Rannveig Hansína Jónasdóttir fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 26. september 1935. Hún lést 13. febrúar 2020 á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka.Foreldrar hennar voru Jónas Sigurðsson, útvegsbóndi á Suðureyri, f. 17. desember 1904, d. 28. nóvember 1967, og Kristmanía Soffía Oddsdóttir húsmóðir, f. 4. ágúst 1909, d. 16. maí 1940.
Alsystkini Hansínu voru Guðmundur Guðni Jónasson, f. 31. júlí 1928, d. 26. apríl 1943. Jóna Ólsen, f. 29. maí 1930, d. 13. júní 1930. Indiana Sigríður Jónasdóttir Grossman, f. 3. mars 1932, d. 27. mars 2016. Hálfsystkini Hansínu voru Pétur Jónasson, f. 23. ágúst 1941. Friðbert Jónasson, f. 25. janúar 1945. Sigríður Jónasdóttir, f. 10. júní 1947, d. 7. júlí 2013. Kristmundur Jónasson, f. 13. júní 1951.
Hansína eignaðist dóttur, Hrafnhildi Þorleifsdóttur, f. 20. apríl 1955. Hrafnhildur var gift Davíð Þór Guðmundssyni, f. 7. maí 1959, d. 7. janúar 2012, og eignuðust þau Þórhildi Söndru Davíðsdóttur, f. 24. júlí 1972, Rakel Báru Davíðsdóttur, f. 2. september 1974, d. 18. mars 1990, og Sunnu Rannveigu Davíðsdóttur, f. 21. júní 1985.
Hansína giftist Gunnþóri P. Péturssyni, d. 24. apríl 2005. Börn þeirra: Guðrún Jóna Gísladóttir, f. 12. ágúst 1957, d. 2. febrúar 2014, maki Gunnar Guðjónsson og eru börn þeirra Þuríður Dagný Gunnarsdóttir, f. 10. október 1980, Gísli Rúnar Gunnarsson, f. 6. apríl 1983, Gunnar Örn Gunnarsson, f. 31. október 1984, og Kolbrún Klara Gunnarsdóttir, f. 13. maí 1992. Hallgrímur Þór Gunnþórsson, f. 22. júní 1960, maki Susana Rabanes Gunnþórsson, f. 21. september 1982. Börn þeirra eru Helens Rut Hallgrímsdóttir, f. 12. janúar 2005, og Veigar Þór Hallgrímsson. f. 1. júlí 2009. Soffía Gunnþórsdóttir, f. 29. október 1961. Soffía eignaðist Guðnýju Benediktsdóttur, f. 3. september 1978. Árnýju Evu Sigurvinsdóttur, f. 18. janúar 1985. Sigurður Haukur William Guðlaugarson,f. 30. desember 1990. Sólrún Anna Óskarsdóttir og Sindri Már Óskarsson, f. 26, maí 1996. Gunnþór Sigurgeirsson, f. 2. ágúst 1999. Núverandi maki Soffíu er Sigurgeir Svavarsson.
Elsa Kolbrún Gunnþórsdóttir, f. 2. febrúar 1963. Maki Jón Jónsson, f. 10. júlí 1961. Börn Agnes Lind Jónsdóttir, f. 25. janúar 1980, Ásgerður Tinna Jónsdóttir, f. 2. apríl 1985, Rakel Marín Jónsdóttir, f. 11. ágúst 1990, og Arnþór Jónsson, f. 23. nóv. 1991.
Inga Jóna Gunnþórsdóttir, f. 26. júní 1966. Maki Guðlaugur Þorbjörn Kárason, f. 10. október 1972, börn: Thelma Rut Gunnlaugsdóttir, f. 9. júní 1994, Kári Þór Gunnlaugsson, f. 7. ágúst 1995, og Arnar Friðrik Gunnlaugsson, f. 15. ágúst 2001. Jónas Sigurður Gunnþórsson, f. 14. nóvember 1969. Dóttir Steinunn Anna Jóhannsdóttir, f. 29. apríl 1999. Árið 1976 giftist Hansína Jóni Friðriki Zóphoníassyni skipstjóra á Stokkseyri, f. 1. nóvember 1933, d. 14. febrúar 2018. Þau áttu ekki börn saman en nutu samvista við sameiginleg barna- og barnbarnabörn á Stokkseyri þar sem að Elsa, dóttir Hansínu, og Jón Jónsson giftu sig og eignuðust 4 börn auk 11 barnabarna. Þau búa öll á Stokkseyri.
Útförin fór fram frá Stokkseyrarkirkju 29. febrúar 2020.

Rannveig Hansína Jónasdóttir fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 1935. Berklarnir komu með kalda hönd inn á heimilið. Lítið barn missa foreldrarnir 1930, berklarnir taka móðurina, Kristmanníu Soffíu Oddsdóttur 1940, eldri bróðurinn fáum árum síðar og Hansínu var vart hugað líf. Móðirin lést á meðan á spítaladvölinni á Ísafirði stóð 1938-40. Hansína kemur til baka ári síðar, lítil 6 ára stúlka, búin að vera þrjú ár langt frá heimili sínu, ein á spítala. Faðirinn fór á skíðum að sækja hana, yfir illfæra Botnsheiðina sagði presturinn við útförina. Þegar Hansína kemur aftur heim í þorpið, hefur fátt verið kunnuglegt. Sigríður Pétursdóttir, amma mín, komin inn á heimilið með pabba minn, lítinn 8 ára dreng, Kjartan Ólafsson, og Pétur Jónasson nýfæddan hálfbróður. Amma Sigríður hefur gengið Indíönu eldri systur hennar í móður stað. Eldri bróðir hennar Guðni liggur banaleguna, lést af berklunum 1943. Pabbi vildi helst búa áfram í sveitinni á Laugum hjá ömmu sinni, fjarri berklunum hvar amma hans hélt að honum rjóma. Hann fór snemma burt, á heimavistaskóla, fyrst til föður síns sem var að kenna í Aðalvík og svo að Núpi í Dýrafirði. Hansína óx úr grasi í þorpinu, varð lífsglöð, söngvin og skemmtileg. Dáði Ragga Bjarna. Yngri hálfsystkinum fjölgaði sem faðir minn og Hansína áttu sameiginlega. Á eftir Pétri koma Friðbert, Siddý (Sigríður Jónasdóttir (1947-2013) og Kiddi, skírður Kristmundur Jónasson eftir fyrri eiginkonu Jónasar, móður Hansínu. Hansína eignaðist dótturina Hrafnhildi Sigríði Þorleifsdóttur 1955 með Þorleifi Hallbertssyni (1931-2010), áður en hún hitti manninn sem hún síðar giftist og eignaðist með sex börn. Með Gunnþóri Péturssyni (1938-2005) eignast hún fyrst aðra dóttur Guðrúnu Jónu Gísladóttur (1957-2014), en þá stóð þannig á að ekki leit út fyrir að þau yrðu hjón. Gunnþór hafði hitt aðra konu og þar var sonur á leiðinni, Torfi Gunnþórsson fæddur 1958. Það atvikast því þannig að Guðrún Jóna er gefin til ættleiðingar til sómahjónanna Gísla Jónssonar (1911-1995) og Þuríðar Jónasdóttur (1922-1967). Það er erfitt að setja sig í spor annarra án þess að setjast í dómarasæti, en þessi ákvörðun hefur örugglega ekki verið Hansínu léttbær, hvorki fyrr né síðar. Sjálf man ég fyrst eftir Hansínu er ég var í heimsókn hjá ömmu Sigríði á Suðureyri. Þetta var heilmikið ferðalag í rútu frá Reykjavík. Kringum Stekkjanesið var fullt af börnum. Ættingjar í hverju húsi í þorpinu. Ég skildi ekki alveg af hverju flest börnin kölluðu ömmu mína líka ömmu. Þarna kynntist ég börnunum hennar Hansínu. Hrafnhildur sem var orðin unglingsskvísa og svo Hallgrímur, Soffía, Elsa og Inga Jóna sem hlupu innan um hænurnar hennar ömmu og kenndu okkur Reykjavíkursystrum að finna egg. Soffía og Elsa áttu bú uppi í brekkunni sem við systur fengum líka að leika okkur í. Þarna var gott að sitja, dingla löppunum og dást að fallega útsýninu yfir fjörðinn. Horfa ofaná litrík húsþökin á Suðureyri og yfir á skógi vöxnu, snjósköflóttu, norðurhlíðina hinumegin. Í húsinu við hliðina á ömmu bjó Þóra með öll sín börn, en Þóra var systurdóttir ömmu og líka afabróðurdóttir mín. Systkinabarn við pabba minn í báðar ættir. Svo bjó langamma mín og fleiri ömmu- og afasystkini mín í öðrum húsum innar í þorpinu og á bæjunum beggja vegna, í Botni, á Laugum og á Stað. Síðar hitti ég Hansínu trúlega 1972, en þá var ég sumarlangt í sveit á Dröngum á Skógarströnd, hjá vandalausum. Fékk botnlangakast og var flutt í sjúkrabíl á Akranes. Þá bjuggu Hansína og Hrafnhildur dóttir hennar þar og komin lítil ömmustelpa. Ég var svo heppin að fá heimsókn frá þeim á hverjum degi á spítalann. Mamma komst ekki frá Reykjavík hvern dag. Þegar kom að útskrift af spítalanum passaði tíminn ekki alveg við skipakomu Akraborgarinnar, fékk ég þá að bíða hjá Hansínu og Hrafnhildi þar til mamma kom með skipinu. Skil það betur nú hvað Hansína skildi vel þennan litla sjúkling sem lá þarna fjarri foreldrum sínum, ég var þó orðin miklu eldri en hún var þegar hún lá sína spítalalegu, sem var auðvitað ekkert sambærileg við þessa smávægilegu mína. En ég fann vel fyrir samkennd og hlýju sem þessi kona átti nóg af, þótt kjörin fram að þessu hefðu verið kröpp. Amma Sigríður missti Jónas sambýlismann sinn og föður Hansínu í vinnuslysi við uppskipun á Suðureyri 1967. Mér er stundum hugsað til þess hvað mikil sorg hefur verið í húsinu sumarið eftir þegar ég heimsæki ömmu vestur í síðasta sinn. Amma er þá að ganga frá húsinu og flytja suður. Það ár missir Hansína, sem hafði á unga aldri misst svo marga frá sér, föður sinn, afa barnanna sinna og fær einnig fréttir af því að dóttirin sem hún hafði gefið í fóstur 10 árum fyrr er búin að missa kjörmóður sína. Hún og Gunnþór með fimm börn í framfærslu og eitt átti eftir að bætast við, lítill Jónas Gunnþórsson fæðist 1969, búa örfáum skrefum frá ömmu á Stekkjanesinu. Ég heimsótti ömmu oft eftir að hún flutti til Reykjavíkur á Nönnugötuna þegar ég var í Barnamúsíkskólanum. Fór í strætó í fiðlutíma niður á Laugaveg, gekk þaðan upp Vitastíginn upp á Skólavörðuholtið. Átti langömmu og ömmusystur sem bjuggu á Freyjugötu, auk ömmu á Nönnugötu og ömmu og afa á Bergstaðastræti. Heimsótti yfirleitt öll þessi þrjú heimili á bakaleiðinni, áður en ég gekk niður á torg og tók strætó heim í Álfheima. Oft þegar ég kom til ömmu á Nönnugötuna trítluðu þar tveir litlir Jónasar nýfarnir að ganga. Annar Friðbertsson og hinn Gunnþórsson. Annar mjög ljós yfirlitum og hinn óvenju dökkur. Báðir gullfallegir. Hansína er þarna fráskilin og er að leita sér lækninga í Reykjavík. Mér þótti sorglegt að frétta að hún þurfti að senda Jónas litla Gunnþórsson frá sér í fóstur. Vissi ekki þá að hún hafði þurft að ganga í gegnum þá raun líka fyrr á lífsleiðinni er hún lét Guðrúnu Jónu frá sér 1957. Síðustu áratugina sem Hansína lifði átti hún góðan mann og þótt þeim yrði ekki barna auðið, tóku börnin þeirra frá fyrra hjónabandi saman, Elsa Kolbrún og Jón Jónsson og eignuðust þau börn og urðu Hansína og hennar seinni maður Jón Friðrik Zóphoníasson afi og amma þeirra auk þess að vera öflug stjúpafi og amma allra hinna barnabarnanna. Hansína náði að lifa það að verða langlangamma. Geri aðrir betur. Hún lést á dvalarheimilinu Sólvöllum Eyrarbakka 13. febrúar 2020. Blessuð sé minning hennar.



Signý Kjartansdóttir.