Jón Halldór Borgarsson fæddist 9. júlí 1933 á Hesteyri í Jökulfjörðum. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hlévangi 22. mars 2020.

Foreldrar hans voru hjónin Jensey M. Kjartansdóttir, f. 18. ágúst 1907, d. 5. október 1987, og Borgar Gunnar Guðmundsson, f. 2. september 1911, d. 26. nóvember 1985. Jón var elstur af fjórum bræðrum. Hinir eru Guðjón Jósef, f. 1934, d. 1999, Svavar Gunnar, f. 1940, d. 2017, og Guðmundur Jóhannes, f. 1941.

Jón Halldór kvæntist 24. maí 1954 eiginkonu sinni Guðlaugu Magnúsdóttur, f. 30. júlí 1935, d. 29. október 1997. Börn þeirra eru: 1) Borgar Jens, f. 5. febrúar 1954, giftur Eygló Breiðfjörð Einarsdóttur, f. 1957. Börn hans úr fyrra hjónabandi eru Margrét Mollý, f. 1976, Jón Halldór, f. 1981, og Axel Fannar, f. 1987. Sonur Eyglóar frá fyrra hjónabandi er Hartmann, f. 1977. 2) Magnús Ingi, f. 25. maí 1960, giftur Helgu Jónínu Guðmundsdóttur, f. 1968. Börn hans úr fyrra hjónabandi eru Guðmundur Ingi, f. 1983, Guðlaug, f. 1987, og Sigríður Karólína, f. 1988. Börn Magnúsar Inga og Helgu Jónínu eru Þorgeir, f. 1996, Magnús, f. 1999, og Ísabella f. 2000. 3) María Rós Newman, f. 23. mars 1960, fósturdóttir Jóns Halldórs og Guðlaugar. Hennar börn og Sigurðar Ingimundarsonar eru Katrín Líf, f. 1989, Ingimundur, f. 1990, og Elín Helga, f. 1999. 4) Sveinbjörn Guðjón, f. 3. apríl 1963, giftur Ingibjörgu Guðjónsdóttur, f. 1964. Dætur þeirra eru Berglind Björk, f. 1992, og Bryndís Björk, f. 1998. 5) Rúnar Kjartan, f. 18. nóvember 1970, giftur Hallveigu Fróðadóttur, f. 1976. Dóttir Rúnars Kjartans úr fyrra sambandi er Árnína Lena, f. 1993. Synir Rúnars Kjartans og Hallveigar eru Fróði Kjartan, f. 3. apríl 2003, og Frosti Kjartan, f. 2008.
Langafabörn Jóns Halldórs eru orðin 19.
Jón ólst upp til fermingaraldurs á Hesteyri. Eftir fermingu flutti hann með foreldrum sínum í Hafnir. Þegar þangað var komið vann hann um stund í frystihúsi en fór svo að róa á trillu. Þá var hann á vertíð í Keflavík og á síld sumrin 1950 og 1951. Kringum 1954 vann hann við vélgæslu í frystihúsinu í Höfnum í tvö ár en var annað slagið á sjónum. Haustið 1957 hóf hann störf hjá Íslenskum aðalverktökum og vann þar í 17 ár; fyrstu fjögur til fimm árin í blikksmiðju og síðan í járnum. Vorið 1970 útskrifaðist hann sem vélvirki frá Iðnskólanum í Keflavík. Árið 1973 gerðist hann svo húsvörður í Íþróttahúsi Njarðvíkur og starfaði þar í ellefu ár. Þaðan fór hann til Hitaveitu Suðurnesja og starfaði þar til ársins 2000 þegar hann fór á eftirlaun. Jón sat þrjú kjörtímabil í hreppsnefnd Hafnahrepps í kringum 1960. Hann endurvakti björgunarsveitina Eldey í Höfnum og stjórnaði henni til fjölda ára eða þar til hún sameinaðist Björgunarsveitinni Suðurnesjum. Jón hafði einnig áhuga á uppgræðslu og ræktaði upp lúpínu og annan gróður. Hann var virkur í Lionsklúbbi Njarðvíkur í 15 ár og eins var hann virkur hjá félagi eldri borgara.

Með þessum fáu orðum viljum við minnast okkar einstaka frænda, Jóns Borgarssonar frá Hesteyri í Jökulfjörðum. Jón Borgarsson og pabbi, Vagn Margeir Hrólfsson, voru bræðrasynir og ólu sín fyrstu ár á Hesteyri. Það var þó ekki fyrr en nokkuð seint á þeirra ævi sem þeir náðu almennilega saman aftur frændurnir. Þeir voru báðir fæddir á Hesteyri en ræturnar lágu til Rekavíkur bak Látur þar sem forfeður þeirra bjuggu við harðan kost. Þeir erfðu báðir dugnaðinn, gleðina, sagnagleðina og seigluna frá forfeðrum sínum. Þegar fólkið í Jökulfjörðum og á Hornströndum yfirgaf átthagana, líklega margir tilneyddir, dreifðist frændgarðurinn víða. Einn leggur kom sér fyrir í Höfnum á Reykjanesi. Það var fjölskylda Borgars, Jón og fleiri bræður hans. Nokkrum sinnum komum við í heimsókn í Hafnirnar til þeirra bræðra, Jóns og Jósefs, og bræðrum þeirra, Jóa og Svavari, kynntumst við einnig vel. Það var ævintýri líkast. Frændkærleikurinn var ríkulegur og góðmennskan gegnumheil.

Ógleymanlegt er ættarmót ættbogans frá Rekavík bak Látur í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp árið 1988. Það var þá sem maður sá allan þennan fjölda skyldmenna sem frá Guðmundi Pálmasyni vitaverði og eiginkonum hans tveimur var kominn. Og það var gaman. Það var sko líf og fjör. Það var mikið sungið og dansað, drukkið og kysst! Menn þurftu lítið að sofa. Vildu ekki missa af löngu tímabærum samverustundum við kæra ættingja. Og þar var Jón að sjálfsögðu hrókur alls fagnaðar og sá sem var límið í hópnum. Og þar voru líka bræður hans Jósep, Jói og Svavar og fjölskyldur þeirra, allir sömu gleðipinnarnir og kærleiksbúntin.

Okkur systkinunum fannst á vissan hátt Jón Borgarsson vera einhvers konar ættarhöfðingi Rekavíkurfólksins. Hann var svo glæsilegur í sínum teinóttu jakkafötum og með pípuna sína í munninum. Hann lét líka mest að sér kveða á mannamótum. Hann hafði til dæmis alla tíð í hverjum einasta vasa sparigallans ýmsan kveðskap, bæði vísur og djarfar sögur sem gátu fengið viðstadda til að kútveltast og jafnvel gráta úr hlátri. Hann hafði svo gaman af því að vera í sviðsljósinu og naut sín við sögur og kveðskap. Oftar en ekki var hann sjálfur þungamiðjan í grínsögunum. Löngu síðar var haldið ættarmót hjá leggnum okkar í Vestmannaeyjum og svo auðvitað í Bolungarvík, á okkar heimaslóðum. Þetta voru ógleymanlegar samkomur og þá var, eins og áður, nóttin ung við söng, glens og gleði.

Svo skemmtilega vill til að móðir okkar, Birna Pálsdóttir, og Jón eiga sama afmælisdag og eru jafngömul upp á dag. Það var því vel til fundið þegar þau fögnuðu áttræðisafmæli sínu hinn 9. júlí fyrir sjö árum, að fjölskyldur beggja lögðu land undir fót og sigldu til Hesteyrar í blíðskaparveðri með afmælisbörnin. Þar var haldin ógleymanleg afmælisveisla með sögum, söng og leikjum. Það var í síðasta skipti sem Jón kom til Hesteyrar. Þar sagði hann m.a. sögur af því að hann og bræður hans hefðu einhverju sinni grafið merkileg leikföng í hól bak við hús sem nú er horfið. Mörg barnanna á staðnum opnuðu augun og sáu fyrir sér fornleifagröft í leit að góssinu.

Jón hafði mikið dálæti á okkur systkinunum og vildi alltaf allt fyrir okkur gera, og fjölskyldan hans öll. Nægir þar að nefna alls konar stúss í kringum bíla, bæði viðgerðir, kaup og vörslu á meðan við skruppum til útlanda. Og alltaf vekur hún hlátur minningin um Jón þegar hann kom ásamt Bogga syni sínum til að hitta Hrólla sem þá var kominn frá Þýskalandi til að halda nútímalega harmonikutónleika í kirkjunni í Keflavík. Þetta var líklega í nóvember og það var norðansnjóbylur þegar listamaðurinn kom að kirkjunni ásamt hluta fjölskyldunnar. Þar hímdu þá upp við vegg Jón og Boggi sonur hans. Það urðu að sjálfsögðu miklir fagnaðarfundir. Þegar búið var að bera allt hljóðfæra- og tæknidótið inn í kirkjuna og stilla upp sagði Jón: Jæja elskurnar mínar, þá ætla ég að drífa mig. Nú, sagði Hrólli undrandi, ætlarðu ekki að vera á tónleikunum? Nei, nei, nei, sagði Jón, ég hef ekkert gaman af svona nútímadrasli, ég kom bara til að hitta þig elsku vinur og bjóða þig velkominn!

Við systkinin, fjölskyldur okkar og mamma þökkum elsku Jóni fyrir dásamlegar samverustundir í gegnum lífsgönguna. Þær eru ómetanlegar og minningarnar ylja um einstakan og stóran persónuleika sem sérstaklega gaman var að vera nálægt. Nafn hans mun ekki síst bera á góma þegar við njótum verunnar á Hesteyri í Jökulfjörðum. Minning hans mun lifa með okkur alla tíð.

Birna Pálsdóttir, Vagnsbörn og fjölskyldur frá Bolungarvík.