Sverrir Þór Einarsson Skarpaas fæddist í Reykjavík 2. maí 1962, hann lést 26. júlí síðastliðinn. Hann var sonur Gerd Skarpaas og Einars Stefáns Einarssonar. Systkini Sverris eru Ásta Málfríður Einarsdóttir, fædd 1956, Einar Þorsteinn Einarsson, fæddur 1957, Orri Einarsson, fæddur 1959, Bjarni Rúnar Einarsson, fæddur 1961 og Eva Skarpaas, fædd 1971.Sverrir var alinn upp í Laugarásnum og gekk í Langholtsskóla. Hann lærði bifvélavirkjun sem ungur maður en starfaði lengst af sem húðflúrmeistari. Hann stofnaði sína eigin húðflúrstofu, Skinnlist, árið 1993 ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni og rak hana svo ásamt Söru dóttur sinni og eiginkonu sinni, Dillu. Sverrir deildi ástríðu sinni á húðflúrun með dóttur sinni Söru, sem tók þátt í rekstri stofunnar frá barnæsku, lærði húðflúrun hjá föður sínum og starfaði með honum.
Sverrir var međ fyrrverandi eiginkonu sinni Þuríði Björg Birgisdóttur í 21 ár og eiga þau þrjú börn, Daða Geir, fæddan 1984, Söru Mist, fædda 1989 og Elínu Birtu, fædda 1993.
Sverrir kvæntist Diljá Petru Palmer árið 2007 og héldu þau upp á 13 ára brúðkaupsafmæli sitt þann 7. júlí síðastliðinn.
Útför Sverris fór fram í Háteigskirkju 10. ágúst 2020.

Enginn veit sína ævina fyrr en öll er - eru orð að sönnu. Mig setti hljóða að frétta af andláti Sverris þrátt fyrir að vita síðasta árið að hann væri mjög veikur. Einhvern veginn trúir maður alltaf á að bati fáist, sérstaklega þegar sterkt og stæðilegt fólk á í hlut en því miður var andstæðingurinn bæði óútreiknanlegur og óvæginn.
Ég kynntist Sverri fyrir rúmum 30 árum þegar ég ruglaði reytum með elsta bróður hans. Betri mág var ekki hægt að hugsa sér. Oft var glatt á hjalla og ekki hægt að segja að það hafi verið lognmolla í kringum bræðurna úr Norðurbrúninni. Samræður voru fjörlegar og oft á tímum voru þeir svo samhuga í skoðunum að þeir voru eins og einn maður. Samt komu rigningartímabil ósætti og óuppgerðir hlutir eins og gerist oft í systkinahópi, stundum auðleyst en oft svarf til stáls eins og getur gerst þegar sterkir hugar takast á og fólk hlustar ekki hvert á annað.
Sverrir var með eindæmum geðþekkur maður með sjarmerandi framkomu sem heillaði flesta sem kynntust honum en ef honum mislíkaði var hann ekki spar á skoðanir sínar og stundum nokkuð fljótfær, þótt hann væri fyrstur manna til að rétta fram sáttarhönd og bæta fyrir það sem miður fór þegar það átti við. Hann var sannur vinur vina sinna og þrátt fyrir að líf okkar allra færi í margar ólíkar áttir þá var hann alltaf sami gamli Sverririnn þegar ég hafði samband. Hann vildi ekkert fremur en grafa stríðsöxina eins og hann komst sjálfur að orði þegar hann reyndi að sættast við bróður sinn og sorglegt að þeirri bón var hafnað þrátt fyrir góðan hug og margítrekaðar tilraunir. Samt eru fleiri góðar stundir en slæmar sem ég minnist og hans fallega hláturs þegar spaugilegir hlutir gerðust. Ég man Sverri ljómandi af gleði þegar eldri dóttir hans fæddist og hvernig hann lagði hana varlega í fang mér svo ég gæti notið þessarar stundar með honum og Björgu, með Daða litla sitjandi við hliðina á mér svo stoltur að vera orðinn stóri bróðir að strjúka henni um kinnina ofurvarlega.
Minningarnar eru margar. Ég man þá bræður á gleðistundum taka Krummavísur og syngja saman tvísöng, reyta af sér brandara og tvíræðar sögur svo við öll grétum af hlátri. Eins man ég þegar ég var hrædd við að keyra mótorhjól að hann sagði að allar stelpur ættu að læra að hjóla. Við fórum í Laugardalinn og þar á vellinum lét hann mig keyra Yamaha Virago mótorhjólið sitt eftir að hafa frætt mig um hvernig allt virkaði. Í einum hringnum beygði ég of snarpt og hjólið lagðist á hliðina. Og þar sem ég í óttakasti yfir að hafa skemmt hjólið og hann yrði reiður var að reyna að reisa það upp, kom hann hlaupandi yfir völlinn og hjálpaði mér, smá áhyggjufullur en glaður að ég hefði ekki meitt mig og sagði rispuna á speglinum ekki skipta nokkru máli. Þannig var Sverrir og á þeirri stundu þótti mér undur vænt um hann.
Hann hvarf svo út úr lífi mínu árum saman vegna ágreinings og fjölskylduvanda sem ég reyndi oft að laga með litlum árangri. Samt má hann eiga það að hann gafst aldrei upp og gerði sitt til að reyna að bæta sambandið. Og þegar ég fyrir tveimur árum hafði skriflegt samband til að leita aðstoðar var hann allur boðinn og búinn að hjálpa mér og gefa mér skýringar á því hvað hafði gerst þegar hann var strákur og hvernig hlutirnir höfðu þróast, og sagði það smámál að hann hringdi í mig til Englands og við spjölluðum klukkutímum saman þegar ég hafði áhyggjur af svimandi símreikningi. Þannig var Sverrir. Höfðingi heim að sækja, greindur, fræðandi og fullur af allskonar leiðum og lausnum þannig að sama hversu stórt vandamálið var gat hann alltaf gert það bæði lítið og einfalt.
Mig langar að kveðja hann með uppáhaldssöngnum hans, ég heyri innra með mér gamlan óm þegar ég heyrði hann syngja það í fyrsta sinn í Borgartúninu með krafti og gleði sem honum einum var lagið.
Algóður guð blessi Sverri og minningu hans.



Krummi svaf í klettagjá,
kaldri vetrarnóttu á,
verður margt að meini.
Fyrr en dagur fagur rann,
freðið nefið dregur hann
undan stórum steini.


Allt er frosið úti gor,
ekkert fæst við ströndu mor
svengd er metti mína.
Ef að húsum heim ég fer
heimafrakkur bannar mér
seppi´ úr sorp að tína.


Öll er þakin ísi jörð,
ekki séð á holtabörð
fleygir fuglar geta.
En þó leiti út um mó,
auða hvergi lítur tó;
hvað á hrafn að éta.


Á sér krummi ýfði stél,
einnig brýndi gogginn vel,
flaug úr fjallagjótum.
Lítur yfir byggð og bú
á bænum fyrr en vakna hjú,
veifar vængjum skjótum.


Sálaður á síðu lá
sauður feitur garði hjá,
fyrrum frár á velli.
Krunk, krunk, nafnar, komið hér,
krunk, krunk, því oss búin er
krás á köldu svelli.

Hellen Linda Drake.