðrir, samt sem áður. Að spila rommí með þér var óskaplega krefjandi, vægt til orða tekið. Það var blanda af þinni ákveðni og reglurnar þínar sem stóðu að því, því reglurnar þínar mátti ekki brjóta. Það er óhætt að segja að keppnisskapið hafi verið til staðar. Beygja reglurnar þínar og allt þér í hag. En þú varst sanngjörn, svona oftast. En einu sinni náði ég heilli röð frá ási til kóngs með tveimur tvistum. Og þú taldir mig hafa svindlað. Leikið með stokkinn fyrir gjöf og varst mér næstum reið því ég hló svo að þessu og þér leist alls ekkert á þetta svindl í stráknum og sagðist ekki taka þátt í fleiri spilum þann daginn. Þú varst það svekkt og kannski sérstaklega hvað ég hló að atvikinu sem slíku. Við töluðum um mat, hvað væri þitt uppáhald og skonsutertan var oft efst á lista eða góð brauðterta, hangikjöt með flatköku, rjómatertan, lambagúllasið með mússunni og kjöthleifurinn með beikoni utanum. Soðinn fiskur og bleikjan var alveg ómissandi. En túnfiskur í dós fannst þér alveg hreint ógeðslegt, en annars gastu borðað sardínurnar upp úr dósinni. Næstum alveg það sama dæmi. En þitt uppáhalds var lambakjöt. Helst vel laukkryddaður lambahryggur með brúnni soðsósu og sykurbrúnuðum kartöflum, grænum, gulum og rauðrófum. Ef þú hefði fengið 10 krónur fyrir hvern sósudropa, matarbita eða meðlæti, já eða ís og íssósu , sem lenti á barmi þínum hefðir þú sennilega átt um 711.750 krónur. Því þetta gerðist alveg hreint rosalega oft. Ísinn þinn var alltaf mjúkur og seinna sagðir þú að ef þú vissir af okkur koma þá hefðir tekið hann út og sett hann í kælinn rétt áður en við komum og þá var hann orðinn svo mjúkur og góður þegar við fengum okkur um kvöldið.
Eitt sem ég get verið hvað stoltastur af er að dóttir mín Sóley Þrá og unnusta, Hekla Björk, fengu að kynnast þér og rífast ögn og hlæja með.
Ég mun ætíð sakna þín amma mín kær og okkar samverustunda, en það er nefnilega málið. Ég átti allan tímann að missa þig, því hvernig öðruvísi átti ég að finna það hversu mikið mér þótti vænt um þig. Þakka þér fyrir kennsluna og heillaorðin, ég mun ganga hægt um gleðinnar dyr, hjálpin sem ég gaf þér, var og er öll mín ánægjan (ekki segja það var nú lítið - þú sagðir alltaf nei þetta var alls ekkert lítið) ég skal passa að mamma og dætur þínar verði nú svolítið skemmtilegar. Og ég þakka þér þín hinstu orð sem komu 29. maí, þegar þú óskaðir mér til hamingju með daginn. Ég þakkaði þér og leiðrétti að ég ætti nú afmæli þann 31. maí. En akkúrat þann dag , á mínu afmæli, kvaddir þú okkur. Þín eigin leið. Óhætt að segja að þú kannt að velja þína bestu tímasetningu.

Bless, bless elsku amma.
Þinn dóttursonur

Oddur Logi.