Örlygur Hálfdanarson fæddist 21. desember 1929 í Viðey á Kollafirði og ólst þar upp og á Seltjarnarnesi. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík 30. október 2020.

Foreldrar Örlygs voru Hálfdan Halldórsson verslunarstjóri í Viðey og Jóhanna Guðlaug Bjarnadóttir húsfreyja. Systkini Örlygs sem öll eru látin voru: Bjarney Valdimarsdóttir; Hulda Sigríður Guðmundsdóttir; Matthías Þorbjörn Guðmundsson; Guðmundur Guðmundsson og Sveinn Bjarnar Hálfdanarson.

Örlygur kvæntist 19. september 1953 Þóru Þorgeirsdóttur, f. 31. janúar 1933. Foreldrar hennar voru Þorgeir Jónsson bóndi í Gufunesi og Guðný Guðlaugsdóttir húsfreyja. Synir Örlygs og Þóru eru: 1) Þorgeir, f. 1952, maki Iðunn Reykdal. 2) Örlygur Hálfdan, f. 1956, maki Guðbjörg Geirsdóttir. 3) Matthías, f. 1962, d. 2014. Maki hans var Elva Sigtryggsdóttir en Matthías var áður í sambúð með Kolbrúnu Ólafsdóttur. 4) Arnþór, f. 1970.

Örlygur gekk í Viðeyjarskóla, stundaði síðar nám við Héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði, lauk verslunarprófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík 1953 og framhaldsdeildarprófi frá sama skóla ári síðar.

Að námi loknu hóf Örlygur störf sem fulltrúi í sjódeild Samvinnutrygginga, var eftir það fulltrúi og deildarstjóri í fræðsludeild SÍS, ritstjóri Hlyns, blaðs samvinnustarfsmanna, og blaðamaður á Samvinnunni.

Ásamt svila sínum Erni Marinóssyni stofnaði Örlygur árið 1996 Bókaútgáfuna Örn og Örlyg hf. og var umsvifamikill bókaútgefandi um áratuga skeið. Meðal helstu ritverka sem Örlygur gaf út á ferli sínum sem bókaútgefandi má nefna ritverkin Landið þitt – Ísland, Reykjavík – Sögustaður við Sund, Íslandshandbókin, Íslenska alfræðiorðabókin, Ferðahandbókin, Vegahandbókin, Dýraríki Íslands, Landið og landnáma, Ferðabók Eggerts og Bjarna, Ferðabók Sveins Pálssonar, Skútuöldin, Íslenskir sögustaðir og Úr torfbæjum inn í tækniöld, þriggja binda ritverk sem kom út árið 2003, og er þá fátt eitt talið.

Örlygur var einnig umsvifamikill útgefandi orðabóka og má þar nefna Ensk-íslenska orðabók sem út kom árið 1984, Ensk-íslenska skólaorðabók, Ensk-íslenska viðskiptaorðabók, Íslensk-enska viðskiptaorðabók og Fransk-íslenska orðabók. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í nóvember 1995 sagði meðal annars svo: „Að öðrum ólöstuðum verður ekki um það deilt að Örlygur Hálfdanarson bókaútgefandi hefur unnið menningarleg þrekvirki með því brautryðjandastarfi, sem hann hefur unnið á sviði orðabókarútgáfu. Eins og málum hefur verið háttað hér á landi er það nánast kraftaverk, að einstaklingur í bókaútgáfu skuli hafa náð slíkum árangri. Þar hefur bersýnilega legið að baki mikill metnaður og hugsjónastarf ... Framvegis bera menn slíka útgáfu saman við þá útgáfu, sem hann stóð fyrir.“

Örlygur hafði ávallt töluverð afskipti af félagsmálum. Hann var meðal annars formaður Sambands ungra framsóknarmanna 1960-1966, átti sæti í miðstjórn Framsóknarflokksins frá 1956-1966, var um skeið forseti Slysavarnafélags Íslands, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, beitti sér fyrir stofnun Viðeyingafélagsins, átthagafélags Viðeyinga, og var lengi formaður þess.

Útför Örlygs Hálfdanarsonar fer fram Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, miðvikudaginn 11. nóvember 2020, klukkan 13. Streymt verður frá útförinni á www.sonik.is/orlygur

Örlygur Hálfdanarson var ötull hugsjóna- og atorkumaður og verka hans mun lengi sjá merki í íslenskri menningu. Örlygur var ekki lítilþægur og kraup ekki fyrir neinum en löngun til góðra verka var honum í blóð borin. Hann var kominn af harðgerðu fólki og má þar vitna til afa hans í móðurætt sem átti heima austur í Skaftafellssýslu. Hann var sendur eftir meðölum fyrir sjúkling á bæ í sveitinni og lenti í illviðri. Þegar hann sneri aftur, rennandi blautur, eftir farsæla afreksferð, var honum vísað til gistingar í köldu útihúsi og við það fékk hann lungnabólgu sem varð honum að bana. Sjúklingurinn lifði en bjargvætturinn dó. Svipaðar sögur voru margar af þeim sem minna máttu sín fyrr á tíð.

Örlygur ólst upp í glaðri bernsku í þorpinu á Sundbakka í Viðey. Á fullorðinsárum var hann brautryðjandi og í forystu fyrir því að varðveita minjar og fróðleik um það fjöruga mannlíf sem þreifst í Viðey fyrrum. Þegar hann fullorðnaðist sótti hann Héraðsskólann á Núpi og síðan Samvinnuskólann í Reykjavík. Hann varð fyrir áhrifum af og hafði miklar mætur á Jónasi Jónssyni, skólastjóra Samvinnuskólans, og Jónas hafði sömuleiðis mikið álit á honum. Að tilhlutan Jónasar réðst Örlygur til samvinnuhreyfingarinnar, starfaði fyrst fyrir Samvinnutryggingar en síðan fræðsludeild Sambandsins sem svo var nefnt. Örlygur fann sig ekki þarna, hann vildi gera umbætur og breytingar í nútímaátt. En það hugnaðist vinnuveitendum hans ekki, allt skyldi vera eins og áður. Þeir hækkuðu hann í tign, gerðu hann að deildarstjóra yfir sjálfum sér, án undirmanna. Örlygur skildi hvað klukkan sló, hann tók hatt sinn og staf og kvaddi.

En hann tók með sér eitt í viðbót, í kolli sínum. Það var hugmynd hans um leiðsögubók fyrir Íslendinga, um Ísland, sem hann hafði ætlað að raungera í þágu SÍS en varð í höndum hans að Vegahandbókinni (Ferðahandbókinni í upphafi) sem hefur nú þjónað Íslendingum í rúma hálfa öld, í fjölmörgum útgáfum.

Þá varð Bókaútgáfan Örn og Örlygur til. Þeir Örlygur og Örn Marinósson, svili hans, stofnuðu fyrirtækið saman. Með þessu var sleginn tónninn í útgáfuverki Örlygs Hálfdanarsonar í nær hálfa öld. Land þjóð og tunga, þrenning sönn og ein, hið þekkta upphafsvísuorð í sonnettu Snorra Hjartarsonar, sem ber oft á góma þegar rætt er um varðveislu íslenskrar tungu og menningar, kemur vissulega upp í hugann þegar horft er yfir æviverk Örlygs. Þegar fyrirtækinu óx fiskur um hrygg, svo að um munaði, og það varð ein stærsta bókaútgáfa landsins, með fjölda tuga bóka, íslenskra og þýddra erlendra, í bókaskránni hvert ár, var fjölbreytnin oft mikil, en þetta var samt meginstefið í hinum stóru verkum.

Árið 1966 kom út fyrsta uppsláttarverkið um Ísland á vegum Arnar og Örlygs og nefndist Landið þitt saga og sérkenni nær 2000 einstakra bæja og staða, 418 bls. að stærð. Höfundur máls og mynda var Þorsteinn Jósepsson, blaðamaður og ferðagarpur. Það var mikið í lagt hjá litlu og fjárvana fyrirtæki. Örlygur komst eitt sinn svo að orði í viðtali að hefði salan brugðist fyrir jólin 1966 hefði saga fyrirtækisins ekki orðið lengri. En þjóðin stóð við sitt og bókaútgáfan Örn og Örlygur hélt áfram að gefa út bækur. Árið 1968 kom svo út seinna bindi Landsins þíns en það ritaði Steindór Steindórsson, skólameistari á Akureyri.

Á árunum 1980-1985 kom Landið þitt út að nýju og hét þá Landið þitt Ísland, mjög aukið, alls sex bindi, 1.245 bls. samanlagt, allt prentað í lit. Steindór Steindórsson jók mjög við efni og aðrir höfundar komu einnig til sögunnar með miklar viðbætur sem síðar urðu að sjálfstæðum ritum, eins og Reykjavík eftir Pál Líndal sem varð sex bindi, Akureyri eftir Steindór Steindórsson og Þingvellir eftir Björn Þorsteinsson.

Þó að Landið þitt Ísland vekti mikla hrifningu og seldist vel þótti mörgum heldur stirðlegt að burðast með öll sex bindin á ferðalögum. Örlygur efndi því til útgáfu Íslandshandbókarinnar sem svo var nefnd, undir ritstjórn Helga Magnússonar og Tómasar Einarssonar, tveimur bindum í handhægu broti, árið 1989. Þar var efni Landsins þíns Íslands stytt verulega og stöðum fækkað en öllu meginefni haldið. Þetta verk hefur notið feiknarlegra vinsælda.

Viðamikið staðfræðiverk um Ísland er einnig Íslenskir sögustaðir í fjórum bindum, þýðing Haralds Matthíassonar menntaskólakennara á Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island eftir danska skjalavörðinn Kristian Kaalund, kom út 1984-1986.

Af öðrum bókum, sem fjalla um Ísland, skal nefnd ritröðin Íslensk náttúra sem varð mjög vinsæl en í henni eru bækurnar Tré og runnar sem kom út 1982, Fuglahandbókin eftir Þorstein Einarsson sem kom út 1987 og Plöntuhandbókin eftir Hörð Kristinsson sem kom út 1989.

Árið 1980 hófst vinna hjá Bókaútgáfunni Erni og Örlygi í því grunnverki sem varð hin mikla Ensk-íslenska orðabók með alfræðilegu ívafi, að stofni til þýðing Sörens Sörensonar á bandarískri orðabók fyrir menntaskóla og háskóla. Það verk varð að lokum risavaxið í vinnslu með öllu því efni sem bætt var við, starfsmenn urðu á þriðja tug talsins, lausamenn í vinnu á fjórða tug og sérfræðingar um ákveðna efnisflokka um fjörutíu. Orðabókin er 1.241 blaðsíða í stóru broti. Hún er ómetanlegt verk enn í dag og verður framvegis og fullyrða má að enginn getur fyllilega unnið með enskan og íslenskan texta án þess að nýta sér hana. Örlygur Hálfdanarson kemst svo að orðið í formála að verkinu: Ég hefi allt frá unglingsárum dáðst að víðfeðmi enskunnar og fegurð en hef jafnframt lært því meir sem á ævina leið að meta ástkæra, ylhýra málið og gert mér grein fyrir að líf okkar sem sérstæðrar og jafnvel sjálfstæðrar þjóðar byggist á því að það haldi áfram að hljóma, haldi áfram að vera lifandi og sæki styrk í uppruna sinn og lagi sig með eðlilegum hætti að breyttum tímum.

Við gerð Ensk-íslenskrar orðabókar varð til ómetanleg reynsla í fyrirtækinu sem nýttist við gerð Ensk-íslenskrar skólaorðabókar sem kom út á vegum Arnar og Örlygs 1986 og Fransk-íslenskrar orðabókar sem kom út 1995. Aðrar sérhæfðari orðabækur komu einnig út hjá fyrirtækinu.

Eitt svið sem Örlygur Hálfdanarson lagði sig sérstaklega eftir í útgáfu veglegra verka var íslensk atvinnu- og menningarsaga en í ýmsum verkum um fyrri tíð tvinnast þessi svið saman. Svo er einnig um ferðabækur fyrri tíma. Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar kom út í viðhafnarútgáfu til að minnast afmælis landnáms á Íslandi árið 1974 og endurútgáfa af Ferðabók Sveins Pálssonar kom út 1983. Vegleg útgáfa af Ferðabók Stanleys kom út 1979. Stórmerkt menningarsögulegt verk er Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár, eftir danska höfuðsmanninn og fornleifafræðinginn Daniel Bruun, sem út kom 1987. Þá ber einnig að nefna bækurnar Sjósókn og sjávarfang eftir Þórð Tómasson, kom út 1993, og eftir Guðmund L. Friðfinnsson, Þjóðlíf og þjóðhættir, kom út 1992. Veglegar endurútgáfur komu einnig út á Skútuöldinni eftir Gils Guðmundsson, kom út 1977, og Hornstrendingabók eftir Þórleif Bjarnason, kom út 1983.

Örlygur Hálfdanarson hafði lengi íhugað útgáfu á alfræðiorðabók á vegum Bókaútgáfunnar Arnar og Örlygs, hvattur til slíks af vini sínum og leiðsögumanni í mörgu, fjölfræðingnum Steindóri Steindórssyni skólameistara. Að lokum var látið til skarar skríða. Vinna við Íslensku alfræðiorðabókina hófst 1987 og hún kom út 1990, þrjú bindi í stóru broti, alls 606 blaðsíður. Lögð var til grundvallar Fakta, alfræðiorðabók frá Gyldendal-bókaútgáfunni í Danmörku. Fimmtán manna ritstjórn var að starfi og 105 sérfræðingar sem þýddu erlenda efnið og sömdu íslenskt við hæfi. Ritstjórar voru Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir sem voru meðal þeirra sem unnið höfðu við Ensk-íslensku orðabókina og fleiri úr þeim hópi unnu að alfræðiorðabókinni. Örlygur Hálfdanarson skrifar í formála: Hin dýrmæta yfirsýn sem fengist hafði við störf að þeim bókum gerði hópnum kleift að fá á skömmum tíma heildarsýn yfir verkið og átta sig á eðli þess. Hann skrifar einnig: Alfræðiorðabókin er fyrsta íslenska bók sinnar tegundar og veitir upplýsingar á íslensku jafnt um íslenskt efni sem alþjóðlegt. Með henni er lagður grunnur að íslenskri alfræðiorðabókagerð.

Hér hefur aðeins hið stærsta verið nefnt í starfi Örlygs Hálfdanarsonar. Margir ágætir bókaútgefendur hafa starfað á Íslandi, gefið út vönduð afbragðsverk á flestum sviðum lífs og lista. Tveir þeirra skara fram úr að mínu mati, annar starfaði nærri upphafi prentlistar og þeirri miðlun menningar sem hún hafði í för með sér, hinn stóð nærri breytingum sem sér ekki fyrir endann á, í inntaki og miðlun menningarinnar. Ég nefni hinn fyrri, Guðbrand Þorláksson, hinn Örlyg Hálfdanarson.

Helgi Magnússon